Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 27. mars 2006, kl. 20:00:29 (6659)


132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[20:00]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (frh.):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins. Til upprifjunar og áréttingar vil ég nefna að frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði liggur frammi tillaga til rökstuddrar dagskrár um að Alþingi vísi þessu máli frá. Fyrsti flutningsmaður, hv. þm. Jón Bjarnason, gerði grein fyrir efnisatriðum þessarar tillögu sem við fylkjum okkur öll að baki, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggja áherslu á að raforka til almennra notenda og fyrirtækja sé mikilvægur þáttur almennrar grunnþjónustu sem á að reka á félagslegum grunni. Þau skref sem hafa verið stigin í markaðsvæðingu raforkukerfisins hafa þegar leitt til mikilla hækkana á verði raforku til neytenda víða um land, þvert á gefin loforð um annað. Hlutafélagavæðing Rariks er liður í yfirlýstum markmiðum stjórnvalda að einkavæða raforkukerfið og búa orku- og dreifingarfyrirtæki landsmanna undir sölu á almennum markaði. Þau áform eru andstæð hagsmunum almennings í landinu. Með vísan til framanritaðs vísar Alþingi máli þessu frá og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þessi tillaga verður borin upp til atkvæða þegar þar að kemur. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því að klukkan hér í borðinu er komin í eitthvert ólag. En það skiptir nú ekki miklu máli.

Ég hef vikið að ýmsum þáttum sem hafa komið fram við þessa umræðu og vék sérstaklega að efnisatriðum sem hv. formaður iðnaðarnefndar, Birkir Jón Jónsson, gerði að umtalsefni í sinni framsöguræðu hér við 2. umr. Hann sagði að hlutafélagavæðingin væri í bland til að tryggja sveigjanleika í rekstri Rariks. En ég benti hins vegar á að þennan sveigjanleika væri hægt að tryggja á annan hátt en að gera fyrirtækið eða stofnunina að hlutafélagi. Benti á sameignarfyrirkomulagið, byggðasamlagið þess vegna eða önnur form sem yrðu prófuð, t.d. á grundvelli sameignarfyrirkomulagsins, sem hefðu þá kosti hlutafélagaformsins en væru án ókostanna. Ég nefndi hverjir þeir væru. Í fyrsta lagi vék ég að réttindum starfsfólks sem eru skert við hlutafélagavæðingu stofnana. Ég vék að aðhaldi frá eigendum sem er minna og ógagnsærra í hlutafélögum en í opinberum rekstri. Í opinberum rekstri kemur aðhaldið frá kjörnum fulltrúum ríkis eða sveitarfélaga en í hlutafélagaforminu kæmi það frá hluthöfum. Ef hluthafinn væri orðinn einn eða settur undir einn ráðherra þá væri þetta aðhald minna og gagnsæið væri einnig minna.

Í þessu sambandi vék ég að stöðugleikanum, að hann væri ekki tryggður sem skyldi í hlutafélagaforminu, og vakti þá máls á ummælum hv. þm. Kjartans Ólafssonar, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, við þessa umræðu, sem ólmur vill selja Rarik ef nógu gott verð fæst fyrir fyrirtækið. Segir það eitt skipta máli að tryggja gott verð og síðan afhendingartryggingu, sem hann kallar svo, og hagstætt verðlag. Ég benti á að í nær öllum tilvikum þar sem raforkukerfin hafa verið einkavædd hefur þróunin ekki orðið á þann veg sem hann lýsir. Verðið hefur hækkað og trygging fyrir afhendingu hefur orðið minni. Ég vísaði á eitt dæmi í Svíþjóð, Norðurlöndin, og víðar hvað þetta snertir. Ég vísaði í álitsgerð matsfyrirtækisins Fitch hvað þetta snertir um samanburð á einkareknum og opinberum fyrirtækjum í Bandaríkjunum.

Síðan vék ég að öðrum þætti, sem einnig kom fram í máli hv. formanns iðnaðarnefndar, þ.e. að samkeppnisumhverfið muni færa niður raforkuverð. Ég hef miklar efasemdir um það og vísa aftur í reynsluna, samkeppnisumhverfið hefur hreinlega ekki orðið til. Markaðsvæðing raforkukerfanna hefur ekki leitt til þeirrar samkeppni sem menn höfðu ætlað. Ég vitnaði þar í ummæli eins helsta talsmanns Evrópusambandsins, þess manns sem fer með raforkumálin innan framkvæmdastjórnar ESB, sem lýsti því yfir í heimsókn sinni hingað til lands ekki fyrir svo ýkja löngu að markaðsvæðingin hefði ekki fært neytendum þær hagsbætur sem menn hefðu vonast til. Þetta var Andris Piebalgs sem er framkvæmdastjóri Evrópusambandsins á sviði orkumála. Hann sagði að það hefðu orðið minni viðskipti yfir landamæri en menn hefðu ætlað og verðlagið hefði almennt farið hækkandi, gagnstætt því sem vonir hefðu staðið til. Hann var hins vegar trúaður á að þetta mundi allt saman lagast með tíð og tíma eins og menn hafa löngum sagt, sem hafa trúað á hugmyndafræði en neitað að horfa til reynslunnar. Þetta var um samkeppnisumhverfið.

