Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 11:38:38 (6910)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[11:38]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki ætla ég að gera lítið úr starfsmönnum Rariks frekar en annarra fyrirtækja eða stofnana en vek í framhjáhlaupi athygli á því að fjöldamargir forsvarsmenn stofnana í þessu þjóðfélagi hafa bent á rekstrarstöðu sína og á að betur mætti gera, m.a. með viðbót á fjárlögum.

Ég hef ekki séð neinar röksemdir á þessum pappírum eða að tillögur starfsmanna Rariks hafi verið lagðar á borðið eða að lögð séu drög að umhverfi þar sem þeir telji sig eiga betri möguleika. Mér finnst skorta á það eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu. Það gengur ekki bara að koma upp í pontu og segja: Þetta er nauðsynlegt vegna markmiða á samkeppnismarkaði, að geta brugðist hratt við eins og þeir segja í nefndarálitinu. Engin rök. Ef rökin hafa komið frá starfsmönnum fyrirtækisins þá væri lágmark að leggja þau fram í þinginu þannig að það komi í ljós hvað starfsmennirnir eiga við.