Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 27. mars 2006, kl. 21:05:41 (6664)


132. löggjafarþing — 93. fundur,  27. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[21:05]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef þá trú að menn séu að breyta í hf. vegna þess að þeir trúi á að það kerfi sé heppilegra og betra og færi okkur markvissari stjórnun og betri stjórnsýslu. Þetta hefur margoft verið kannað en niðurstöður slíkra kannana eru ekki allar á einn veg, eins og nú síðast kom í ljós í skýrslu sem prófessor við Greenwich-háskóla, David Hall, setti hér fram. Þar vísaði hann í rannsóknir sem sýndu að framleiðni í einkafyrirtækjum og opinberum fyrirtækjum væri svipuð, hún væri háð fyrirtæki og stofnun en rekstrarformið skipti ekki höfuðmáli.

Hitt væri svo annað mál að í einkafyrirtækjunum væri tekinn út meiri arður (Forseti hringir.) þannig að verðlagið á framleiðslunni væri hærra af þeim sökum.