Varðandi þriðju staðhæfingu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar um að ekki standi til að einkavæða raforkukerfið, þá fór ég mjög rækilega yfir ummæli sem hafa komið frá talsmönnum Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar, hæstv. iðnaðarráðherra sérstaklega, um þann þátt málsins. Þau hafa mjög afdráttarlaust gengið út á að það eigi að stefna að því að færa raforkugeirann úr hendi ríkisins. Það sé úrelt fyrirkomulag. Svo var að skilja á ráðherranum að almenn sátt væri um það í þjóðfélaginu að það væri úrelt fyrirkomulag. Íslendingar gæfu lítið fyrir ríkisrekstur. Það væri eðlilegt að stefna í þessa átt. Hún nefndi sérstaklega lífeyrissjóðina hvað það varðar.

Síðan vék ég að því sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson talaði um sem hina einlægu ósk starfsmanna um að hlutafélagsvæða Rarik. Ég leyfi mér að efast mjög eindregið um að sú ósk hafi verið eins einlæg og eins mikil ósk og hv. þingmaður upplifir. Alla vega leyfi ég mér að staðhæfa að þetta sé ekki einhlít skoðun frá starfsmönnum þó hún kunni að vera afstaða einhverra starfsmanna og hugsanlega margra. Eftir því sem mér er sagt hafa menn fremur verið að horfa til réttinda sinna og hvað verði um lífeyrisréttindi og önnur réttindi sem fólk hefur búið við.

Ég ætla að koma nánar inn á þessi atriði, um réttindamál starfsmanna, en áður aðeins að víkja að athugasemdum sem koma frá ýmsum umsagnaraðilum. Ég byrjaði á að vísa í álitsgerð Alþýðusambands Íslands sem leggst ekki gegn frumvarpinu en áskilur sér rétt til að koma með umsagnir og ábendingar og athugasemdir á síðari stigum. Það fer nú að verða ansi seint ef stefnt er að því að lögleiða þetta frumvarp innan fárra daga.

Alþýðusambandið bendir á mikilvægi Rariks, Rafmagnsveitna Reykjavíkur, í atvinnuuppbyggingu og vísar í félagslegt mikilvægi þessarar starfsemi á Íslandi á undangengnum áratugum og ég vil taka undir þetta. Einnig hitt sem Alþýðusambandið bendir á að forsenda atvinnulífs í landinu er hagstætt raforkuverð. Þar lagði ég áherslu á mikilvægi þess að allir sætu við sama borð og alla vega ættu íslensk fyrirtæki og heimili ekki að búa við lakari kost en stóriðjufyrirtækin. En sú er því miður raunin. Það er sú stefna sem ríkisstjórnin hefur fylgt, að hygla sérstaklega stóru álrisunum, stóriðjurisunum, og þeir fá raforkuna á mun hagstæðari prís en aðrir.

Ég vék að álitsgerð Samtaka atvinnulífsins sem lítur á þetta eins og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa gert hér við umræðuna, sem skref í átt að markaðskerfi. Þá er stóra spurningin sem sjálfstæðismennirnir eiga eftir að svara og hljóta að þurfa að gera gagnvart sínum kjósendum: Verður einhver markaður? Verður einhver markaður eða verður niðurstaðan sú sama og hún hefur orðið annars staðar, fákeppni, meiri samþjöppun og jafnvel samráð um verðlagið? Þá hefði betur verið heima setið og byggt á þeim grunni sem við höfum nú.

Í þessari upptalningu gleymdi ég núna að geta þess sem ég tel að skipti máli. Það er um hinn trausta bakhjarl sem mikilvægt er að standi að baki grunnþjónustu í samfélaginu eins og raforkukerfinu — þegar eigendur fjármagnsins í slíkum fyrirtækjum horfa til margra átta og fjárfesta í mismunandi geirum. Ég tók hér dæmi af fjölþjóðafyrirtækinu Vivendi sem var næstum því orðið gjaldþrota. Ég hygg að það hafi verið árið 2002. Þá féllu hlutabréfin um 80%. En fyrirtækið var þá farið að fjárfesta í fjölmiðlafyrirtækjum, orðið einn stærsti fjölmiðill heimsins, og þegar illa áraði þar hlupu hluthafar í vatninu á dyr og hlutafé hrapaði í verði. Svo þetta er svona spurning um samkeppnisumhverfið sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefnir svo. Það eru nú ýmsar hliðar á því. Hvort það er endilega hagstætt að fara með grunnþjónustu samfélagsins inn á slíkan vettvang — ég hef miklar efasemdir um að svo sé, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Af öðrum ábendingum sem fram koma er það að segja um orkufyrirtækin að þau staðnæmast við þetta, að ríkið eigi að verða eini hluthafinn og sjá þá ekki þá kosti sem markaðssinnar hafa verið að benda á með hlutafélagaforminu. Að það standi til að kaupa og selja hluti. Slíkar ábendingar er að finna m.a. frá Norðurorku sem furðar sig á því að ekki skuli sagt að öll hlutabréf í félaginu skuli í upphafi vera í eigu ríkissjóðs.

