Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 13:56:13 (6929)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[13:56]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í fyrri ræðu minni í morgun við 3. umr. um þetta frumvarp vék ég að þeim rökum sem mikið hafa verið borin hér á borð að starfsmenn Rariks sæju mikil tækifæri í þessu máli og þeir hefðu sent ótvíræð skilaboð um að þetta væri bráðnauðsynlegt fyrir rekstur fyrirtækisins, framtíð þess og hagkvæmni.

Í 3. tölulið í greinargerð með frumvarpi þessu segir svo, með leyfi forseta:

„Með því að reka Rafmagnsveiturnar í hlutafélagsformi verður reksturinn sveigjanlegri. Fjárfestingar og nýjungar í rekstri verða auðveldari í framkvæmd og fjárhagsleg uppbygging fyrirtækisins sem hlutafélags stuðlar að aukinni hagræðingu og hagkvæmni í rekstri.“

Hæstv. forseti. Ef maður les út úr þessum orðum ætlast maður vissulega til þess, ef þetta næst fram sem hér segir að þetta stuðli að aukinni hagræðingu og hagkvæmni í rekstri, að þá stefni í að orkuverð lækki almennt til neytenda á orkuveitusvæði Rariks.

Hæstv. forseti. Eins og kom fram hér í svari hæstv. iðnaðarráðherra fyrir nokkrum dögum, þegar verðlagning á raforku var til umræðu og stefnumið stjórnvalda í þeim efnum þá benti hæstv. ráðherra á að aðeins eitt orkufyrirtæki hefði verið hlutafélagavætt og það væri Orkubú Vestfjarða. Ef ég man rétt úr þeirri umræðu átti það að verða til þess að efla reksturinn og gera hann hagkvæmari o.s.frv. Hver skyldi svo hafa orðið niðurstaðan af því? Í skýrslu sem iðnaðarráðherra lét taka saman um breytingarnar sem fylgdu nýjum raforkulögum, og sýndu m.a. fram á þróun orkuverðs þar, þá kemur það ekki fram varðandi fyrirtækið Orkubú Vestfjarða að rafmagnsreikningar til fólks og verðlagning raforkunnar hafi almennt lækkað.

Það má vafalaust sýna fram á að á þéttbýlustu stöðunum á Vestfjörðum hafi orkuverð til heimilisnota lækkað, þ.e. heildarreikningurinn, en það á alls ekki við í dreifbýlinu. Það stendur m.a. í skýrslu iðnaðarráðherra, sem ég er því miður ekki með í ræðustólnum en man þó nokkuð úr, að orkuverð í dreifbýli á Vestfjörðum hafi hækkað um 24% og er það þó hlutafélag, hæstv. forseti.

Þar var einnig bent á aðrar hækkanir sem höfðu orðið hjá öðrum fyrirtækjum sem ég get ekki farið með hér eftir minni, en miðað við þá reikninga sem við höfum fengið senda, þingmenn, víða að af landinu, líka af svæðum Rariks, þá hefur orkuverð hækkað. Það virðist því koma út á eitt hvort heldur fyrirtækin eru í því rekstrarformi sem þau eru nú eða eru hlutafélag eins og Orkubú Vestfjarða.

Ef það gengur hins vegar eftir sem hér er sagt í 3. lið um aukna hagræðingu og hagkvæmni í rekstri þá hlýtur það að fylgja á eftir að almenningur í landinu fái að njóta þess með lækkandi orkuverði. Ekki síst þegar litið er til stefnumiða stjórnvalda sem liggja fyrir í þingskjölum og hæstv. iðnaðarráðherra fór nýlega yfir í umræðu á hv. Alþingi. Þar var vitnað til þeirrar stefnumótunar sem gerð var við Landsvirkjun á sínum tíma þegar orkusölusamningar til Norðuráls í Hvalfirði voru samþykktir. En þar sagði og vitnaði hæstv. ráðherra til þess að stefnt væri að því, eins og hér segir í svari hennar, með leyfi forseta:

„Í samræmi við niðurstöður viðræðunefndarinnar gerðu fulltrúar eigenda breytingar á sameignarsamningi um Landsvirkjun. Í fylgiskjali S með samningnum er fjallað um arðgjafargjaldskrár og arðgreiðslumarkmið Landsvirkjunar. Í 2. tölulið fylgiskjalsins segir að stefnt skuli að því að gjaldskrá Landsvirkjunar til almenningsrafveitna verði í meginatriðum óbreytt að raungildi til ársins 2000 en lækki síðan að raungildi um 2–3% á ári á árunum 2001–2010.“

Þetta kom fram í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra Valgerðar Sverrisdóttur.

