Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra

Fimmtudaginn 06. apríl 2006, kl. 16:14:47 (7354)


132. löggjafarþing — 101. fundur,  6. apr. 2006.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:14]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum skýrslu hæstv. utanríkisráðherra Geirs H. Haardes um utanríkismál sem hann flutti þinginu í morgun. Ég verð að segja í upphafi máls míns að það olli mér þó nokkrum vonbrigðum að hæstv. utanríkisráðherra var í umræðunni fyrr í dag hvergi fús til að viðurkenna það að innrásin í Írak hefði verið mistök, hefði verið röng ákvörðun á sínum tíma. Mér þykir það mjög miður því að ég hygg að allir sem líta um öxl og skoða þessi mál af réttsýni og yfirvegun hljóti að sjá að þetta voru mikil og mjög afdrifarík mistök. Þessi innrás hefði aldrei átt að verða. Mig langar að minna á að við í Frjálslynda flokknum vöruðum allt frá upphafi mjög við því að farið yrði í þessa innrás. Við sendum ítrekað frá okkur sterk varnaðarorð í aðdraganda innrásarinnar. Ég man eftir því að þá nótt sem innrásin hófst sendum við frá okkur yfirlýsingu til allra fjölmiðla þar sem við hörmuðum að til þessara aðgerða hefði verið gripið. Allar götur síðan höfum við mótmælt þessari innrás, andmælt henni af fullum krafti, enda hefur hún leitt af sér ólýsanlegar hörmungar fyrir tugþúsundir, jafnvel hundruð þúsunda saklauss fólks, bæði íbúa í Írak en einnig fólks í Bandaríkjunum sem misst hefur ástvini sína, hermenn. Fjöldi manns, tugir þúsunda, hundruð þúsunda, hefur þurft að sæta limlestingum og öðrum þjáningum af völdum þessa vanhugsaða atburðar og við sjáum engan veginn fyrir endann á þeirri atburðarás sem hrundið var af stað með þessu voðaverki sem hófst í mars árið 2003.

Það er alveg rétt sem komið hefur fram hjá mörgum ræðumönnum á undan mér að ástandið í Írak núna er í rauninni ekkert annað en borgarastyrjöld. Þetta var neisti sem kveikti í mikilli púðurtunnu, hleypti af stað atburðarás sem nánast hefur verið stjórnlaus síðan. Ég minni á að Hans Blix var í viðtali í Kastljósi í gærkvöldi og mér fannst hann lýsa því ákaflega vel hverjar afleiðingarnar hefðu orðið. Hann lýsti því líka ákaflega vel hvernig þetta fór allt af stað og hvernig menn voru í raun og veru búnir að missa tökin á ástandinu löngu áður en innrásin hófst. Málin hefðu þróast með þeim hætti að það var nánast orðið ómögulegt að koma í veg fyrir innrásina mörgum vikum áður en hún fór af stað. Hernaðarvélin var byrjuð að mala og þegar hún var komin á fulla ferð var hún nánast orðin óstöðvandi. Því fór sem fór en þetta hefði aldrei þurft að verða.

Að sjálfsögðu erum við öll sammála um að Saddam Hussein var harðstjóri en ég get ekki tekið undir það, virðulegi forseti, og mun aldrei geta tekið undir það að réttlætanlegt hafi verið að fórna svona mörgum mannslífum, að leiða svona miklar þjáningar yfir fjölda saklauss fólks fyrir það að losna við þá ríkisstjórn sem var í Írak. Þarna er verið að greiða allt of háu verði fyrir það litla sem áunnist hefur.