Þá finnst Norðurorkumönnum undarlegt að iðnaðarráðherra skuli fara með eignarhlut ríkisins í félaginu og benda á að iðnaðarráðherra sé ráðherra orkuiðnaðarins alls þannig að þetta sé hugsanlega ekki eðlilegt. Það er ábending sem kemur reyndar frá ýmsum öðrum og er að finna í breytingartillögu, ef ég man rétt, frá Samfylkingunni um að eðlilegt sé að hluturinn sé færður í hendur fjármálaráðherra. Ég ætla ekki að hafa miklar skoðanir á því á þessari stundu, því að ég vil yfir höfuð ekki að búið verði til hlutafélag. Þar tölum við einum rómi í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og höfum bent á hversu fráleitt það er að búa til hlutafélag um einn hlut, félag sem nýtur ekki kosta hlutafélagsformsins en er með alla gallana sem fylgja því kerfi. Ég ætla ekki að fara í gegnum allar þær ábendingar sem þinginu hafa borist en svipaðar ábendingar koma frá Orkuveitu Húsavíkur og frá Norðurorku um að iðnaðarráðherra eigi að gæta jafnræðis og það sé óeðlilegt að hluturinn sé vistaður hjá því ráðuneyti. Enn og aftur erum við þeirrar skoðunar að starfsemin eigi öll að vera vistuð þar og það sé hið eðlilega í málinu.

Hjá Hitaveitu Suðurnesja staðnæmast menn einnig við 3. gr. sem kveður á um að öll hlutabréf í félaginu skuli vera eign ríkissjóðs og að iðnaðarráðherra skuli fara með eignarhlut ríkisins. Þar er svipuð gagnrýni og kemur frá öðrum aðilum. Landsvirkjun gerir ekki athugasemdir, ekki Náttúrufræðistofnun og ekki Orkustofnun. Orkuveita Reykjavíkur er með ýmsar athugasemdir og sömuleiðis Samtök iðnaðarins sem styðja þessa lagabreytingu því hér segir, með leyfi forseta:

„Samtök iðnaðarins hafa fengið til umsagnar ofangreint lagafrumvarp. Samtökin styðja að stofnað verði hlutafélag um Rafmagnsveitur ríkisins en telja að stofna beri tvö aðskilin hlutafélög um starfsemina. Með því móti má skjóta styrkari fótum undir samkeppni á framboðshlið raforkumarkaðarins og stuðla að því að markmið nýrra raforkulaga náist.

Rafmagnsveitur ríkisins (Rarik) framleiða, dreifa og selja raforku og varmaorku. Fyrirtækið kemur einnig að flutningi á raforku með eignaraðild að Landsneti. Dreifing og flutningur raforku og varmaorku, ásamt sölu á varmaorku, er sérleyfisstarfsemi en framleiðsla og sala á raforku er samkeppnisstarfsemi.

Samtök iðnaðarins telja að það hái samkeppni á raforkumarkaði að eignarhald er á fárra höndum og sömu aðilar eiga að stórum hluta orkuframleiðslu, flutningsnet, dreifikerfi og sölufyrirtækin. Vandséð er hvernig samkeppni geti þrifist þegar eignarhaldið er sameiginlegt út allt framleiðsluferlið.“

Síðan er vitnað í skýrslu frá ESA-dómstólnum.

Þarna velta menn vöngum yfir því hvort hér skapist raunverulegt samkeppnisumhverfi og þó að þeir hjá Samtökum iðnaðarins séu trúaðir á að slíkt fyrirkomulag yrði til góðs hef ég hins vegar miklar efasemdir um það og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og vísum þar einfaldlega til reynslunnar.

Síðan höfum við vakið athygli á því að fjárfestar hér á markaði horfa spenntir til þess sem er að gerast. Ég hef áður vitnað til þess sem kom fram þegar Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Olíufélagsins, skýrði frá því að til stæði að selja Olíufélagið, en þá voru höfð eftir honum athyglisverð ummæli á vefsíðu Morgunblaðsins. Þar sagði, með leyfi forseta:

„Fyrir einu og hálfu ári ákváðum við að efla fjárfestingar okkar utan Íslands og fara í frekari útrás en við höfum þegar verið í á undanförnum árum. Núna metum við það svo að ástandið á íslenska markaðnum, efnahagsástandið, sé afar hagstætt og verði það vonandi næstu árin. Jafnframt að Olíufélagið sé til þess að búið að fara í frekari verkefni hér heima svo sem í orkugeiranum, hvort sem það er í vatni eða rafmagni, og skapa sér nýja stöðu þar eða í smásölu eða í heildsölu. Við teljum að nú sé áhugaverður tímapunktur fyrir nýja aðila að gefa sig fram sem hafa metnað til þess að fara áfram með fyrirtækið.“

Þetta eru nokkuð athyglisverðar yfirlýsingar sem hér koma fram. Þarna eru fjárfestar að horfa til þess sem er að gerast í þingsalnum og í Stjórnarráðinu, horfa til afkasta Framsóknarflokksins við að einkavæða vatn og raforku og annað sem þessir aðilar telja að séu spennandi fjárfestingartækifæri. Hér er eitt dæmi um slíkt. Það verður mér alla vega umhugsunarefni í ljósi þess hvaðan sá aðili kemur sem talar svona, þ.e. frá olíufélögunum. Við höfum haft tvö, þrjú olíufélög og hvernig hafa þau farið með vald sitt? Hvernig hafa þau farið með stöðu sína á markaðnum? Þau hafa haft með sér samráð. Sama verðlag hefur verið á olíunni og þau hafa meira að segja komið sér saman um útboðin.

