Ríkisútvarpið hf.

Þriðjudaginn 04. apríl 2006, kl. 20:43:57 (7126)


132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[20:43]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson nefndi að breytingar hefðu orðið vegna samstarfsflokksins. Ég ítreka þá skoðun mína að ég er afskaplega ánægð með að við skulum standa frammi fyrir þeirri víðtæku sátt að ekki standi til að selja Ríkisútvarpið. Þannig var það ekki hér áður fyrr. Og án þess að ég sé að vitna í einstaka þingmenn heldur í fólk úti í samfélaginu þá hafa augu hörðustu einkavæðingarsinna nú opnast fyrir því að Ríkisútvarpið þarf að vera áfram í eigu þjóðarinnar. Þeir sýna nú vilja sinn í verki með því að færa útvarpið í þann búning, sem gerir því kleift að keppa við aðra risa á markaði, að vera sjálfstætt og vera það almannaútvarp sem við viljum eiga og halda áfram í eigu þjóðarinnar. Það er nákvæmlega vegna þess sem framsóknarmenn eru tilbúnir að taka þetta skref til fulls.

Um þetta ríkti ekki sátt hér áður og hefði aldrei komið til greina að fara þessa leið. Við fögnum því auðvitað mjög að sú leið skuli farin. Varðandi setninguna í 1. gr. frumvarpsins þá tel ég að það sem hún gefur til kynna sé auðvitað þessi skýri vilji, hér er alls ekki verið að setja neina klásúlu í fjárlögin um að selja Ríkisútvarpið heldur er þetta skýr vilji Alþingis. Það þarf mjög mikið til til að breyta þessu og þetta er nýtt þegar verið er að hlutafélagavæða ríkisfyrirtæki. Þetta verður hlutafélag í opinberri eigu. Ég er þess fullviss að þetta hefur meira gildi en hv. þingmaður hélt fram áðan.