Lækkun raforkuverðs

Miðvikudaginn 22. mars 2006, kl. 14:54:07 (6595)


132. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2006.

Lækkun raforkuverðs.

618. mál
[14:54]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra vék að rekstrarformi Landsvirkjunar í ræðu sinni hér áðan. Ég er nokkuð sannfærður um það að leiðin til að lækka raforkuverð til heimilanna í landinu er ekki að hlutafélagavæða og hugsanlega selja Landsvirkjun eins og nokkuð ljóslega er skoðun margra þingmanna stjórnarflokkanna. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur áður lýst því yfir, held ég nokkuð örugglega, að hún telji eðlilega framvindu mála að Landsvirkjun verði hlutafélagavædd og þá væntanlega með það markmið að hún verði einhvern tíma seld að hluta eða öllu til einhverra aðila.

Hæstv. forsætisráðherra aftók hins vegar í umræðum við þann sem hér stendur fyrir nokkru í þinginu að til greina kæmi að hlutafélagavæða og selja Landsvirkjun. Ég vildi því bæta þeirri spurningu við til hæstv. iðnaðarráðherra hvort það kæmi enn til greina að hennar mati að hlutafélagavæða Landsvirkjun og selja að hluta eða öllu leyti eða (Forseti hringir.) hvort hún hefði skipt um skoðun í því máli.