Vaxtabætur vegna endurbóta á húsnæði

Miðvikudaginn 05. apríl 2006, kl. 14:50:48 (7227)


132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Vaxtabætur vegna endurbóta á húsnæði.

559. mál
[14:50]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég held að vandfundið sé það tíu ára skeið í Íslandssögunni þar sem meiri breytingar hafa orðið á bankakerfinu en hér hafa orðið að undanförnu. Sjálfsagt er það rétt hjá hv. þingmanni að þá kemur ýmislegt upp sem menn hafa ekki endilega séð fyrir að væri vandamál við hina gömlu skipan en verður það þegar ný skipan og nýtt fyrirkomulag kemst á. Þannig er því sjálfsagt farið með það atriði sem hún nefndi í fyrirspurn sinni.

Þrátt fyrir þær miklu breytingar sem hafa orðið á þessum málum hjá okkur að undanförnu má kannski segja að ekki sjái enn alveg fyrir endann á breytingunum. Enn er verið að skoða nýja möguleika og nýjar breytingar. Ég geri ráð fyrir því að sá þáttur sem hún nefndi sérstaklega verði skoðaður við þá yfirferð og fyrr en síðar fáist úrlausn í þeim efnum sem þar voru nefnd.