Nú er ég ekki að segja að það þurfi að verða alveg svo grófur veruleiki í raforkunni og hann reyndist vera í vatninu en þó er ekkert gefið í þeim efnum því að þetta er nákvæmlega það sem gerst hefur á raforkumarkaði í Evrópu og annars staðar í heiminum, að mikið samráð hefur orðið á fákeppnismarkaði. Það sem mér finnst sýnt að muni gerast er að hér verði tvær blakkir sem framleiða orku. Annars vegar erum við með Landsnetið sem kemur til með að dreifa raforkunni og síðan verða tvær blakkir á suðvesturhorninu, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja að öllum líkindum, og síðan Norðurorka og starfsemi á þeim vængnum. Spurningin er hvernig þetta komi til með að skila sér inn í raunverulega samkeppni. Um það hef ég mjög miklar efasemdir. Og þá spyr maður: Til hvers er af stað farið í þennan leiðangur?

Ég hef vitnað í ýmsar álitsgerðir um þetta frumvarp og ætla núna að víkja að því sem snýr að starfsmönnum því að þar finnst mér ýmsum atriðum ekki vera nægilega vel svarað. Ég er hér með frumvarpið og langar til að byrja á því að vitna í álitsgerð frá BSRB, sem er ítarleg og vönduð og snýr einkum að réttindastöðu opinberra starfsmanna sem eru allnokkrir innan Rarik. Þar er reyndar allur gangur á, það eru starfsmenn úr Alþýðusambandinu og BSRB hjá stofnuninni og þeir búa við mismunandi réttindakerfi eins og gerist í fleiri stofnunum, t.d. hjá Ríkisútvarpinu.

Í álitsgerð BSRB segir í upphafi, með leyfi forseta:

„BSRB leggur áherslu á að líta beri á raforkukerfi landsins sem hluta af grunnþjónustu sem eigi að að vera á vegum ríkis og sveitarfélaga. Samkvæmt 3. gr. frumvarpsins er ætlunin að Rafmagnsveitur ríkisins skuli vera eign ríkissjóðs og fari iðnaðarráðuneytið með eignarhlutinn. Ekki er auðvelt að átta sig á hvað vakir fyrir stjórnvöldum með þessari breytingu. Tvennt hlýtur að koma til álita. Í fyrsta lagi að til standi að selja rafmagnsveiturnar, nokkuð sem BSRB varar eindregið við enda reynslan erlendis frá af einkavæðingu þessarar starfsemi mjög slæm. Hitt atriðið sem kemur til álita varðar kjör starfsmanna, en í athugasemdum með frumvarpinu segir að með hlutafélagsforminu verði „reksturinn sveigjanlegri.“ Hér er væntanlega verið að vísa til réttarstöðu starfsmanna sem er veikt með þessu frumvarpi. Í umsögn BSRB er fyrst og fremst staðnæmst við réttarstöðu starfsmanna.“

Hér segir, með leyfi forseta, almennt um lagabreytingarnar:

„Eftir hlutafélagavæðingu þurfa Rafmagnsveitur ríkisins ekki að fylgja þeim lágmarkskröfum gagnvart starfsmönnum sínum sem gerðar eru til opinberra stofnana innan stjórnsýslunnar. Lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, er ætlað að gilda við aðstæður sem þessar, þ.e. þegar stofnunum ríkisins er breytt í hlutafélög eða þær lagðar niður. Með þessum lögum stendur hins vegar til að setja ákvæði sem taka almennu lögin um ríkisstarfsmenn úr sambandi. Ef það er mat þingmanna að réttindi ríkisstarfsmanna séu þannig að þeim þurfi að breyta á auðvitað að gera það með því að breyta almennu lögunum í stað þess að víkja sér undan þeim jafnan þegar á þau reynir. Þá þurfa ríkisstarfsmenn ekki að vera með væntingar um starfsöryggi sem ekki standast þegar á reynir. Óréttlætið birtist líka í því að þetta gerist oft en ekki alltaf. Svo virðist vera að þegar breytingarnar snerta litlar stofnanir með fáa starfsmenn þá séu almennu lögin látin gilda en þegar sambærilegar breytingar ná til stærri stofnana eru almennu lögin tekin úr sambandi. Þetta er lagaframkvæmd sem ber merki um hentistefnu og óhreinskilni.“

Enn segir, og að þessu sinni varðandi athugasemdir um breytingu á réttarstöðu starfsmanna, með leyfi forseta:

„Rafmagnsveitur ríkisins verða samkvæmt frumvarpinu lagðar niður og fer þá um réttindi og skyldur starfsmanna hennar eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Kemur þetta fram í 7. gr. frumvarpsins.“

7 gr. frumvarpsins er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þegar starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins verður lögð niður, sbr. 1. gr., fer um réttindi og skyldur starfsmanna þeirra eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á. Félagið skal bjóða störf öllum starfsmönnum Rafmagnsveitna ríkisins. Um biðlaunarétt starfsmanna Rafmagnsveitna ríkisins gilda ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“

Síðan segir, með leyfi forseta, í álitsgerð BSRB:

Hvað þýðir þetta nákvæmlega varðandi réttarstöðu starfsmanna þegar stofnunin verður lögð niður og hlutafélagið tekur við rekstrinum? Ekki verður betur séð en að baki frumvarpinu búi sú hugsun að breytt skuli réttarstöðu þeirra ríkisstarfsmanna, sem starfa hjá Rafmagnsveitum ríkisins, án þess þó að annar aðili en ríkið taki við starfseminni. Áfram eiga Rafmagnsveitur ríkisins að heyra undir ríkið. Með öðrum orðum þá er verið að setja lög um að starfsmenn Rafmagnsveitna ríkisins hf. verði áfram starfsmenn ríkisins án þess þó að um kjör þeirra, réttindi og skyldur, gildi lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986.“

