Lokafjárlög 2004

Þriðjudaginn 21. mars 2006, kl. 14:51:44 (6496)


132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Lokafjárlög 2004.

575. mál
[14:51]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2004. Það er auðvitað rétt í byrjun að fagna því að frumvarpið skuli fram komið. Þó er vert að gagnrýna hve seint frumvarpið kemur til umræðu. En undanfarin ár hefur þó tekist að skila frumvörpum á þessum tíma og ætti þar af leiðandi að vera hægt að ljúka afgreiðslu þar af leiðandi lokafjárlaga á þessu þingi.

Það væri betra að frumvarpið kæmi fyrr fram og má í því sambandi vísa til 45. gr. laga um fjárreiður ríkisins. Þar er gert ráð fyrir því að lokafjárlög séu lögð fram með ríkisreikningi, enda gert ráð fyrir að lokafjárlög séu staðfesting á ríkisreikningi. En því miður er það svo enn einu sinni að mismunur er á lokafjárlögum og ríkisreikningi af ákveðnum ástæðum. Það er auðvitað meðal annars vegna þess að þetta er ekki unnið samhliða eins og lögin gera þó ráð fyrir. Það er ámælisvert að þetta skuli ekki ná fram að ganga eða að lögum skuli ekki breytt, ef það er mat hæstv. fjármálaráðherra að ógerningur sé að gera þetta samhliða. Þá þarf að breyta lögum um fjárreiður ríkisins til samræmis við það svo lagaskyldum sé fullnægt.

Þar sem ég er að ræða um 5. gr. fjárreiðulaga er auðvitað rétt að vekja athygli á öðru sem m.a. kemur fram í skýrslu frá Ríkisendurskoðun, endurtekið efni, má segja. Þeir endurtaka það í skýrslu sinni, um endurskoðun ríkisreiknings fyrir 2004 sem þeir hafa áður bent á, sem er í samræmi við það sem hæstv. ráðherra sagði undir lok ræðu sinnar varðandi færslur sem eiga sér stað um áramót, ýmist vegna þess að stofnanir hafa farið fram úr fjárheimildum eða eiga inni heimildir.

Ríkisendurskoðun hefur bent á að eðlilegt sé að hafa sömu viðmiðunartölu varðandi þessar tilfærslur á milli ára og viðhöfð er í reglugerð um framkvæmd fjárlaga, þ.e. 4% markið. Hæstv. ráðherra benti á það í ræðu sinni að því miður færu ýmsar stofnanir yfir 4% og sumar þeirra færðu halann milli ára, ár eftir ár hjá sumum stofnunum. Það er hins vegar rétt að vekja athygli á að aðrar stofnanir færa inneignir á milli ár eftir ár.

Því miður er ekki annað að sjá af þeim gögnum sem hér liggja fyrir en að þetta fari frekar vaxandi heldur en hitt. Milli áranna 2002 og 2004 minnir mig að slíkar færslur hafi numið um 7% en mér sýnist það sem færist á milli áranna 2004 og 2005 vera 12%. Hér fer þetta vaxandi, sem er ekki af hinu góða. Það er auðvitað eðlilegt að tekið sé undir það með hæstv. ráðherra að á þessu þarf að taka.

Hæstv. ráðherra bendir á að ákvæði séu um hvernig eigi að meðhöndla slík mál. Það vekur athygli að ár eftir ár er ekki farið eftir þeim reglum sem um það gilda. Ég held að ástæðan sé kannski fyrst og fremst sú, því er nú verr og miður eins og við höfum margoft bent á í umræðum um fjárlög, að grunnurinn sem þau eru byggð á er ekki nægjanlega traustur. Áætlanagerðin byggir ekki á nægilega traustum grunni og þess vegna treysta ráðuneytin sér ekki til að taka á vanda einstakra stofnana vegna þess að sú vitneskja er fyrir hendi í ráðuneytunum líka að fjárlögin eru ekki nægjanlega tengd raunveruleikanum. Það er afskaplega slæmt og ég vona að hæstv. fjármálaráðherra gangi vaskur til verks, nýr á þeim vettvangi, og muni ganga í lið með að fjárlögin fyrir árið 2007 verði tengdari raunveruleikanum en verið hefur undanfarin ár. Það er ekki til að auka agann í ríkisrekstrinum þegar svona gerist ár eftir ár. Ég endurtek, að þetta á auðvitað jafnt við um þá sem eru með hala og þá sem eru með inneignir. Það segir sig sjálft að þá er áætlanagerðin ekki nægjanlega góð. Þegar við sjáum að þessar færslur fara vaxandi en ekki minnkandi þá hlýtur það að ýta frekar undir að þessi mál verði skoðuð.

