Boð til heyrnarskertra um viðvarandi hættuástand

Miðvikudaginn 05. apríl 2006, kl. 18:27:19 (7267)


132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Boð til heyrnarskertra um viðvarandi hættuástand.

598. mál
[18:27]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að bera fram fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra um boð til heyrnarlausra og heyrnarskertra um viðvarandi hættuástand. Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp með þessa fyrirspurn er sú að ég fór að hugleiða þessi mál eftir að jarðskjálfti reið hér yfir á dögunum, allsnarpur jarðskjálfti sem átti upptök sín í nágrenni við Krísuvík. Þá þótti mér verulega áfátt hvernig staðið var að því að koma skilaboðum til almennings um það hvað hefði verið hér á ferðinni og líka segja raunar frá því að hér væri í raun og veru ekki nein hætta á ferðum.

Í framhaldi af því fór ég einmitt að hugleiða þetta: Hvernig skyldi vera staðið að því að koma upplýsingum til heyrnarskertra og heyrnarlausra? Þetta fólk heyrir jú ekki í útvarpi. Það kom fram þegar jarðskjálftinn reið hér yfir á dögunum að netsamband lá niðri um tíma eða var mjög tregt a.m.k. inn á okkar helstu fréttaveitur. Það voru engar upplýsingar á sjónvarpsskermi nema á textavarpi en fyrir fólk sem var statt einhvers staðar án þess að hafa nærri sér sjónvarpstæki eða tölvu, heyrnarskert eða heyrnarlaust fólk, þá gat verið mjög erfitt að ná í þær upplýsingar.

Nú er mér kunnugt um það eftir ágæt kynni mín af varaþingmanni okkar í Frjálslynda flokknum, Sigurlín Margréti Sigurðardóttur, að fólk sem býr við þessa fötlun notar mjög mikið farsíma og notar þá möguleikana til þess að senda SMS-skilaboð sín á milli. Farsímarnir eru litlir og léttir og handhægir og þar af leiðandi eru þeir mjög skilvirkir til notkunar fyrir þennan hóp þjóðfélagsþegna bæði til þess að senda frá sér upplýsingar en líka til að taka við upplýsingum. Því datt mér í hug að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra sem er jú fyrir almannavörnum í þessu landi, hvort fyrir hendi sé einhvers konar formlegt skipulag sem gengur út á að hægt sé að koma skilaboðum til heyrnarlausra og heyrnarskertra þegar hættuástand skapast og er viðvarandi, til að mynda með því að senda út svona smáskilaboð í gegnum farsímakerfið þannig að þetta fólk fengi þá upplýsingar um það hvað væri á seyði með skilvirkum hætti. Þetta kallar að sjálfsögðu á að einhvers staðar sé haldið utan um í einhverjum gagnagrunni eða einhverri miðstöð símanúmer, en hvað um það, þetta er sú spurning sem ég vildi hér bera hér upp í dag við hæstv. dómsmálaráðherra.