Með öðrum orðum: Starfsmennirnir verða áfram starfsmenn ríkisins en það eina sem breytist er að lagagrundvöllurinn undir réttarstöðu þeirra er brottnuminn. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Í sjöundu greininni er vísað til þess að þau lög sem þar eru nefnd skulið eiga við „eftir því sem við á. Félagið skal bjóða störf öllum starfsmönnum Rafmagnsveitna ríkisins.“ Í umsögn um þessa lagagrein er ekki kveðið eins afdráttarlaust að orði. Þar segir: „Gert er ráð fyrir að öllum núverandi starfsmönnum verði boðið starf hjá hinu nýja fyrirtæki.“ Þetta er ekki afdráttarlaus yfirlýsing, fremur samkvæmt formúlunni, „eftir því sem við á.“

Árin 1993 og 1996 voru sett hér skýr og einföld lög, þ.e. upplýsinga- og stjórnsýslulög, sem gilda áttu um stjórnsýsluna til þess að borgurum sé gert kleift að fylgjast með og kynnast athöfnum og starfsemi þeirra stofnana sem reknar eru í almennings þágu. Í stað þess að stofnanir taki mið af þessum lögum þá er rekstrarformi þeirra breytt svo þær þurfi ekki lengur að lúta þessum reglum! Af hverju leita stjórnvöld ekki annarra leiða sem tryggi þann sveigjanleika sem stjórnendur telja sig þurfa að sækjast eftir? Með frumvarpinu er verið að færa Rafmagnsveitur ríkisins undan ákvæðum stjórnsýslulaga, upplýsingalaga, reglum um auglýsingu á lausum störfum o.s.frv. Eins og að ofan greinir mun þetta m.a. hafa þau áhrif að Rafmagnsveitur ríkisins munu hvorki þurfa að fylgja lágmarkskröfum sem gerðar eru til stjórnsýslunnar né fylgja ákvæðum upplýsingalaga um upplýsingaskyldu stjórnvalda. Sú leið að opna á einhvers konar upplýsingaskyldu svokallaðra opinberra hlutafélaga í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum, opinber hlutafélög, er að mati BSRB ekki nægjanleg þar sem sú upplýsingaskylda er mjög takmörkuð.“

Nú skal þess getið að verið er að skoða einhverjar breytingar á því frumvarpi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Ég verð þó að segja að þar er fyrst og fremst á ferðinni kattarþvottur sem breytir afskaplega litlu. Þar er t.d. rætt um að fulltrúar almennings — Alþingis, sé um að ræða hlutafélag í eigu ríkisins, eða fulltrúar sveitarstjórnar ef um er að ræða hlutafélag í eigu sveitarstjórna — geti komið á hluthafafundi og fái þar heimild til að bera fram fyrirspurnir. Ein hugmyndin sem verið hefur til umfjöllunar er að þeir fái heimild til að bera fram skriflegar fyrirspurnir en ekki til að taka þátt í almennum umræðum. Í raun er þetta svo hlægilegt að engu tali tekur. Þetta á að sjálfsögðu eftir að fá mikla umræðu í þinginu þegar þar að kemur en þetta er dæmi um þann kattarþvott sem hér er á ferðinni, þegar stofnanir í almannaeign eru teknar og þær færðar út á hlutabréfamarkaðinn.

„Samkvæmt aðilaskiptalögunum, nr. 72/2002, eiga Rafmagnsveitur ríkisins hf. að yfirtaka gildandi ráðningarsamninga með þeim réttindum og skyldum sem þar greinir. Þá eiga starfsmenn Rafmagnsveitna ríkisins að njóta réttinda og bera skyldur í samræmi við ákvæði kjarasamnings. Kjarasamningurinn á því að gilda þar til honum verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.

Í aðilaskiptalögunum, nr. 72/2002, segir um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum:

„3. gr. Launakjör og starfsskilyrði. Réttindi og skyldur framseljanda samkvæmt ráðningarsamningi eða ráðningarsambandi sem fyrir hendi er á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað á færast yfir til framsalshafa.

Framsalshafi skal virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir framseljanda þar til kjarasamningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.

Ákvæði þetta gildir ekki um rétt starfsmanna til elli- og örorkulífeyris eða eftirlifendabóta þegar um er að ræða lífeyrissjóði fyrir eina eða fleiri starfsstéttir sem starfa samkvæmt sérstökum lögum eða reglugerðum sem staðfestar hafa verið af fjármálaráðuneyti. Það getur þó aldrei leitt til skerðingar á áunnum réttindum úr þeim sjóðum sem um er að ræða. Skiptir þá ekki máli hvort starfsmaður starfar áfram hjá fyrirtækinu eða hluta þess eftir aðilaskipti eða ekki.

