Fjölgun starfa hjá ríkinu

Mánudaginn 20. mars 2006, kl. 15:30:31 (6350)


132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Fjölgun starfa hjá ríkinu.

[15:30]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það sem ég nefndi áðan var að þetta er ekki eitt af því sem ég fer með í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Byggðaáætlun er plagg sem varðar nánast alla ráðherra því að byggðamálin eru ekki bara í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti þó að formlega séð fari ég með utanumhald um byggðaáætlun.

Ég er ekkert að gera lítið úr áhyggjum hv. þingmanns af þessu. Auðvitað vildum við sjá opinberum störfum fjölga á landsbyggðinni, meira en verið hefur en ég nefndi hér ákveðna þætti sem ég tel að horfi mjög til bóta.

Ég vil líka minna á að það var ekki lítill slagur tekinn þegar Landmælingar voru fluttar upp á Akranes. Þó að okkur finnist í dag að Akranes sé nánast ekki á landsbyggðinni — ég segi fyrir mig sem kem norðan úr landi að mér finnst það vera orðið hluti af höfuðborgarsvæðinu í raun — var á þeim tíma mikill slagur tekinn af hálfu þess ráðherra sem þá fór með umhverfismál, Guðmundar Bjarnasonar, og (Forseti hringir.) ekki allir í þessum þingsal studdu það mál, svo mikið er víst.