132. löggjafarþing — 94. fundur,  28. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[17:53]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það var nokkur skaði að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson skyldi ekki setja fram hugmyndir sínar fyrr við þessa umræðu. Auðvitað er 3. umr. málsins eftir þannig að menn geta farið yfir muninn á því sem hv. þingmaður færir hér inn í umræðuna og því sem menn ætla sér að gera eða hugmyndir hafa verið um að gera. Ég hef litið þannig á að hér væri framvísað sams konar réttindum til Landsvirkjunar sem Landsvirkjun hafði óumdeilanlega þangað til niðurstöður komu um þjóðlendur. Auðvitað var eðlilegt að við því yrði brugðist í framhaldinu.

Einhvers konar öðruvísi samningur, leigusamningur eða eitthvað slíkt við Landsvirkjun af því að eignarréttarstaðan var öðruvísi en gert var ráð fyrir, er eitthvað sem menn hefðu svo sem getað velt fyrir sér en ég geri ráð fyrir því að ef samið hefði verið fyrir hönd Landsvirkjunar eins og venjulegs fyrirtækis þá hefðu komið fram kröfur sem mætti telja nokkuð eðlilegar, um að Landsvirkjun fengi afnotaréttinn eins og til var stofnað, líkt og fyrirtækið hefur haft í gegnum tíðina.

Mér finnst ástæða til að menn velti þessum hlutum fyrir sér. Ég tel að fara þurfi yfir allar eignir Landsvirkjunar með það fyrir augum að skoða hvers konar auðlindir það eru. Fyrirtækið nýtir gríðarlega verðmætar auðlindir í eigu þjóðarinnar. Þær þarf að mínu viti allar að skilgreina og ganga frá með þeim hætti að fyrirtækið greiði fyrir þessar auðlindir eðlilegt endurgjald. Menn hafa tekið þá ákvörðun að það eigi að vera samkeppnisumhverfi á raforkumarkaði á Íslandi og þá hlýtur það endurgjald að þurfa að endurspegla markaðsvirði nýtingarréttarins. Þetta þarf auðvitað allt saman að skoða. Það er ekki bara þessi nýtingarréttur sem fjalla þarf um heldur þarf að taka allan nýtingarrétt Landsvirkjunar til skoðunar.

Ég tel að setja eigi þessar auðlindir, en vonandi verður tekin ákvörðun um að flestar þeirra verði þjóðarauðlindir, að sett verði ákvæði inn í stjórnarskrá um þjóðarauðlindir og þær síðan afhentar fyrirtækinu Landsvirkjun eða öðru fyrirtæki sem nýtir þær með samningi sem afmarkaður væri í tíma. Þetta er allt hægt að gera og þarf að gera. Að þessi hluti af réttindum Landsvirkjunar yrði öðruvísi en önnur réttindi sem Landsvirkjun nýtir kæmi mér á óvart. Þó kann að vera að eitthvað sé til í því sem hv. þingmaður er að segja. Ég ætla ekki að þræta neitt fyrir það. Mér finnst ástæða til að menn fari betur yfir það. Ég lít samt þannig á að það hljóti að þurfa að vera hægt að ganga þannig frá málum að þessi réttindi verði samkynja öðrum réttindum sem Landsvirkjun hefur þegar gengið verður frá réttindum til nýtingar á þeim til framtíðar. Mér finnst mikilvægt að hægt sé að svara þeirri spurningu játandi, að svo sé.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson setur spurningarmerki við það. Mér finnst ástæða til að taka eftir því sem hann hefur sagt um málið að þessu leyti. Ég legg til að hv. formaður nefndarinnar taki málið inn í nefndina á milli umræðna, að þar verði farið yfir það og fengið skýrt svar við því hvort þessi réttindi öðlist aðra stöðu, þessi vatnsréttindi og það land sem hér er um að ræða, öðlist aðra stöðu en önnur réttindi og land sem Landsvirkjun hefur til nýtingar og er hluti af eignum ríkisins.

Að mínu viti er ástæða til þess að segja einu sinni enn, sem ég hef svo oft sagt, að ganga þarf í að ná samningum við aðra eignaraðila fyrirtækisins um að ríkið innleysi eignarhlut þeirra í Landsvirkjun þannig að Landsvirkjun verði öll í eigu ríkisins. Meðan hún er í því ástandi væri a.m.k. hægt að ganga endanlega frá eignarhaldi á þeim auðlindum sem hún nýtir og eiga að vera þjóðarauðlindir til framtíðar. Ég held að það sé ekki hægt að ýta þessu máli langt á undan sér. Það líður að þessu og er verið að endurskoða stjórnarskrána núna. Ég trúi því að menn verði sammála um að setja inn í hana ákvæði um þjóðareign á auðlindum og ganga síðan í að setja lög um þær auðlindir í framhaldinu þar sem verði kveðið á um með hvaða hætti menn fái nýtingarréttinn í hendurnar og hvernig eigi að ákvarða endurgjald fyrir nýtingu þjóðarauðlinda í framtíðinni.

Ég vildi nefna þetta vegna þess að ég tel mikilvægt að menn líti ekki öðrum augum á þau réttindi sem hér er um að ræða. Ég taldi reyndar að svo væri ekki. Ég tel að framsetning málsins sé öll með þeim hætti að eðlilegt sé að þingmenn hafi lesið það út úr málinu að hér verði ekki um öðruvísi fyrirkomulag að ræða en á öðrum eignum sem Landsvirkjun hefur til ráðstöfunar. Fá þarf svar við því og ég hvet til að hv. formaður gangi í það milli umræðna, að fá skýrt svar við því hvort þessi réttindi hefðu aðra stöðu eftir samþykkt þessa frumvarps en önnur sem Landsvirkjun hefur til nýtingar.