Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum Háskólans á Akureyri

Miðvikudaginn 29. mars 2006, kl. 13:38:35 (6801)


132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum Háskólans á Akureyri.

317. mál
[13:38]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Háskólinn á Akureyri hefur verið í mjög örum vexti og það má segja að skólinn glími nú við ákveðna vaxtarverki, að mínu mati jákvæða vaxtarverki vegna þessa öra vaxtar. Fjölgun nemenda við Háskólann á Akureyri, og rétt er að menn hlusti vel, hefur orðið mun meiri en annars staðar. Þannig hefur ársnemendum sem greitt hefur verið fyrir í fjárlögum fjölgað úr 520 árið 2001 í 1.181 árið 2006 og er það um 128% aukning á þessum sex árum.

Ýmiss konar nýbreytni sem bryddað hefur verið upp á hefur ekki tekist sem skyldi þó að mikill metnaður hafi verið lagður í t.d. upplýsingadeild við skólann. Skólinn hefur verið rekinn með nokkrum halla og í árslok ársins 2005 nam sá halli um 330 millj. kr. Aðrir háskólar hafa einnig vaxið hratt og þá er ég sérstaklega að hugsa um ríkisháskólana án þess þó að lenda í svipaðri stöðu og Háskólinn á Akureyri. Vegna ummæla hv. þingmanns í upphafi þá hafa aldrei verið nein tilmæli af hálfu ráðuneytisins varðandi niðurskurð til Háskólans á Akureyri. Það hefur aldrei verið umræða eða tal um niðurskurð til háskólans. Það sýna allar tölur á síðustu árum. Við höfum aukið fjárframlögin til Háskólans á Akureyri umfram það sem gildir að meðaltali. Við höfum fjölgað nemendum sem nemur um 128% á þessum sex árum. Allt tal um niðurskurð er því ekki rétt en hins vegar er að sjálfsögðu krafa um að stofnanir hvort sem það eru ríkisháskólastofnanir eða aðrar stofnanir reki sig þannig að þær geti staðið undir þeirri starfsemi sem ætlast er til af þeim.

Um mitt síðasta ár hóf menntamálaráðuneytið vinnu með stjórnendum skólans við að fara yfir rekstur hans. Í tengslum við vinnuna var IMG-ráðgjöf falið að gera úttekt á skólanum til að greina starfsemi hans og rekstur og lá niðurstaða hans síðan fyrir í október. Í september skilaði háskólinn endurskoðaðri rekstraráætlun fyrir árin 2005–2008 og samkvæmt henni var gert ráð fyrir ákveðnum hagræðingaraðgerðum innan skólans, ekki síst með það að leiðarljósi að verið er að gera auknar gæðakröfur til háskóla þannig að háskólar standist samkeppni, ekki síst frá erlendum háskólum, og var gert ráð fyrir auknum fjárveitingum og einnig 6–7% nemendafjölgun á milli ára, auk þess sem gert var ráð fyrir að skólinn hlyti um 100 millj. kr. af söluandvirði húseignarinnar á Glerárgötu, sem er í sjálfu sér nokkuð sérstakt að sala á fasteign skuli sett inn í reksturinn. Það var gert og samþykkt á hinu háa Alþingi.

Í tengslum við frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2005 gerði ríkisstjórnin tillögu um 110 millj. kr. aukafjárveitingu á árinu 2005 sem Alþingi samþykkti. Sú aukafjárveiting hefði samkvæmt áætlun skólans átt að leiða til þess að útgjöld hans yrðu þá innan fjárheimilda en síðan kom í ljós að áætlun skólans stóðst því miður ekki og nam halli hans fyrir árið 2005 um 70 millj. kr.

Ráðuneytið hefur einnig samþykkt rekstraráætlun skólans fyrir árið 2006 og er gert ráð fyrir í henni að útgjöldin lækki um 50 millj. kr. á milli ára. En eins og menn þekkja sem hafa fylgst með málefnum skólans beittum við fjármálaráðherra okkur fyrir því að ríkisstjórnin mundi samþykkja 60 millj. kr. aukafjárveitingu fyrir árið 2006 til þess annars vegar að standa fyrir þeim aukna kostnaði sem hefur verið að íþyngja Háskólanum á Akureyri mjög vegna rannsóknarhúsnæðisins á Borgum. Má segja að með þeirri lausn erum við búin að koma í veg fyrir frekari erfiðleika skólans vegna rannsóknarhússins og það skiptir náttúrlega gríðarlega miklu máli varðandi allan annan rekstur og möguleika skólans til að takast á við ný viðfangsefni. Jafnframt var samþykkt um 20 millj. kr. hækkun til að koma til móts við nemendafjölgunina og m.a. til að menn geti farið í það sem þeir og ekki síst nemendur hafa verið að þrýsta á og það er meistaranám í lögfræði sem verður væntanlega boðið upp á í haust við háskólann.

Ég ítreka mikilvægi þess, frú forseti, að haldið verði áfram metnaðarfullri uppbyggingu háskólanáms á Akureyri sem og víðar um landið. Við Íslendingar getum svo sannarlega verið bjartsýn með framtíðina varðandi stöðu okkar á sviði háskólamála. Við höfum verið að stórauka fjármagn til háskólastigsins. Það sýna allar tölur og nýjustu tölur núna frá Hagstofunni sýna að við erum á réttri leið. Það styrkir að sjálfsögðu byggðina í landinu að efla háskólanám en ekki síður, og vil ég undirstrika það, skiptir það skólakerfið og menntunarmöguleika unga fólksins okkar máli til framtíðar að vel sé hlúð að háskólanum, bæði hér sunnan lands og norðan heiða. Það skiptir máli fyrir framtíðarmöguleika og samkeppnisaðstöðu okkar Íslendinga.