Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra

Fimmtudaginn 06. apríl 2006, kl. 15:54:01 (7351)


132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:54]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er jafnósammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni varðandi evruna og ég er varðandi sýn hans á hvernig Evrópusambandið muni þróast hvað varðar öryggis- og varnarmál (Gripið fram í.) og að það verði eitthvert skjól fyrir okkur í öryggis- og varnarmálum að verða í framtíðinni aðilar að Evrópusambandinu. Ég held að það sé haldlítil trygging og ég tel raunar, bara til að nefna þetta með evruna, að það væri ekki bara gagnslaust til að leysa úr okkar málum á sviði efnahagsmála að verða aðilar að evrusamstarfinu heldur stórhættulegt á þeirri forsendu að ef við gengjum þá leið misstum við mikilvægt stjórntæki á sviði peningamála, yrðum háð sveiflum í efnahagslífi annars staðar, sem eru með margvíslegum hætti mjög ólíkar þeim sveiflum sem við búum við hér á landi. Ég held því að það yrði, bæði til skemmri og lengri tíma, mikið óráð fyrir okkur efnahagslega að gerast aðilar að evrusamstarfinu.

Varðandi öryggis- og varnarmálin þá nefndi ég það í fyrra andsvari mínu að ég hefði, eins og sjálfsagt fleiri, átt í vandræðum með að átta mig á hver stefna Samfylkingarinnar hefði verið í þessum efnum og hverjar áherslur hennar væru. Ég nefndi það fyrr í dag að mér þætti sú stefna hugsanlega vera að skýrast og ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. Össur Skarphéðinsson geti tekið undir það með mér að stefna Samfylkingarinnar í þessum efnum sé að skýrast og að hið langa óvissutímabil sem var varðandi afstöðu Samfylkingarinnar til öryggis- og varnarmála sé með einhverjum hætti að líða undir lok.