Endurnýjun sæstrengs

Miðvikudaginn 29. mars 2006, kl. 12:15:09 (6762)


132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Endurnýjun sæstrengs.

509. mál
[12:15]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisvert innlegg í umræðuna frá hv. þingmanni og fyrirspyrjanda, Björgvini G. Sigurðssyni, þegar hann segir að ríkið verði að koma og leggja streng. Býr hv. þingmaður ekki á hinu Evrópska efnahagssvæði? Hvernig halda menn að ESA og eftirlitskerfið á hinu Evrópska efnahagssvæði mundi bregðast við ef ríkið legði allt í einu streng og færi að greiða niður flutningskostnaðinn í samkeppni við Farice-1 sem er frjálst fyrirtæki og Cantat-3 sem er sömuleiðis fyrirtæki á markaði.

Hv. þingmenn verða að átta sig á að það er liðin tíð í fjarskiptum í Evrópu að ríkið komi inn og greiði niður kostnað þar sem eru samkeppnisaðstæður. Þetta er grundvallaratriði og þess vegna getur ríkið ekki komið að nema sem þátttakandi í hlutafélagi. Það er auðvitað mergurinn málsins.

Ég hafði frumkvæði að því að fyrirtækið Farice var stofnað og ríkið kom að því með fjármuni með opnum og eðlilegum hætti í samræmi við evrópskar viðskiptareglur. Ég get alveg tekið undir að því miður er fjárfestingin í þessum streng svo mikil að verðið er allt of hátt. Hvað er til ráða? Er það að auka fjárfestinguna og auka þar með ávöxtunarkröfuna og hækka þar með verðið? Nei, ég tel það ekki. Þess vegna verður að fara varlega og þess vegna þarf að skoða þetta. Ég tek undir að sú nefnd sem ég hef skipað og er að hefja vinnu þurfi að vinna hratt. Ég tek undir það. Og Póst- og fjarskiptastofnun þarf með sama hætti að vinna hratt að sinni skoðun í þessu efni.

En við verðum að gæta okkar í því að fjárfesta ekki um of og símafyrirtækin þurfa auðvitað að taka þarna tiltekna ábyrgð. Ég veit að þau átta sig á því. En eitt sem nefnt var hér, að RH-netið (Forseti hringir.) væri ekki í viðskiptum við Farice. Ég er alveg sammála því. Það er mjög óeðlilegt að rannsóknarnetið sé ekki í viðskiptum því (Forseti hringir.) það mundi væntanlega skapa allt aðrar og betri aðstæður, jafnvel til að lækka verðið, ef fleiri kæmu í viðskipti (Forseti hringir.) hvað þetta varðar.