Vegabréf

Þriðjudaginn 21. mars 2006, kl. 16:03:06 (6511)


132. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2006.

Vegabréf.

615. mál
[16:03]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um vegabréf og eins og hefur komið fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra þá eru tvær meginbreytingar þar á ferð. Í fyrsta lagi á að taka upp nýja gerð vegabréfa, sem innihalda eiga rafræn lífkenni, og í annan stað er verið að breyta útgefanda á vegabréfum, það er sem sagt verið að flytja þá starfsemi frá Útlendingastofnun til Þjóðskrár.

Við ræddum fyrr í dag við hæstv. forsætisráðherra í tengslum við annað frumvarp, sem laut að flutningi Þjóðskrár frá Hagstofunni til dómsmálaráðuneytisins, og í þeirri umræðu komu m.a. fram spurningar um hvort það stæði til að flytja Þjóðskrána eða hluta af verkefnum Þjóðskrár út á land. Hæstv. forsætisráðherra vísaði þeirri spurningu á hæstv. dómsmálaráðherra, sem hann vissi að mundi mæla fyrir þessu máli hér á eftir, og það væri fróðlegt að bera þá spurningu upp gagnvart hæstv. dómsmálaráðherra varðandi þann hugsanlega flutning.

Í greinargerð frumvarpsins segir að krafan um breytingarnar sé vegna alþjóðlegra krafna. Mig langar í fyrsta lagi að spyrja hvort verið sé að ganga eitthvað lengra en alþjóðlegar kröfur gera ráð fyrir. Eru þetta fyrst og fremst kröfur sem Bandaríkjamenn hafa verið að setja? Í greinargerðinni er einnig vísað í samræmdar kröfur Schengen-ríkjanna, talað um samkomulag milli Schengen-ríkjanna um að ríki skuli hefja útgáfu nýrra vegabréfa eigi síðar en 22. ágúst nk. Þá langar mig að spyrja í framhaldi af því hvort þetta séu fyrst og fremst bandarískar kröfur eða evrópskar kröfur varðandi þetta samkomulag Schengen-ríkjanna. Stendur það til að öll Schengen-ríkin verði að hefja nýja útgáfu vegabréfa eins og við erum að gera hér? Er hæstv. dómsmálaráðherra eitthvað kunnugt um það hvort ferðalög innan Schengen-svæðisins geti raskast ef ákveðin Schengen-ríki taka ekki til við að hefja útgáfu þessara nýju vegabréfa? Mig langaði aðeins að fá upplýsingar um það hvað er að gerast á vettvangi Evrópuþjóða hvað þetta varðar því að fókusinn hefur auðvitað verið svolítið á kröfur Bandaríkjamanna.

Í frumvarpinu er lífkenni skilgreint þannig:

„Lífkenni geta til dæmis verið andlitsmynd, augnmynd, fingraför, undirskrift en einnig upptaka af rödd viðkomandi eða önnur þau líkamlegu einkenni sem unnt er að mæla með ákveðinni tækni þannig að þau greini einstaklinga hvern frá öðrum. Lífkenni eru oftast myndir sem unnt er að nota til auðkenningar einstaklings. Til dæmis er andlitsmynd í vegabréfi lífkenni.“

Svo er talað um rafræn lífkenni, svo sem rafrænar andlitsmyndir, sem greina má með tölvubúnaði og þannig má vélrænt aðgreina einstaklinga.

Mig langaði að forvitnast um það hjá hæstv. dómsmálaráðherra hvort þetta sé tæmandi upptalning á því sem honum dettur a.m.k. í hug hvað er lífkenni, því að stundum er umræðan um lífsýni. Er það ekki alveg rétt hjá mér að þetta á ekkert skylt við lífsýni eins og það hefur verið í umræðunni og lífsýni eru ekkert undirflokkur lífkenna ef svo mætti segja, til að fyrirbyggja þann misskilning að við erum ekkert að fara inn á þær brautir?

Önnur meginbreytingin, eins og ég sagði, í þessu frumvarpi snertir útgáfu vegabréfa. Almenn vegabréf verða eftir samþykkt þessa frumvarps gefin út af Þjóðskrá í stað Útlendingastofnunar og Þjóðskráin verður síðan flutt til dómsmálaráðuneytisins. Samkvæmt frumvarpinu verður útgáfa þjónustuvegabréfa og diplómatískra vegabréfa áfram hjá utanríkisráðuneytinu og síðan verður útgáfa vegabréfa fyrir útlendinga og flóttamenn áfram hjá Útlendingastofnun. Mig langaði að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Af hverju voru þessi vegabréf skilin eftir, af hverju eiga vegabréf útlendinga enn þá að vera hjá Útlendingastofnun? Þá er ég kannski að tala um í ljósi möguleika á að nýta mannafla, aðstoð og þekkingu hjá Þjóðskránni sem verður kannski hjá dómsmálaráðuneytinu.

Það væri líka fróðlegt að vita það ef hæstv. dómsmálaráðherra hefur það á takteinum: Hver er eiginlega fjöldi þessara vegabréfa, þ.e. vegabréfa til útlendinga og flóttamanna og síðan þessara þjónustuvegabréfa og diplómatísku vegabréfa? Ég held að upplýsingar um fjölda þjónustuvegabréfa og diplómatískra vegabréfa liggi fyrir í einhverri fyrirspurn sem mikið var gert úr hér í haust. En það er bara svona til að fá einhverja innsýn í hvort þetta sé mikill fjöldi vegabréfa sem er þá skilinn eftir fyrir utan Þjóðskrána.

