Lánveitingar til stjórnenda fyrirtækja

Miðvikudaginn 05. apríl 2006, kl. 19:12:27 (7283)


132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Lánveitingar til stjórnenda fyrirtækja.

656. mál
[19:12]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það svar sem ég gaf fyrr í vetur stendur. Ég hef ekki útilokað að gera breytingar hvað varðar 57. gr. laganna og get að því leyti til tekið undir með hv. þingmanni að ég tel að það komi vel til greina. Þó að það hafi ekki orðið enn að ég hafi lagt fram frumvarp sem kveði á um það vil ég alls ekki útiloka að það geti orðið. (JóhS: Eftir hverju er verið að bíða?) Það er nú svo, af því að hv. þingmaður spyr eftir hverju verið sé að bíða, að það er ýmsu að sinna og þetta er til athugunar í ráðuneytinu ásamt ýmsu öðru sem við erum að fjalla um. Hv. þingmaður þekkir það vel, þar sem hún situr í efnahags- og viðskiptanefnd, að við erum þar með fjölmörg mál og þess vegna erum við ekki komin lengra en raun ber vitni hvað varðar þessa grein, 57. gr., en ég útiloka alls ekki að af því geti orðið á næsta þingi.