Hæstv. utanríkisráðherra notaði annars mikið af tíma sínum til að ræða einkum um tvennt, viðskiptatækifæri og möguleika Íslendinga í Asíu og síðan ástandið sem upp er komið í varnarmálum íslensku þjóðarinnar. Ég kom upp í andsvör áðan og minnti á að við í Frjálslynda flokknum hefðum bent á það fyrir nokkrum árum, þ.e. sumarið 2003, að við Íslendingar þyrftum að hugsa varnarmálin upp á nýtt. Þá hafði kvisast að Bandaríkjamenn hefðu greint íslenskum stjórnvöldum frá því rétt fyrir kosningarnar í maí 2003 að þeir hygðust fara héðan af landi brott með flugvélar sínar, herþotur. Þjóðinni var ekki sagt frá þessu fyrr en eftir alþingiskosningarnar. Af hverju var það gert? getur maður svo sem spurt. Það er stjórnvalda að svara fyrir það, en við fengum ekki að vita það fyrr en sumarið 2003 að þetta væri raunin. Við í Frjálslynda flokknum mynduðum okkur strax skoðun á því hvaða stefnu bæri að taka. Ég greindi til að mynda frá því í útvarpserindi, sem ég flutti í fréttaþættinum Speglinum í ágúst árið 2003, hverjar skoðanir mínar væru í þessu máli. Þar benti ég á að við værum í NATO og við værum þar fullgild þjóð og ættum að sjálfsögðu að leita leiða til að ná fram samstarfi við aðrar NATO-þjóðir ef það væri svo að Bandaríkjamenn væru að fara. Mér finnst íslenska ríkisstjórnin á margan hátt allt of íhaldssöm við að velta upp nýjum möguleikum og nýjum lausnum á þeim vanda sem við stöndum nú frammi fyrir. Mér finnst íslensk stjórnvöld hafa bundið trúss sitt allt of lengi og allt of fast við hala Bandaríkjamanna. Við sjáum núna að það hefur heldur betur verið að binda ráð sitt við refshala að hengja sig aftan í þá, því að sú ríkisstjórn sem nú er í Bandaríkjunum og hefur verið um nokkurra ára skeið er alls ekki góð stjórn og það er alls ekki góður félagsskapur að vera í slagtogi með þeim slánum sem þar ráða nú ferðinni. Það verður bara að segjast alveg eins og það er, virðulegi forseti.

Ég talaði um það áðan að áherslur í varnarmálum margra nágrannaþjóða okkar væru að breytast og benti á að það er kannski ekki alveg rétt að aðrar Evrópuþjóðir innan NATO séu svo vanmáttugar að þær hafi hugsanlega ekki áhuga á að efna til einhvers konar samstarfs við okkur Íslendinga. Nú er ég alls ekki að segja að það sé nauðsynlegt að kópera það varnarsamstarf sem við höfum verið í við Bandaríkin og að þær áherslur sem Bandaríkjamenn hafa haft hér í hersetu sinni, fjórar orrustuþotur, til langs tíma einnig kafbátaleitarflugvélar, ratsjárstöðvar, hlustunarstöðvar fyrir kafbátaumferð og annað þess háttar, séu endilega þær sem henta mundu Evrópuþjóðum NATO. Að sjálfsögðu yrðu áherslurnar að einhverju leyti öðruvísi. Það þarf ekki að vera neitt slæmt í sjálfu sér þó að svo sé.

Ég hef um nokkurt skeið fylgst mjög grannt með frændum okkar í austurvegi, þ.e. Norðmönnum, og hvað þeir hafa verið að gera. Það er mjög áhugavert að fylgjast með því og í aðra röndina dáist ég að dugnaði þeirra og framsýni í þessum málum. Ég greip með mér tvær þykkar skýrslur sem komu út nýverið, norskar skýrslur um þá möguleika og í raun og veru þær áætlanir sem Norðmenn hafa á þeim svæðum sem þeir kalla norðursvæði, þ.e. Norðurhöfin. Þetta eru skýrslur sem voru unnar á vegum norska utanríkisráðuneytisins og það er hægt að nálgast þær á netinu. Þeir hafa kallað saman hóp bestu sérfræðinga sinna til að fara yfir hvaða áskoranir bíða þeirra á norðursvæðunum en einnig hvaða möguleikar eru fyrir hendi í framtíðinni. Ég hef sagt það áður að mér finnst íslensk stjórnvöld vera allt of blind á norðursvæðin og þá möguleika sem felast í þeim. Við erum allt of upptekin af því að horfa til austurs og vesturs en gerum allt of lítið af því að gá til norðurs. Mér finnst að þar mættu íslensk stjórnvöld og utanríkisráðuneytið sérstaklega leggja miklu meiri áherslu á sín störf.

