Lokun veiðisvæða

Miðvikudaginn 05. apríl 2006, kl. 12:44:50 (7172)


132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Lokun veiðisvæða.

468. mál
[12:44]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra sagði að það væri ekki á rökum reist sem ég sagði en því miður hef ég rétt fyrir mér. Ég segi því miður vegna þess að þegar kafað er ofan í þessa hluti kemur í ljós að það er jafnvel ekki búið að vinna úr 10 ára gömlum merkingum, ég spurðist fyrir um það í síðustu viku. Það voru 10 ára gamlar merkingar og menn voru ekki búnir að fara yfir þau gögn. Það hefur ekki verið lögð áhersla á þetta í rannsóknum heldur hafa menn alltaf lagt áherslu á að telja fiska til að ákveða hvað hægt verði að veiða á næsta ári. Þannig eru vinnubrögðin. Þessu viljum við í Frjálslynda flokknum breyta. Nú stendur t.d. yfir fiskatalning, svo kallað togararall, þar sem verið er að telja fisk upp á það hvað megi veiða á næsta ári og þetta er arfavitlaus aðferð. Það er miklu nær að stýra veiðiálagi þannig að þegar mikill afli er á slóðinni þá geti menn skilað miklum fiski á land í stað þess að treysta á einhverja talningu sem er misgóð.

Annað sem ég vil benda á og hefur verið mjög gagnrýnt, m.a. af útgerðarmönnum á Snæfellsnesi, er hvernig er staðið að þessu. Það er nánast eingöngu notaður mælistokkur þegar verið er að ákveða hvenær á að loka svæðum. Það er sagt: Ef fiskur er undir 55 sm þá er beitt lokun Hafrannsóknastofnunar. Ég er á því að þetta sé alveg ótækt og sérstaklega í ljósi þess að menn hafa lofað því að fara yfir þessa hluti, að fara í gegnum það hvað fiskurinn sé gamall. Hvort hann sé að stækka og ef hann er ekki að stækka en er samt smár hvort einhver tilgangur sé með því að loka svæðinu. Ég segi: Það er algerlega tilgangslaust að vera að loka fyrir veiðar á gömlum hægvaxta fiski eins og hefur verið gert og það þarf virkilega að fara yfir þessa hluti og skoða þá með gagnrýnum hætti.