Eðlilegt er að spyrja: Mun kostnaður við kaup á vegabréfum aukast? Greinargerðin og hæstv. ráðherra segja nei. Það er að sjálfsögðu gott og gilt. Við sjáum líka að frumvarpið segir að þessi nýju vegabréf verði dýrari í framkvæmd og þó að hæstv. ráðherra og frumvarpið segi að gjaldtakan eigi ekki að aukast langar mig að spyrja hvort hæstv. dómsmálaráðherra geti fullvissað okkur um að hann muni t.d. ekki beita sér fyrir að gjaldtaka vegabréfanna verði aukin í hans ráðherratíð á næstunni a.m.k. Það getur vel verið að menn stefni að því að auka ekki gjaldtökuna en síðan getur það breyst. Getur hann með nokkurri vissu fullyrt að þau muni ekki hækka í verði? Það er væntanlega ákveðin freisting til þess í ljósi þess að framleiðsla þessara nýju vegabréfa verður dýrari. Við sjáum líka að gildistaka vegabréfa styttist úr tíu árum í fimm ár, eins og kemur fram í 5. gr. Þá er ákveðin hætta á því að kostnaðurinn, ef menn þurfa að kaupa sér nýtt vegabréf á fimm ára fresti í staðinn fyrir tíu ára fresti plús það að hugsanlega verða þau dýrari í framtíðinni, verði allnokkur.

Aðeins um 7. gr., svona nánast að lokum. Í greinargerð með 7. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir því að opinberum stofnunum sé heimilt að nota skilríkjaskrá við skilríkjaútgáfu. Þá verði Þjóðskrá og lögreglu heimilt að nota skilríkjaskrá til að bera kennsl á mann eða staðreyna að hann sé sá sem hann kveðst vera.“

Við ræddum þetta einnig við hæstv. forsætisráðherra hér fyrr í dag og hann vísaði á hæstv. dómsmálaráðherra hvað þetta varðar. Okkur langaði að vita hvort samvinna Þjóðskrár og lögreglu sé eitthvað að breytast með þessu eða verður þetta bara eins og hefur verið? Er verið að auka aðgang lögreglu að þessum upplýsingum eða er þetta bara eins og það hefur alltaf verið, þannig að hæstv. dómsmálaráðherra geti þá staðfest að þetta sé bara svipað og það hefur verið og engin grundvallarbreyting hvað það varðar eða hvað?

Að lokum er það 4. gr. en þar er kannski þriðja efnisbreytingin:

„Lagt er til að heimild til útgáfu vegabréfs til barns á grundvelli umsóknar frá öðru forsjárforeldra verði þrengd frá því sem nú er. Sú breyting sem hér er lögð til snertir hvorki upptöku lífkenna í vegabréf né breyttan útgefanda bréfanna.“

Þetta á vel við störf allsherjarnefndar þessa dagana þar sem við erum að fjalla um annað frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra sem lýtur að því að gera sameiginlega forsjá að meginreglu.

Með leyfi forseta, stendur í 4. gr.:

„Heimilt er að gefa út vegabréf samkvæmt umsókn annars forsjárforeldris þegar hitt forsjárforeldri er ófært um að veita samþykki sitt vegna sjúkdóms, fjarvistar eða annarra sérstakra aðstæðna að undangenginni athugun á umræddum aðstæðum og mati á því hvort hætta sé á að barn verði fært úr landi með ólögmætum hætti.“

Mig langaði að spyrja hvort hæstv. dómsmálaráðherra gæti upplýst hvernig þessi athugun ætti að fara fram. Við sjáum að í greinargerðinni er sagt að athugun Þjóðskrár lúti almennum reglum stjórnsýslulaga — og það liggur auðvitað í augum uppi sem opinber stofnun — og að þessi athugun beinist að því að fá staðfest eftir því sem unnt er að enginn ágreiningur sé á milli foreldranna um útgáfu vegabréfs til barnsins, að raunveruleg vandkvæði séu á því að afla umsóknar beggja foreldra og að sá sem sækir um hafi ekki slík tengsl við annað ríki að hætta sé á að hann hverfi þangað með barnið.

Þetta síðasta efnisatriði, varðandi það að Þjóðskráin athugi hvort viðkomandi hafi ekki slík tengsl við það ríki sem hann er að fara til, það er t.d. ekki í lögunum en það er útskýrt þarna í greinargerðinni. En það væri gott ef hæstv. dómsmálaráðherra gæti dýpkað skilning okkar á því hvernig þessi athugun færi fram sem vel er hægt að ímynda sér að gæti svolítið reynt á a.m.k. í ljósi þeirra upplýsinga sem við höfum fengið.

Að lokum tek ég undir það sem hæstv. dómsmálaráðherra segir, að það er mikilvægt fyrir Íslendinga að búa við góð ferðaskilríki. Íslendingar ferðast mjög mikið og ég held að stór hluti af þjóðinni hafi vegabréf. Án ábyrgðar ætla ég að rifja það upp að ég sá það einhvers staðar að í Bandaríkjunum eru einungis um 15% íbúa með vegabréf, það er merkilegt í ljósi þess fjölda sem við erum vön hvað varðar einstaklinga og borgara sem hafa vegabréf.

Það er gríðarlega mikilvægt að við leggjumst öll á eitt um að Íslendingar geti ferðast tiltölulega óhindrað milli landa og að ferðaskilríkin okkar séu þannig úr garði gerð að Íslendingar lendi ekki í vandkvæðum hvert og hvenær sem þeir fara.