Vaxtabætur vegna endurbóta á húsnæði

Miðvikudaginn 05. apríl 2006, kl. 14:53:19 (7229)


132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Vaxtabætur vegna endurbóta á húsnæði.

559. mál
[14:53]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því auðvitað að einhver yfirferð sé í gangi yfir kerfið í heild sinni. Engu að síður tel ég að þegar upp kemur að beinlínis sé verið að mismuna fjölskyldum í landinu í gegnum vaxtabótakerfið þá sé það atriði sem eigi ekki heima í yfirferð heldur verði að leiðrétta slíkt jafnóðum. Ef við ætlum að fara að líta alltaf á þetta í yfirferð í stærra samhengi mun þessi mismunun halda áfram enn eitt skattaárið og kannski annað og annað á meðan nefnd er að fara yfir málið. Það hlýtur að vera óþolandi fyrir það fólk sem fyrir þessu verður.

Það er ekki nóg með, virðulegi forseti, að þessi ríkisstjórn hafi skert vaxtabæturnar með þeim hætti að þær hafa ekki fylgt verðlagsþróun og skerðist sömuleiðis núna hjá fjölmörgum fjölskyldum vegna breytinga á fasteignamati heldur kemur þetta núna, að það sé mismunun og henni eigi ekki að kippa í liðinn. Ég hefði haldið að þegar svona breytingar verða fyrir tilstuðlan hins opinbera þá verði það að vera sveigjanlegt í því að koma til móts við fólk og taka á svona málum þegar þau koma upp.

Svör hæstv. ráðherra valda mér því verulegum vonbrigðum vegna þess að stundum er rétt að setja hluti í nefnd, stundum er rétt að skoða málin og fara vel yfir þau. En við margar aðstæður á hreinlega að taka á málunum strax. Þegar hreinlega er verið að mismuna fólki á að taka á málum strax og laga löggjöfina en ekki þvæla málum í nefnd.