Fjölgun starfa hjá ríkinu

Mánudaginn 20. mars 2006, kl. 15:27:12 (6348)


132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Fjölgun starfa hjá ríkinu.

[15:27]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég efast ekkert um að þær tölur eru réttar sem hv. þingmaður fer hér með en ég skal viðurkenna að ég hafði ekki kynnt mér þær eða það svar sem hann vitnaði til. Það má líka velta því fyrir sér hvers vegna hann beinir fyrirspurninni til mín en ekki einhvers annars ráðherra, m.a. vegna þess að í byggðaáætlun fer ég ekki með þennan málaflokk, þ.e. hvað varðar opinber störf.

Ég vil halda því fram að ýmislegt jákvætt hafi verið að gerast í þeim efnum nýlega í sambandi við fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni og ekki síst í því kjördæmi sem hv. þingmaður nefndi hér. Ég ætla ekki að fara í að telja það upp en það eru hlutir sem allir hv. þingmenn þekkja. Síðan er Byggðastofnun á Sauðárkróki og það kostaði nokkur átök að flytja hana þangað. Engu að síður var það gert og ég tel að hún hafi staðið sig ágætlega í störfum þar.

Ég held að það sé líka mikilvægt að við hér á hv. Alþingi tölum stundum um jákvæða hluti sem eru að gerast á landsbyggðinni. Það er vissulega ýmislegt jákvætt að gerast og almennt séð svífur miklu betri andi þar yfir vötnunum en oft hefur verið. Það er mikill ábyrgðarhluti hér af hv. þingmönnum að tala allt niður. Mér finnst sá hv. þingmaður sem hér talaði og kom fram með fyrirspurn vera því miður einn af þeim sem gera dálítið mikið af því að tala niður. Það er ekki það sem fólkið á landsbyggðinni vill helst heyra frá hv. Alþingi, að hlusta á þingmennina sína tala niður það kjördæmi sem það býr í.