Boð til heyrnarskertra um viðvarandi hættuástand

Miðvikudaginn 05. apríl 2006, kl. 18:30:28 (7268)


132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Boð til heyrnarskertra um viðvarandi hættuástand.

598. mál
[18:30]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn hans. Þetta mál hefur verið rætt á milli Almannavarna og Félags heyrnarlausra og meginniðurstaðan er sú að Almannavarnir greiddu fyrir því að skilaboð til heyrnarlausra gætu birst í textavarpi sjónvarpsins auk þess sem mögulegt væri ef þörf reyndist að láta upplýsingatexta ganga yfir sjónvarpsskjáinn samfara útsendingu á öðru efni. Síðan, eins og hv. þingmaður nefndi, er tæknin orðin þannig að SMS-skilaboð eða smáskilaboðin eru að verða æ algengari og það er nú þannig að ef hættuástand skapast geta heyrnarlausir sent smáskilaboð að eigin frumkvæði í símanúmerið 112 til Neyðarlínunnar og fengið þaðan svör og upplýsingar. Neyðarlínan er einnig að taka upp þjónustu við heyrnarlausa á þann veg að senda út smáskilaboð til þeirra ef nauðsyn krefst.

Ef við lítum á nýlega æfingu, almannavarnaæfinguna Bergrisann, sem haldin var á dögunum þá var skilaboðum komið til íbúa á því svæði með smáskilaboðum í farsíma þannig að í því efni sátu allir við sama borð eða sama tæki, ef þannig má orða það. Auk þess sem hringt var í síma þeirra sem hafa farsíma og hafa skráð farsíma hjá þeim sem senda út slík boð, þá var reynt að nota smáskilaboðin í þeim tilgangi.

Varðandi skráninguna er það viðfangsefni sem hver og einn verður í raun og veru að huga að, því að það er ekkert eftirlit með því hvar fólk býr eða hjá hverjum það skráir síma sína o.s.frv. Það eru líka vandræði varðandi síma oft á tíðum ef menn nota það sem er kallað frelsissíma og kort sem ekki eru skráð á neinn þá getur það verið vandamál þannig að það er mikið undir því komið hjá þessum boðunaraðilum að þeir sem vilja láta boða sig sjái til þess að koma þeim upplýsingum til einhvers miðlægs skráningaraðila sem ber ábyrgð á öryggi þeirra við almannavarnaaðstæður þannig að þessir aðilar geti látið í sér heyra á þann hátt sem helst um er samið fyrir fram þannig að menn viti nákvæmlega hvaða boðleið er best fyrir hvern og einn. Það er ekki við því að búast að Almannavarnir eða Neyðarlínan hafi slíkar upplýsingar endilega á skrá hjá sér og alls ekki að fyrra bragði þannig að það er líka mikið undir því komið að fólk láti Neyðarlínuna vita um einhver sérgreind mál eins og þessi ef það vill fá boð á einhvern sérstakan hátt.

Það er unnið að þessum málum, það er leitað þeirra úrræða og notuð sú tækni sem best er til þess að ná til sem flestra ef hættuástand skapast. Við erum hins vegar því miður þannig sett vegna stærðar landsins að ekki hafa allir landsmenn aðgang að þessum smáskilaboðum eftir því hvar þeir eru staddir í landinu þannig að við hljótum að treysta mjög á Ríkisútvarpið eða útvarpsstöðvar og sjónvarpsstöðvar við almenna boðun auk hins almenna símkerfis svo lengi sem það er nothæft. Það fer náttúrlega eftir því hvernig aðstæður eru í hættuástandi.