Ákvæði þetta á ekki við um aðilaskipti að fyrirtækjum sem hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta.““

Þetta er sem sagt 3. gr. aðilaskiptalaganna, nr. 72/2002. Um hana segir í umsögn BSRB, með leyfi forseta:

„Samkvæmt þessu ber nýjum atvinnurekanda, eða framsalshafa eins og hann er kallaður í lögunum, að virða launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir fyrri atvinnurekanda, þar til kjarasamningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda. Þá eiga réttindi og skyldur atvinnurekanda samkvæmt ráðningarsamningi sem fyrir hendi eru á þeim degi sem aðilaskipti eiga sér stað að færast yfir til nýja atvinnurekandans. Áunnin réttindi svo sem orlofsréttindi eða veikindaréttur, flytjast jafnframt með yfir til nýs atvinnurekanda. Þetta þýðir að þó nýr aðili taki við þá eiga laun og önnur starfskjör starfsmanna ekki af þeirri ástæðu einni að taka breytingum. Í ráðningarsamningi Rafmagnsveitna ríkisins við starfsmenn sína er sérstaklega tekið fram að um réttindi og skyldur starfsmanns fari eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Jafnframt er tilgreint í ráðningarsamningi í hvaða deild LSR starfsmaður greiði. Er það því álit BSRB að þessi réttindi eigi að fylgja starfsmönnunum til Rafmagnsveitna ríkisins hf. eins og skýrt er samkvæmt aðilaskiptalögunum. Hins vegar virðist sem frumvarpshöfundar séu ekki að fylgja aðilaskiptalögunum að öllu leyti. Þá þarf að hafa í huga meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Þegar stjórnvald tekur íþyngjandi ákvörðun þarf að velja þá leið sem er vægust fyrir þá sem ákvörðunin lýtur að. Ekki er verið að gæta þess í þessu frumvarpi.“

Um biðlaunaréttinn segir BSRB eftirfarandi, með leyfi forseta.

„Margt er óljóst um biðlaunarétt starfsmanna. Sem dæmi þá er ekki minnst á réttarstöðu starfsmanna sem heyra undir bráðabirgðaákvæði laga um réttindi og skyldur hafni þeir starfi hjá Rafmagnsveitum ríkisins hf. Þar sem starfsmenn njóta ekki lengur ýmissa réttinda sem fylgdu starfi þeirra sem ríkisstarfsmenn er ekki um að ræða sambærilegt starf hjá Rafmagnsveitum ríkisins hf. Eiga þeir starfsmenn sem hafna starfi hjá félaginu því rétt á biðlaunum hafi þeir verið ráðnir fyrir 1. júlí 1996, sbr. 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um réttindi og skyldur. Þegar Flugstöð Leifs Eiríkssonar var hlutafélagavædd fengu þeir starfsmenn sem höfnuðu starfi hjá félaginu biðlaun. Tryggja þarf sömu réttindi fyrir starfsmenn þessarar stofnunar sem ákveða að taka ekki starfi hjá félaginu.“

Það verður fróðlegt að heyra hvað talsmenn frumvarpsins segja um þetta efni hvað þennan rétt áhrærir.

Lífeyrisrétturinn skiptir fólk miklu máli. (PHB: Hvers virði er hann?) Hvers virði er hann? Hv. þm. Pétur H. Blöndal er meðvitaður um mikilvægi lífeyrisréttar. Ég er honum hjartanlega sammála um að lífeyrisrétturinn skiptir afar miklu máli, enda hefur það verið þannig að þegar starfsmenn í opinberum rekstri hafa samið, í áranna og áratuga rás, hefur iðulega verið bent á það við samningsborð að kauphækkanir geti ekki gengið eftir samkvæmt ýtrustu kröfum og m.a. hefur verið vísað í réttindi fólksins, þar á meðal lífeyrisréttindin, að þau séu mjög verðmæt. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það eigi að sjálfsögðu að líta á kaup og réttindi, þar á meðal lífeyrisréttindi, sem hluta af einni og sömu kjarakökunni. Að sjálfsögðu á að gera það.

Innan verkalýðshreyfingarinnar hefur þetta ekki verið rætt nógu mikið, tel ég, vegna þess að þau sjónarmið heyrast að menn séu jafnvel farnir að greiða of mikið í lífeyrissjóði, eigi að taka meira í launaumslagið og leggi of mikið fyrir til efri áranna. Margir telja að taka eigi meira inn í launaumslagið núna. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Menn hafa mismunandi skoðanir á þessu. Ég tel mikilvægt að leggja drjúgt fyrir til efri áranna. En ég er að nefna þetta vegna þess að ég tek undir það að þessi réttindi skipta verulegu máli þegar horft er til kjara manna almennt. Það er ekki óeðlilegt að fólk sem vinnur á stofnunum sem eru hlutafélagavædd horfi til þessara réttinda. Það er bara eðlilegt en hér segir í sérstakri álitsgerð um þetta efni frá BSRB, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu segir í 8. gr. að starfsmaður Rafmagnsveitna ríkisins sem hefur áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna skv. 24. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og ræðst til starfa hjá hlutafélaginu með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti í hálft starf eða meira getur ekki hafið töku lífeyris fyrr en hann lætur af því starfi.

