Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 12:40:08 (6918)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[12:40]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan að í upphafsorðum mínum í morgun kom ég inn á starfsmannamál sem voru umfjöllunarefni við 2. umr. frumvarps til laga um Rafmagnsveitur ríkisins hf. Ég bind vonir við að stjórnendur þessa fyrirtækis komi, hér eftir sem hingað til, af sanngjörnum hætti fram við starfsmenn sína. Ég hef rætt við forsvarsmenn þessa fyrirtækis og hef enga ástæðu til ætla annað en að sú góða starfsmannastefna sem rekin hefur verið hjá Rafmagnsveitum ríkisins viðhaldist hér eftir. Að sjálfsögðu get ég engu lofað héðan úr ræðustóli Alþingis en ég bind vonir við að forsvarsmenn Rariks komi vel fram við nýja starfsmenn eins og þá sem vinna hjá fyrirtækinu. Það er rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að það er ekkert í því frumvarpi til laga sem við erum að ræða hér sem kemur í veg fyrir að ríkisstarfsmenn sem sækja um vinnu hjá Rarik hf. geti orðið hluti af A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins áfram. Það er rétt hjá hv. þingmanni.

Hæstv. forseti. Af því hv. þingmaður sagði að ég hefði nefnt það í ræðu minni að meiri hluti Rariks ætti að vera í eigu ríkisins, þá var ég spurður hér í umræðu hvort ég teldi það útilokað um aldur og ævi að nýir aðilar gætu komið inn í reksturinn. Ef við gefum okkur það til að mynda að eitthvert sveitarfélag sem á veitufyrirtæki vilji koma inn í þennan rekstur og þetta yrði öflugra fyrirtæki fyrir vikið sem gæti veitt betri þjónustu, þá vil ég að sjálfsögðu ekkert útiloka það um alla framtíð að einhverjar slíkar mögulegar breytingar gætu orðið. Ég legg samt áherslu á að meirihlutaeign í þessum orkufyrirtækjum verði í eigu ríkisins. Það finnst mér mjög mikilvægt. Ég vil standa vörð um það. Það er gríðarlega mikilvægt að við afsölum okkur ekki (Forseti hringir.) orkuauðlindunum með þeim hætti að selja það burtu úr höndum okkar.