Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra

Fimmtudaginn 06. apríl 2006, kl. 12:03:13 (7315)


132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:03]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var nú hálfömurlegt yfirklór af hálfu þingmannsins Birgis Ármannssonar því að við stöndum hér andspænis því og höfum gert nú í hartnær 11 ár að ríkisstjórnin hefur ekkert aðhafst í þessum málum. Hún hefur ekkert aðhafst í þessum málum. Hún hékk eins og hundur á roði á því að hér skyldu vera fjórar herþotur og þyrlusveit sem því fylgdi. Hún vanrækti að skilgreina öryggis- og varnarhagsmuni Íslands og hún vanrækti hina borgaralegu hlið þessara mála. Samfylkingin hefur æ ofan í æ bent á þetta og hér skulu ekki sjálfstæðismenn koma upp og ásaka Samfylkinguna um að hún hafi ekki lagt ýmislegt til þessara mála.

Það er vissulega betra að flokkarnir hafi eitthvað fram að færa í þessum málum og hafi einhverja sýn og hér áðan lagði ég einmitt áherslu á þennan átakanlega skort á sýn og á því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi eitthvað fram að færa. Það er beðið eftir Bandaríkjamönnum, það er beðið eftir því að Bandaríkjamenn komi með útspil um það hvernig varnarmálum Íslendinga skuli hagað.

Samfylkingin vann sérstaka skýrslu um varnir gegn aðsteðjandi vá. Í þeirri skýrslu kemur skýrt fram hver okkar sýn á þessi mál er, þ.e. að það þurfi að semja um stöðu Íslands í varnar- og öryggiskerfi Atlantshafsbandalagsins og Evrópu án þess að stefna að uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin. Þess vegna viljum við að látið verði reyna á 7. gr. samningsins um Atlantshafsbandalagið og farið með þetta mál inn á vettvang NATO og þar verði unnið að okkar málum á næstu sex mánuðum.