Við rekstrarformsbreytinguna verður skerðing á réttindum starfsmanna sem greiða í B-deild LSR í dag. Iðgjöld hans miðast við þau laun sem hann hafði þegar staða hans var lögð niður og breytast iðgjaldagreiðslurnar til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Með öðrum orðum það verður eins konar frysting á laununum. Hefur hækkun launa starfsmanna hjá Rafmagnsveitum ríkisins því engin áhrif á hvaða eftirlaun starfsmaðurinn fær þegar hann lætur af störfum vegna aldurs.“

Með öðrum orðum, það verður eins konar frysting á laununum. Hefur hækkun launa starfsmanna hjá Rafmagnsveitum ríkisins því engin áhrif á hvaða eftirlaun starfsmaðurinn fær þegar hann lætur af störfum vegna aldurs, þ.e. ekki á launum á þessum vinnustað sérstaklega. Menn fylgja meðaltalsreglu. Hún hefur reyndar verið býsna hagstæð á undanförnum árum ekki síst vegna þess að unnið hefur verið að því að færa yfirvinnu inn í grunntaxtana sem síðan hefur valdið því að þessi meðaltalsregla hefur hækkað hlutfallslega meira en launasumman hefur hækkað. Meðaltalsreglan hefur hækkað meira en launasumman hefur hækkað að hlutfalli til. En það sem verið er að segja hér er að einstaklingur sem í opinberri stofnun fær hlutdeild í launum eftirmanns síns, og ræðst sú hlutdeild af starfsaldri hjá hinu opinbera — sú regla fellur í reynd brott. Það er hægt að finna viðmiðunarhópa sem einstaklingurinn fylgir en viðmiðunin miðast við ástandið eins og það var hjá hinni hlutafélagavæddu stofnun þegar sú kerfisbreyting á sér stað. Einstaklingur sem væri t.d. í almennri skrifstofuvinnu en flyttist síðar meir upp í stjórnendastarf sem væri betur launað, hærra launað, mundi ekki njóta ávinningsins af þeirri launatilfærslu. Hann mundi ekki njóta ávinningsins af þeirri launatilfærslu í stofnun sem hefur verið hlutafélagavædd. Þannig að þarna er tvímælalaust um skerðingu að ræða.

Í frumvarpinu er ekki einu orði minnst á réttindi starfsmanna sem greiða í A-deild LSR. Aðeins er fjallað um lífeyrisgreiðslur samkvæmt 24. gr. laga nr. 1/1997, en sú grein á eingöngu við um B-deild LSR. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé hver sé réttarstaða starfsmanna sem greiða til A-deildar LSR í dag og nýrra starfsmanna samkvæmt frumvarpi um Rafmagnsveitur ríkisins. Var þetta rætt í iðnaðarnefnd og hver var niðurstaðan í því efni? Munu nýir starfsmenn sem koma til starfa hjá Rarik hf. fá aðild að A-deild LSR ef þeir óska eftir því? Það væri fróðlegt að fá svör frá hv. formanni iðnaðarnefndar Alþingis, hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, hvað þetta snertir. Fá nýir starfsmenn Rariks hf. aðild að A-deild LSR? Mun verða tryggt að starfsmenn geti áfram verið í LSR? Mun það verða tryggt? Nýir starfsmenn líka? Mun það verða tryggt að nýir starfsmenn fái aðild að A-deild sjóðsins? Það er mjög mikilvægt að fá svör við þessu.

Möguleikar starfsmanns sem greiðir í A-deild LSR til áframhaldandi aðildar að LSR eru háðir nokkrum skilyrðum. Sé ekki gengið tryggilega frá því í lagafrumvarpinu yrði aðildin háð samþykki Rafmagnsveitna ríkisins hf. og að hlutafélagið tæki á sig þær skuldbindingar sem henni fylgja. Er því nauðsynlegt að mati BSRB, segir hér enn fremur í álitsgerð bandalagsins, að gengið yrði tryggilega frá því að allir starfsmenn Rafmagnsveitna ríkisins ættu rétt á að vera í LSR og það næði einnig til nýráðinna. Þetta er grundvallaratriði að heyra frá talsmönnum frumvarpsins og þeim sem flytja það hér inn hvort nýráðnir starfsmenn fái heimild til aðildar að A-deild LSR. Í þessu efni vísar BSRB á 3. gr. í aðilaskiptalögunum sem vikið var að hér að framan, þ.e. að aðilaskipti geti aldrei leitt til skerðingar á áunnum lífeyrisréttindum úr þeim sjóðum sem um er að ræða.

Síðan spyrja menn um samningsréttinn. Þá hefur verið spurt hvort Rafmagnsveitur ríkisins komi til með að virða rétt stéttarfélaga starfsmanna sem gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna sinna til að semja áfram við hlutafélagið verði það að veruleika. Bæði fyrir hönd núverandi starfsmanna og nýráðinna. Hér segir áfram með leyfi forseta:

„Við rekstrarformsbreytingu ríkisstofnana síðastliðin ár hafa stéttarfélög sem eiga félagsmenn innan þeirra stofnana haldið áfram að gera kjarasamninga við hlutafélögin sem stofnuð hafa verið. Sama ætti að gilda um stéttarfélög innan Rafmagnsveitna ríkisins. Æskilegt væri að frá þessu yrði gengið áður en lögin koma til afgreiðslu.“

Í þessari álitsgerð er mikil og hörð gagnrýni sett fram á lögin, bæði út frá þeirri forsendu að hér sé um að ræða grundvallarþjónustu, samfélagslega þjónustu, sem best sé borgið á vegum hins opinbera, í þessu tilviki ríkisins. Að öðru leyti beinist gagnrýnin að réttarstöðu starfsmanna. Eins og komið hefur fram í máli mínu er mjög mikilvægt að fá svör við tilteknum atriðum.

