Lax- og silungsveiði

Mánudaginn 20. mars 2006, kl. 16:23:34 (6371)


132. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2006.

Lax- og silungsveiði.

607. mál
[16:23]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit það svo sem að landbúnaðarnefnd er rösk til verkanna enda hef ég átt sæti í henni undanfarin ár. Ég vil samt sem áður leyfa mér að efast um að tími vinnist til að afgreiða þessi frumvörp, jafnvel þó að góður hugur standi til.

Það eru að sönnu mjög mikilvæg lög sem liggja hér fyrir, mjög mikilvæg lög. Ég tel mjög brýnt að við sem hljótum að bera ábyrgð á lagasetningunni þegar upp verður staðið, þ.e. þingmenn, vöndum okkur við þetta verk.

Ég efast í sjálfu sér ekkert um að vandað hafi verið til verka þegar þessi frumvörp voru smíðuð. Ég hef sjálfur fylgst með þessu úr fjarlægð og veit ósköp vel að hér hefur alls ekki verið kastað til höndunum.

En það þarf þó ekki að útiloka að hér liggi einhvers staðar mistök og við hljótum því að þurfa að fara vandlega yfir það. Það er mín tillaga að það verði beðið með að afgreiða þessi frumvörp nú í vor en þetta yrði svo aftur tekið fyrir á haustþingi.