Endurnýjun Herjólfs

Miðvikudaginn 29. mars 2006, kl. 12:20:51 (6766)


132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Endurnýjun Herjólfs.

513. mál
[12:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem upp í ræðustól til að bera fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um samgöngumálefni Vestmannaeyja. Þau hafa verið mjög í brennidepli undanfarin missiri þar sem ýmsar leiðir hafa verið ræddar til að bæta úr samgöngum á milli lands og Eyja.

Talað hefur verið um hugmyndir um að fara út í að gera jarðgöng. Nýverið voru kynntar hugmyndir um nýja ferjuhöfn við Bakka. Einnig hafa verið umræður um að kominn sé tími til að endurnýja þá ferju sem hefur verið í siglingum á milli lands og Eyja um margra ára skeið, þ.e. Herjólf.

Ég sem áhugamaður um málefni Vestmannaeyja og áhugamaður um samgöngumál hef fylgst með þessari umræðu allri, bæði fréttum og greinum sem skrifaðar hafa verið. Þarna hefur margt mjög áhugavert komið fram um alla þessa valkosti og flugið reyndar líka.

En ég kem upp í dag til að grennslast fyrir um hvort stjórnvöld hafi látið fara fram einhverja vinnu til kanna hvaða möguleikar séu á að fjárfesta í stærri og hraðskreiðari ferju til siglinga á milli lands og Vestmannaeyja í stað Herjólfs sem nú er í notkun. Það hefur vakið athygli mína að menn hafa verið að benda á að miklar framfarir hafi orðið í hönnun og smíði slíkra skipa. Þessi skip eru orðin miklu hraðskreiðari en áður var og þarna má með vissum hætti segja að hafi orðið ákveðin tæknibylting.

Nú er mér fyllilega kunnugt um að nefnd hefur verið að störfum til að skoða samgöngukosti. Ég er í sjálfu sér ekki að leita eftir svörum um störf þeirrar nefndar, heldur er ég frekar að leita eftir svörum við því hvort hæstv. samgönguráðherra hafi á einhvern hátt beitt sér fyrir því að skoða þessa hluti. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Það tekur náttúrlega mörg ár eða þó nokkurn tíma að hanna nýtt skip en menn verða líka að vera vakandi fyrir því hvaða kostir eru fyrir hendi.

Ef svo er, virðulegi forseti, að hæstv. samgönguráðherra hafi ekki beitt sér sérstaklega fyrir því að þessi vinna fari fram, þá langar mig að spyrja í framhaldi af því hvort stjórnvöld hyggist kanna málið. Og þá ekki síst vegna þess að við höfum á undanförnum missirum, eins og ég kom að í upphafi máls míns, verið að fá á borðið nýjar upplýsingar, bæði um kostina varðandi jarðgöng en líka kostina varðandi Bakkafjöru. Þessir hlutir eru að skýrast og eru að skýrast mjög hratt.

En mig langaði, virðulegi forseti, að nota tækifærið í dag til að vekja athygli á þessum möguleika, þ.e. nýjum Herjólfi.