Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra

Fimmtudaginn 06. apríl 2006, kl. 15:14:32 (7344)


132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:14]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal ekki um það dæma hvort Samfylkingin líkist meira Kína eða Albaníu. Um það getur hv. þm. Össur Skarphéðinsson ábyggilega vitnað betur enda þekkir hann sjálfsagt frá fornu fari betur til í þeim löndum en ég.

En hitt verð ég að segja að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur verið í hópi þeirra þingmanna Samfylkingarinnar sem hefur talað hvað skýrast um aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og á stundum um varnarsamstarfið við Bandaríkin. Ég hef á tilfinningunni að hann sé einn úr þeim hópi gamalla alþýðubandalagsmanna innan Samfylkingarinnar sem náði að útskrifast úr Alþýðubandalaginu og náði að útskrifast af Þjóðviljanum. Ég ætla því ekki að efast um heilindi hans í þeim efnum. Hins vegar er mér ljóst að innan hans flokks eru margir sem ekki eru komnir jafn langt á þróunarbrautinni, svo vitnað sé til orða hæstv. viðskiptaráðherra af öðru tilefni fyrr í vetur.

Varðandi þá framtíðarsýn um Evrópusambandið sem sumir hafa nefnt þá hefur það verið þannig í gegnum árin að áhugamenn um Evrópusambandið, einkum innan Samfylkingarinnar, hafa jafnan verið fundvísir á það sem þeir telja á hverjum tíma að hljómi best í sambandi við að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Fyrir svona tveimur til þremur árum var það svolítið í tísku hjá ákveðnum hópi innan Samfylkingarinnar að tala í þá veru að varnarsamstarfið við Bandaríkin væri liðið undir lok og það væru ný rök fyrir Íslendinga til að ganga í Evrópusambandið. Ég verð að segja að það er mér nokkuð ánægjuefni að þetta sjónarmið virðist hafa vikið í málflutningi Samfylkingarinnar og það sjónarmið að byggja beri á grunni Atlantshafsbandalagsins er orðið miklu meira ráðandi.