Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 27. mars 2006, kl. 15:58:39 (6646)


132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[15:58]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður svaraði því ekki í hverju munurinn væri fólginn á íslenskum markaði og þeim mörkuðum erlendis sem hafa tekið upp samsvarandi rekstur, þar sem komið hefur í ljós að rafmagnsverðið hefur ekki lækkað heldur hefur það hækkað og þjónustan hefur versnað. Ég vil biðja hann um að gera grein fyrir því í stuttu andsvari ef hann getur, eða þá í seinni ræðu sinni, í hverju þessi munur á markaðnum er fólginn.

Nú hefur komið í ljós, hæstv. forseti, að það er mikill áhugi hjá öðrum orkufyrirtækjum að kaupa eigur Rariks, bæði dreifiveiturnar og eins virkjanir. Hvernig ætlar Framsóknarflokkurinn að koma í veg fyrir það? Minni ég þá á yfirlýsingar um að ekki ætti að selja Símann eða bankana. Ég tel að hv. þingmenn og þjóðin öll geti ekki, miðað við þá reynslu sem við höfum af yfirlýsingum Framsóknarflokksins um að ekki eigi að selja, treyst því að staðið verði við þau orð. Hvernig ætlar hann að koma í veg fyrir þetta?