Ég hef litið svo á að eftir að mikill meiri hluta þingmanna samþykkti þessa stefnumótun hér í hv. Alþingi á sínum tíma, í tengslum við orkusölusamning Landsvirkjunar til Norðuráls, þá hafi sú stefna legið fyrir og henni hefur ekki verið breytt mér vitanlega, að orkuverð til almenningsveitna hér á landi frá Landsvirkjun ætti að lækka um 2–3% að meðaltali á hverju einasta ári í 10 ár frá árinu 2001–2010. Hæstv. ráðherra mótmælti því ekki hér í þessum ræðustól nýlega, þegar þessi mál voru til umræðu, en vitnaði hins vegar til nokkurs sem rétt er að draga inn í umræðuna, m.a. þess að síðan þetta var höfðu verið lagðir skattar á orkufyrirtæki. Það hefði m.a. haft áhrif á rekstrarstöðu virkjunarinnar.

Hvað er þá ríkið að gera í blóra við þá stefnu sem hér lá fyrir? Jú, það er verið að skattleggja orkufyrirtækin, sem hver borgar? Notendurnir, almenningur. Þar með er horfið frá þeirri stefnu að láta almenning hér á landi njóta þeirrar lækkunar sem hafði gilt frá árinu 1997 með áðurnefndri stefnumótun.

Það liggur því fyrir, hæstv. forseti, að stefnumótun stjórnvalda hefur ekki gengið eftir að þessu leyti og ástæðan fyrir því er m.a. að það hafa verið lagðir skattar á orkufyrirtæki, þar sem hluti af arðinum er auðvitað tekinn út úr fyrirtækjunum. Hverjir munu borga? Notendurnir að sjálfsögðu. Þetta er nú ein leiðin í skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Þó verið sé að boða skattalækkun er hækkun tekin út með einhverri annarri aðferð. Það virðist hafa gerst m.a. þarna og orðið til þess að orkuverð hefur ekki lækkað hér eins og að var stefnt.

Það komu einnig fram mjög athyglisverðar upplýsingar í skýrslu iðnaðarráðherra sem hér var lögð fyrir þingið. Sem er að orkuverð á Íslandi til almennings, til almennra notenda, er hærra í krónutölu á kílóvattsstund en m.a. í Danmörku og nokkrum öðrum nágrannalöndum okkar í Evrópu. Þannig að þrátt fyrir hina miklu virkjunarkosti sem við eigum og það að við getum verið að virkja hér og selja á tiltölulega mjög lágu verði til stóriðjunnar, þá greiðir almenningur hér á landi samt mjög hátt orkuverð. Og skattastefna ríkisstjórnarinnar er örugglega þáttur í því máli að því er orkufyrirtækin varðar.

Þessu vildi ég koma að í umræðunni, hæstv. forseti, ég ætla ekkert að lengja hana en taldi nauðsynlegt m.a. að víkja að þessum þáttum málsins. Það virðist því miður ekki lengur vera stefnt að raforkuverðslækkun hér á landi eins og þáverandi iðnaðarráðherra og ríkisstjórn lögðu upp með árið 1997, sem er sú sama og enn situr, þ.e. sömu flokkar. Þó sagt hafi verið í umræddri stefnumótun að gjaldskrárverð verði óbreytt til ársins 2000 en lækki síðan árlega um 2–3% á árunum 2001–2010, virðist fyrri stefnumótunin ekki vera í gildi lengur. Í rökstuðningi iðnaðarráðherra segir að margar breytingar hafi orðið, m.a. á skipulagi raforkumála, sem séu ef til vill orsakavaldar í þá veru að stefnumótunin hafi breyst.

Að öllu samanlögðu, hæstv. forseti, finnst mér liggja fyrir að stefnan í þessum málum, þar sem ætla mætti að stefnumið stjórnvalda væri að þjóna almenningi í landinu og vinna að því að lækka orkuverð, hafi snúist upp í öndverðu sína og orkuverð til neytenda sé að hækka.

Það er ömurleg vegferð, hæstv. forseti, að vera hér að bera inn hvert málið á fætur öðru í hlutafélagavæðingu raforkufyrirtækja, fyrst Orkubú Vestfjarða, núna Rarik og ætli það verði ekki Landsvirkjun næst? Ef til vill er síðar stefnt í einkavæðinguna sem mér sýnist liggja undir ef horft er til þessara stefnumiða og reynt að lesa út úr því sem hér hefur verið sagt. Vissulega hafa þó heyrst hér ræður nú í seinni tíð þar sem m.a. fulltrúi Framsóknarflokksins hefur sagt að það stæði ekki til að einkavæða raforkuframleiðsluna. Ekki í nánustu framtíð að minnsta kosti.

Hæstv. forseti. Með hliðsjón af reynslunni af þróun raforkumála undanfarin tvö ár og þess að stefnumörkunin sem fyrir lá um lækkandi raforkuverð til almennings hefur ekki gengið eftir, hvorki við setningu raforkulaganna né hefur verið hægt að finna það út úr hlutafélagavæðingunni eins og varðandi Orkubú Vestfjarða, þá hef ég ekki trú á að þessi stefnumörkun sé til góðs fyrir almenning og tel mig ekki hafa sannfæringu fyrir því að styðja þetta mál og mun þess vegna sitja hjá við afgreiðslu þess, hæstv. forseti.