Evrópsk samvinnufélög

Fimmtudaginn 30. mars 2006, kl. 14:20:14 (6931)


132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Evrópsk samvinnufélög.

594. mál
[14:20]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um evrópsk samvinnufélög, sem er 594. mál þingsins á þskj. 878.

Með frumvarpi þessu, sem samið var á vegum viðskiptaráðuneytisins, er gert ráð fyrir að innleidd verði ákvæði reglugerðar ráðsins nr. 1435/2003 frá 22. júlí 2003, um samþykktir fyrir evrópsk samvinnufélög (SCE), sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn og henni verði veitt lagagildi hér á landi. Reglugerðinni tengist annað lagafrumvarp sem félagsmálaráðherra leggur fram vegna innleiðingar tilskipunar um viðbætur við samþykktir fyrir evrópsk samvinnufélög að því er varðar aðild starfsmanna.

Reglugerðin um evrópsku samvinnufélögin var kynnt Alþingi í tillögu utanríkisráðherra til þingsályktunar á 130. löggjafarþingi 2003–2004, þ.e. tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 15/2004, um breytingu á XXII. viðauka, félagaréttur, við EES-samninginn.

Reglugerðin um evrópsk samvinnufélög er í megindráttum byggð upp eins og reglugerðin um Evrópufélög, þ.e. evrópsk hlutafélög, en á grundvelli þeirrar reglugerðar voru sett lög nr. 26/2004, um Evrópufélög, samanber og í því sambandi lög nr. 27/2004, um aðild starfsmanna að Evrópufélögum. Af þessum sökum þykir mér ekki ástæða til að lýsa reglum um evrópsk samvinnufélag eins ítarlega og ella væri heldur vísa til frumvarpsins um það efni.

Í megindráttum felst í reglugerðinni, um samþykktir fyrir evrópsk samvinnufélög, að samvinnufélögum sem starfa vilja í meira en einu ríki á Evrópska efnahagssvæðinu gefst kostur á að stofna evrópsk samvinnufélög samkvæmt ákveðnum meginreglum um félögin í reglugerðinni svo og tilskipuninni um aðild starfsmanna að félögunum. Geta félögin þá starfað á grundvelli þessara meginreglna um stjórn, aðild starfsmanna og fleira, nokkurra viðbótarákvæða í landslögum skráningarríkis og félagssamþykkt sinni í stað þess að samvinnufélög stofni útibú í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu og þurfi þá að starfa á grundvelli mjög mismunandi landslaga í þeim ríkjum. Þessi nýi kostur er talinn leiða til minni stjórnunarkostnaðar og skriffinnsku og meiri samkeppnishæfni samvinnufélaga á Evrópska efnahagssvæðinu. Unnt verður að stofna evrópskt samvinnufélag með mismunandi hætti.

Að því er snertir hið tengda frumvarp félagsmálaráðherra varðandi aðild starfsmanna að Evrópufélögum vil ég taka fram til yfirlits að við stofnun evrópsks samvinnufélags þurfa, samkvæmt tilskipuninni þar að lútandi, að fara fram viðræður í samninganefnd um þátttöku starfsmanna í félaginu í sérstakri fulltrúanefnd allra starfsmanna sem aðskilin er frá stjórn félagsins. Ef samkomulag næst ekki gilda ákveðnar meginreglur í viðauka við tilskipunina. Aðild starfsmanna felst í því að stjórnendur félagsins gefi fulltrúum starfsmanna í fulltrúanefnd reglulega skýrslu, hafi reglulegt samráð við þá og gefi þeim upplýsingar um nánar tiltekin atriði, m.a. um uppsagnir. Mismunandi reglur geta gilt eftir því hvernig aðild starfsmanna er háttað í þeim löndum sem stofnun félagsins snertir.

Reglugerðin sem ætlunin er að lögfesta hér á landi geymir aðeins ákvæði um félagarétt en gengur ekki inn á svið annarra landslaga, t.d. skattalaga eða samkeppnislaga. Reglugerðin er byggð upp með þeim hætti að í I. kafla eru almenn ákvæði sem snerta m.a. stofnun félagsins þar sem aðilar frá tveimur eða fleiri EES-ríkjum koma við sögu. Þar kemur m.a. fram að lágmarksstofnfé í evrópskum samvinnufélögum yrði 30 þúsund evrur eða tæpar 2,3 millj. kr. miðað við sölugengi evru 26. janúar 2005 en þá er evran á 75,2385 kr. Lágmarksstofnfé í samvinnufélögum hér á landi er hins vegar ekki fastákveðin fjárhæð. Í kaflanum er einnig fjallað um t.d. samþykktir og flutning skráðrar skrifstofu, svo og lög er gilda skuli um evrópsk samvinnufélög.

Í II. kafla um stofnun er m.a. fjallað um stofnun evrópsks samvinnufélags með samruna samvinnufélaga í mismunandi ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu og breytingu starfandi samvinnufélaga í evrópskt samvinnufélag.

Í III. kafla er fjallað um skipulag evrópsks samvinnufélags, m.a. einþætt stjórnkerfi eins og talið er tíðkast hér á landi og tvíþætt stjórnkerfi. Þar er og fjallað sérstaklega um félagsfundi.

Í IV. kafla er ákvæði um útgáfuhluta sem veita sérstök kjör, í V. kafla um ráðstöfun hagnaðar, í VI. kafla um árleg reikningsskil og samstæðureikningsskil og í VII. kafla um félagsslit, skiptameðferð, gjaldþrot og greiðslustöðvun.

Í VIII. kafla eru viðbótarákvæði og bráðabirgðaákvæði en í IX. kafla lokaákvæði.

Gert er ráð fyrir gildistöku reglugerðarinnar 18. ágúst 2006 og yrði unnt að stofna evrópsk samvinnufélög hér á landi eftir þann tíma samkvæmt frumvarpinu.

Um gerð lagafrumvarpsins hefur verið haft samráð við fulltrúa hinna Norðurlandaþjóðanna. Einkum er þó stuðst við sænskt lagafrumvarp eins og það var samið. Reglugerðinni um evrópsk samvinnufélög er ætlað að hafa lagagildi hér á landi samkvæmt frumvarpinu. Jafnframt er í því tekið á ýmsum atriðum en reglugerðin gerir ráð fyrir heimild ríkja til að ákveða ýmis atriði sjálf og jafnframt í sumum tilvikum skyldu þeirra til að gera slíkt. Grundvallarreglur reglugerðarinnar um evrópsk samvinnufélög skapa talsverða einsleitni í löggjöf ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu þótt um ýmis frávik sé að ræða vegna áðurnefndrar heimildar og skylduákvæða.

Lagafrumvarpið um evrópsk samvinnufélög skiptist í sex kafla, þ.e. Almenn ákvæði, Stofnun evrópsks samvinnufélags, Skráning evrópskra samvinnufélaga og fleira, Flutningur skráðrar skrifstofu evrópsks samvinnufélags, Skipulag evrópskra samvinnufélaga, og Önnur ákvæði.

Hæstv. forseti. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum. Ég vænti þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.