Hver verður réttarstaða starfsmanna með tilliti til lífeyrisréttinda? Þá er ég fyrst og fremst að spyrja um nýráðna starfsmenn. Þegar við ræddum hlutafélagavæðingu Pósts og síma á sínum tíma voru það margir þingmenn úr stjórnarliðinu, bæði framsóknarmenn og ekki síður sjálfstæðismenn, sem stóðu hér í pontu og sögðu að þeir vildu ekki á nokkurn hátt að réttindi starfsfólksins yrðu skert. Ekki á nokkurn hátt að réttindi starfsfólksins yrðu skert. Þá var spurt á móti, og ég þekki þetta mjög vel því að ég var í þeim hópi sem gerði það. En hvað með nýráðna? Ja, þeir eiga að njóta sömu eða sambærilegra réttinda.

Á þessum tíma var einmitt verið að breyta lífeyrislöggjöfinni í landinu og þar á meðal lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Horfið var frá gamla kerfinu, sem byggði á eftirmannsreglu svokallaðri, og er enn við lýði að hluta til en komið með sólarlag inn í þá deild Lífeyrissjóðsins. Enginn nýr starfsmaður fer þangað inn en allir halda engu að síður, sem þar eru eða voru, sínum réttindum sem þeir höfðu búið við. En búin er til ný deild hins vegar sem byggist á gerólíkum prinsippum, stigasöfnun, sams konar kerfi og var hjá Lífeyrissjóðunum á almennum vinnumarkaði og sams konar framreikningur réttinda byggður á neysluvísitölu en ekki þessari meðaltalsreglu sem ég vísaði til að væri að hluta til notuð til útreiknings á lífeyrisréttindum inn í gömlu deild lífeyrissjóðsins, B-deildinni, sem sagt búið til sambærilegt kerfi og er á almennum vinnumarkaði en verðmeira. Inn í þann sjóð eru greidd 15,5%, 4% frá launamanninum og 11,5% frá atvinnurekandanum sem er hærra prósentustig en er á almennum vinnumarkaði sem stefnir í það reyndar núna að færast upp til samræmis. Er það ekki frá næstu áramótum sem hann verður kominn í 12% þannig að það er verið að stefna til samræmis sem er hið besta mál og mjög gott og jákvætt að jafna kjörin og þar á meðal lífeyriskjörin en gera það upp á við.

En það sem ég vildi sagt hafa er þetta: Það er opin leið að tryggja áfram lífeyrisréttindi starfsfólksins með því að heimila nýráðnum starfsmönnum aðild að A-deild LSR. Stendur til að gera þetta? Á að gera þetta eða á að loka á réttindi manna hvað þetta snertir? Ég hygg að starfsmannafélögin og samtök starfsfólks vilji fá svör við þessu. Eftir því sem mér var sagt hafa spurningar starfsmanna upp til hópa — ég skal ekki alhæfa fyrir hönd þeirra allra, alls ekki, ég var ekki á þessum fundum. En spurningar starfsmanna, alla vega gagnvart þeim fulltrúum sem ég hef heyrt í, hafa verið á þessa lund. Menn hafa verið að spyrja um réttindi sín, m.a. lífeyrisréttindi, biðlaunaréttinn og önnur réttindi sem eru frábrugðin í hinu opinbera kerfi, í því sem gerist í réttinda- og launakerfinu á almennum vinnumarkaði. Því við erum að tala hér um yfirfærslu frá þessu opinbera kerfi yfir í hitt kerfið fyrir hluta starfsmanna. Það á ekki við þá alla að sönnu. Ég hef trú á því að þeir sem slíkt er ástatt um, þeir sem standa frammi fyrir einhverri skerðingu á lífeyrisréttindum, vilji fá að vita þetta.

Mér þætti vænt um það, hæstv. forseti, og vil ítreka það áður en ég lýk máli mínu að við fáum svör við þessu áður en 2. umr. um þetta mál lýkur og alla veganna verði það að gerast áður en gengið er til atkvæða um frumvarpið. Það er eðlilegt að menn viti hvað það er sem bíður þeirra.

Ég vil ljúka máli mínu á því að ítreka þá tillögu sem við höfum lagt fram, þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og verður væntanlega gengið til atkvæða um áður en menn greiða atkvæði um sjálft frumvarpið. Mundi hið síðara aldrei koma til sögunnar ef við hv. þm. Birkir Jón Jónsson sameinumst um þá tillögu að vísa þessu máli frá og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggja áherslu á að raforka til almennra notenda og fyrirtækja sé mikilvægur þáttur almennrar grunnþjónustu sem á að reka á félagslegum grunni. Þau skref sem hafa verið stigin í markaðsvæðingu raforkukerfisins hafa þegar leitt til mikilla hækkana á verði raforku til neytenda víða um land, þvert á gefin loforð um annað. Hlutafélagavæðing Rariks er liður í yfirlýstum markmiðum stjórnvalda að einkavæða raforkukerfið og búa orku- og dreifingarfyrirtæki landsmanna undir sölu á almennum markaði. Þau áform eru andstæð hagsmunum almennings í landinu. Með vísan til framanritaðs vísar Alþingi máli þessu frá og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þetta er tillaga sem við leggjum núna í hendur Alþingis og að sjálfsögðu með þá von í brjósti að þingið beri gæfu til að samþykkja þessa tillögu og hafna hugmyndum ríkisstjórnarinnar um að einkavæða raforkugeirann á Íslandi.