Lánveitingar til stjórnenda fyrirtækja

Miðvikudaginn 05. apríl 2006, kl. 19:02:07 (7280)


132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Lánveitingar til stjórnenda fyrirtækja.

656. mál
[19:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Frumvarp sem ég hef lagt fram á Alþingi, um breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti, felur í sér ákvæði um aukna vernd minni hluthafa, heimild til að beita stjórnvaldssektum við markaðsmisnotkun og ákvæði um að setja í lög og lengja eignarhaldstíma lykilstjórnenda í fjármálastofnunum á hlutabréfum sem þeir kaupa í eigin félögum. Fjármálagjörningar einstakra lykilstjórnenda, sem ég kalla siðlausa, hafa einmitt verið gagnrýndir, þ.e. þegar þeir kaupa hlutabréf í eigin fjármálastofnun, fá til þess lán hjá þeirri fjármálastofnun sem þeir stjórna og enginn veit á hvaða kjörum, eiga bréfin í stuttan tíma og græða hundruð milljóna á örskömmum tíma á þessum fjármálagjörningum og eru meira að segja iðulega varðir fyrir gengistapi í kaupum á hlutabréfum og þurfa enga áhættu að taka eins og aðrir sem kaupa hlutabréf.

Þetta gengur auðvitað ekki og því hef ég í því frumvarpi sem ég nefndi áðan lagt til að ákvæði um lágmarkseignarhaldstíma stjórnenda séu fest í lög. Þar kemur einnig fram að mikilvægt sé að skoða þau ákvæði hlutafélagalaga og laga um fjármálafyrirtæki er varða lánveitingar til stjórnenda og að ákvæði þess efnis séu þrengd. Sömuleiðis þurfi að taka á lánveitingum fyrir hlutabréfum í eigin hlutafélögum með veðsetningu í sjálfum bréfunum en bann við slíkri veðsetningu er m.a. í norskum lögum.

Tilefni þessarar fyrirspurnar sem ég hef lagt fyrir hæstv. viðskiptaráðherra er að ég hef áhuga á að vita hvort hæstv. ráðherra sé að huga að slíkri lagabreytingu, ekki síst í ljósi þess að þegar ráðherra svaraði fyrirspurn minni í upphafi þings í október sl., um viðskipti fruminnherja á fjármálamarkaði, kom fram að ráðuneytið hafði til skoðunar hvort rétt væri að lögbinda tiltekinn eignarhaldstíma á hlutabréfum sem stjórnendur kaupa í eigin fyrirtækjum og að lengja hann einnig. Sömuleiðis kom fram í svari hæstv. viðskiptaráðherra að hún teldi rétt að kanna hvort núgildandi ákvæði 57. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sem fjalla um lánveitingar til stjórnenda fjármálafyrirtækja, geti talist fullnægjandi en þau kveða á um frelsi fjármálafyrirtækja til að ákveða sérkjör til framkvæmdastjóra í lánveitingum, ef það svo kýs. Aftur á móti voru ákvæði fyrir nokkrum árum í lögum um fjármálafyrirtæki þess efnis að lánveitingar til stjórnenda skuli á engan hátt frábrugðin sambærilegri fyrirgreiðslu til annarra viðskiptavina, sem ég tel eðlilegt.

Skoðun mín er sú að afnema eigi með lögum að stjórnendur fjármálafyrirtækja fái einhver sérkjör í lánveitingum, t.d. til hlutabréfakaupa, sem eru allt önnur og betri en annarra sem kaupa hlutabréf. Í Danmörku og Svíþjóð eru t.d. ákvæði sem banna lán til framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja á öðrum kjörum en almennt tíðkast.

Því spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Telur ráðherra ástæðu til að endurskoða þau ákvæði hlutafélagalaga og laga um fjármálafyrirtæki er varða lánveitingar til stjórnenda fyrirtækja? Ef svo er, verður flutt frumvarp á þessu þingi þar að lútandi?

2. Hver er skoðun ráðherra á því að stjórnendur fyrirtækja geti fengið lán fyrir hlutabréfum í eigin hlutafélögum með veðsetningu í bréfunum sjálfum? Telur ráðherra rétt að breyta lögum til að koma í veg fyrir slíkt?