Samráð við utanríkismálanefnd um varnarmál

Miðvikudaginn 05. apríl 2006, kl. 12:21:16 (7163)


132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Samráð við utanríkismálanefnd um varnarmál.

[12:21]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Vandræðagangur og viðbragðsleysi einkenna mjög svo framgöngu hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli. Ætli miðvikudagurinn 15. mars hafi ekki verið einhver svartasti dagur í sögu Sjálfstæðisflokksins lengi? Síðan þá hefur hæstv. forsætisráðherra haldið nokkuð vel á málinu, talað af töluverðri skynsemi og talað í austur á meðan hæstv. utanríkisráðherra talar í vestur og það er augljóst að þeir stefna hvor í sína áttina.

Maður hlýtur að spyrja hvort undirlægjuháttur Sjálfstæðisflokksins gagnvart Bandaríkjamönnum geri íslenskum stjórnvöldum það ókleift að leiða þetta mál farsællega til lykta, enda hefur samráðsleysið sem hér er gagnrýnt í dag kallast ákaflega vel á við pukrið og leyndina í kringum brottför varnarliðsins og brottför hersins af Miðnesheiði sem held ég að flestum hafi verið fyrir löngu ljós, nema kannski forustumönnum sjálfstæðismanna í orði kveðnu.

Fyrir liggur að hæstv. utanríkisráðherra ætlar ekki í Evrópuleiðangurinn með hæstv. forsætisráðherra, það er löngu orðið ljóst. Þar liggur ágreiningurinn klárlega og skýrlega. En auðvitað þarf að taka hérna þverpólitíska umræðu um kosti og galla varnarmálanna, hvar við getum hugsanlega leitað samstarfs og hver varnarþörfin sé af því að kannski er hún nánast engin þegar allt kemur til alls, en það þarf að sjálfsögðu að skoða það mjög gaumgæfilega.

Umkomuleysi hv. forustumanna Sjálfstæðisflokksins í málinu er átakanlegt. Eins og viðbrögðin voru 15. mars þegar skýrt var frá fréttunum miklu hefur viðbragðsleysið verið algjört og það er eiginlega með ólíkindum hvernig hæstv. utanríkisráðherra hefur pukrast með málið allar götur síðan, þetta stóralvarlega og mikla mál sem hann sagði sjálfur að menn ættu ekki að hafa í flimtingum. Þess vegna er það átakanlegt að hæstv. utanríkisráðherra sjái ekki kosti þess að leita samráðs við utanríkismálanefnd eins og honum ber að gera.