Frú forseti. Ég held að það sé rétt að vekja athygli hæstv. fjármálaráðherra, sem er nýr á þessum vettvangi, á því sem Ríkisendurskoðun segir í skýrslu sinni um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2004. En þar segir, með leyfi forseta, á bls. 105:

„Í skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2003 benti Ríkisendurskoðun á að það veikti framkvæmd fjárlaga að flutningur á fjárheimildum milli uppgjörstímabila væri jafn mikill og raun ber vitni og ætti það bæði við um aðila sem hafa eytt umfram gjaldaheimild og þá sem ekki hafa notað fjárheimildir sínar í mörg ár. Ríkisendurskoðun ítrekar það álit sitt að Alþingi taki þetta mál til skoðunar, en að óbreyttu má gera ráð fyrir að afgangsheimildir vegna reksturs ársins 2004 sem flytjast yfir á árið 2005 til hækkunar á fjárheimildum verði síst minni en áður. Telja verður mjög óheppilegt að stór hluti útgjaldaákvarðana sé þannig ekki ræddur í tengslum við afgreiðslu fjárlaga hvers árs.“

Frú forseti. Hér lýkur tilvitnun í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þetta er í anda þess sem ég hef sagt, að þetta snýr allt að því að veikja stjórn ríkisfjármálum, sé þannig um þetta gengið. Þetta gengur í raun ekki lengur. Það kemur fram í skýrslunni að þetta sé endurtekið efni frá Ríkisendurskoðun. Það er auðvitað áskorun um að Alþingi taki þetta mál sérstaklega til skoðunar. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að reyna enn einu sinni að auka á þrýsting varðandi þessi mál inn í fjárlaganefnd. Þar verður farið sérstaklega yfir þetta frumvarp til lokafjárlaga. Margt hefur verið rætt varðandi hvað megi styrkja alla þessa framkvæmd. En því miður hefur það ekki náðst fram nægilega vel. En ég trúi og treysti á að hæstv. fjármálaráðherra hafi sama áhuga á þessu og mörg okkar sem höfum tjáð okkur um þetta undanfarin ár.

Frú forseti. Mér sýnist einnig óhjákvæmilegt að gera breytingar á þessu frumvarpi eins og gert hefur verið undanfarin ár, ef ég man rétt, vegna staðfestingar á ríkisreikningi fyrir bæði árin 2002 og 2003, af þeirri einföldu ástæðu, eins og fram kemur í frumvarpinu, að ríkisreikningur og lokafjárlög fara ekki saman að öllu leyti. Hér eru gefnar á því viðamiklar útskýringar sem er ekki ástæða til að fara yfir í smáatriðum.

Undanfarin ár, eins og ég vitnaði til áðan að í 45. gr. laga um fjárreiður ríkisins, segir með leyfi forseta:

„Með ríkisreikningi sem lagður er fram á Alþingi, sbr. 7. gr., skal fylgja frumvarp til lokafjárlaga honum til staðfestingar.“

Það er auðvitað gert ráð fyrir því hér í 3. gr. frumvarpsins sem við hér ræðum, en þar segir:

„Lög þessi öðlast þegar gildi og er ríkisreikningur fyrir árið 2004 þar með staðfestur, sbr. 45. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins.“

Það er vandmeðfarið að gera það með þessu frumvarpi nema bæta við eins og gert hefur verið undanfarin ár. Þá hefur breytingartillaga komið fram, ef ég man rétt, við 2. umr. og varðandi afgreiðslu lokafjárlaga fyrir árið 2003 þá hljóðaði þessi grein þannig:

„Lög þessi öðlast þegar gildi og er ríkisreikningur fyrir árið 2003 jafnframt staðfestur ásamt athugasemdum ríkisendurskoðanda í áritun hans á reikninginn, sbr. 45. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins.“

Þannig að athugasemdir ríkisendurskoðanda séu teknar með þessu til staðfestingar til þess að þetta sé brúað. Mér sýnist allt benda til þess að við verðum að gera þetta enn einu sinni.

Frú forseti. Ég sagði að það væri ekki ástæða til þess að fara hér í einstaka liði þar sem gefin er skýring á af hverju ekki er fullt samræmi á milli lokafjárlaganna og ríkisreikningsins en við munum fara betur yfir þetta í fjárlaganefndinni og skoða einstök ráðuneyti varðandi það hvernig þau standa með tilliti til fjárlagaársins. Það er grábölvað að við séum að fjalla hér um hluti og staðfesta ákveðin útgjöld sem áttu sér stað á árinu 2004, vera að því nú á árinu 2006. Það er, eins og Ríkisendurskoðun benti á í athugasemdum sínum, ekki hægt að við séum ekki í tengslum við fjárlög að fjalla um fjárútlát þess árs sem er fram undan eins og gert er ráð fyrir þegar fjárlög eru samþykkt.

Það eru fleiri þættir sem hægt væri að gera athugasemdir við, t.d. gerir Ríkisendurskoðun athugasemdir við þá áætlunargerð sem stunduð hefur verið, m.a. varðandi álagningu skatta eða þær áætlanir sem þar liggja fyrir. Ríkisendurskoðun segir í athugasemdum sínum að það sé ekki líðandi öllu lengur að ekkert skuli vera gert í þessu.

Svo ég vitni, með leyfi forseta, orðrétt í eina setningu í skýrslu Ríkisendurskoðunar:

„Ríkisendurskoðun telur að skattyfirvöld verði að taka til hendinni í þessum málum.“

Það varðar þær áætlanir sem fyrir eru lagðar því að ár eftir ár er verið að afskrifa skattkröfur vegna þess að áætlanirnar eru svo víðs fjarri raunveruleikanum og það er hægt að bæta því við að mörg undanfarin ár hafa fulltrúar úr fjármálaráðuneytinu, sem komið hafa á fund fjárlaganefndar, tekið undir það að þarna þurfi að taka til hendi og hafa borið þau skilaboð á milli að skattyfirvöld séu full áhuga á því en því miður er árangurinn miklu minni en við hefði mátt búast.

Að lokum, frú forseti, held ég að það sé rétt að vitna hér í athugasemdir við frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2004, þ.e. í texta sem kemur úr fjármálaráðuneytinu sjálfu.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að komið sé í veg fyrir að slík frávik myndist milli fjárveitinga og útgjalda á viðföngum einstakra fjárlagaliða. Í því sambandi þarf að gæta þess að bókhaldi sé hagað þannig að kostnaður einstakra verkefna sé gjaldfærður á sömu viðfangsefni og fjárheimild fyrir útgjöldunum var veitt á í fjárlögum. Eins er nauðsynlegt að endurskoða skiptingu kostnaðar á milli viðfangsefna í fjárlögum ár hvert.“

Frú forseti. Hér bendir fjármálaráðuneytið á afskaplega mikilvægt verkefni. Það er óþolandi að ár eftir ár skuli það sama gerast og allt of lítið virðist vera gert í því að bæta vinnulagið þannig að komast megi hjá slíkum athugasemdum. En við verðum að vona, svo að ég endurtaki það enn einu sinni, þar sem nú er ferskur og nýr hæstv. fjármálaráðherra að störfum, að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að þessu máli verði kippt í liðinn og sett verði í gang vinnuferli sem hafi það augljósa markmið að svona hlutir endurtaki sig ekki. Ella, frú forseti, verður að álykta sem svo að það sé vilji þeirra, þrátt fyrir hin fögru orð, að það sé best að hafa þetta eins og það hefur verið undanfarin ár en því verr og miður fylgir því það agaleysi sem við höfum til margra ára gagnrýnt við stjórn fjármála ríkisins.