Sú staða sem nú er komin upp í varnarmálunum er að sjálfsögðu erfið. Þetta er mikil áskorun og þetta er á vissan hátt vandi sem við stöndum frammi fyrir en bæði áskoranir og vandamál kalla á lausnir. Þetta kallar á það að við Íslendingar sýnum ákveðna djörfung og hugmyndaauðgi. Þetta kallar á það að við öll, ekki endilega ríkisstjórnarflokkarnir heldur allir stjórnmálaflokkar, séum reiðubúin til að velta upp nýjum möguleikum og hugsa nýjar lausnir í þessum málum, að við séum ekki um of bundin á klafa íhaldssemi, að við séum ekki um of menguð af hugsunarhætti kalda stríðsins, heldur reynum að losa okkur frá þessu öllu saman og sjáum hvaða möguleika við höfum í framtíðinni. Ég er alveg sannfærður um það, virðulegi forseti, að hin landfræðilega lega Íslands gerir það að verkum að við skiptum ekkert minna máli nú en til að mynda á árum seinni heimsstyrjaldarinnar þegar Ísland var miðstöð varna, bæði á sjó og í lofti, var miðstöð fyrir skipaumferð yfir Norður-Atlantshafið á milli Norður-Ameríku og Evrópu en líka á milli Evrópu og Norðvestur-Rússlands, Norður-Ameríku og Norðvestur-Rússlands. Ísland hefur ekkert færst til á hnettinum. Lítum aðeins á það sem er að gerast núna. Hvað er að gerast norður af okkur? Jú, við vitum að það er að hefjast hlýskeið. Við getum deilt um ástæður þess að þetta hlýskeið er að hefjast en ég held að enginn velkist í vafa um það í dag að nýtt hlýskeið er að renna upp. Ísinn í Norðurhöfum er að hopa. Þetta veitir marga möguleika.

Í Barentshafi er að hefjast umfangsmikil olíuvinnsla og gasvinnsla, t.d. á mjallhvítarsvæðinu sem er norður af Hammerfest í Finnmörku í Norður-Noregi. Rússar eru einnig að hefja mikla olíuvinnslu og gasvinnslu austar í Barentshafi, austur við Novaja Zemlja og austur af Hvítahafi undan ströndum Síberíu. Mikilvægustu markaðir þessara þjóða fyrir olíu og gas eru í Norður-Ameríku, í Kanada og Bandaríkjunum og jafnvel sunnar, í Suður-Ameríku. Það er alveg ljóst að til að koma þessum náttúruafurðum á markaði, þ.e. olíu og gasi, þá mun siglingaleiðin fram hjá Íslandi skipta mjög miklu máli. Ég hygg, virðulegi forseti, að bara þetta eitt og sér hljóti að gefa mikla möguleika fyrir okkur Íslendinga, ekki síst í varnar- og öryggismálum en líka ákveðin viðskiptatækifæri. Þarna verðum við að vera á verðinum.

Ég hef talað um að Norðmenn séu á margan hátt mjög framsýnir í þessum efnum. Ég nefndi það áðan í andsvari að Norðmenn væru núna nánast að byggja upp nýjan flota. Það er alls ekki orðum aukið að segja það. Í gær fengu þeir afhenta fyrstu freigátuna af fimm. Freigátan Fridtjof Nansen var afhent frá skipasmíðastöð á Spáni, mjög öflugt og stórglæsilegt skip, 133 metrar á lengd, 17 metrar á breidd og 5.300 tonn, skip sem getur borið þyrlu og er sérhannað til að vera í Norðurhöfum. Þetta er einungis fyrsta skipið af fimm. Árið 2009 á að vera búið að afhenda öll þessi skip.

Norðmenn ætla líka að kaupa sex nýja tundurskeytabáta, sex nýja kafbáta, sex tundurduflaslæðara og 14 þyrlur. Þetta eru innkaup sem eiga að eiga sér stað fram til ársins 2010. Þegar þessar fjárfestingar eru að baki, auk mikilla fjárfestinga sem þeir hafa lagt í á örfáum undanförnum árum við að byggja upp flota sinn með strandgæsluskipum. Norski strandgæsluflotinn er mjög öflugur í dag, stórglæsilegur. Þegar þessum fjárfestingum verður lokið verða Norðmenn komnir með einn öflugasta flotann í Norður-Atlantshafi. Hvers vegna skyldu Norðmenn gera þetta? Þeir eru óvitlausir, þeir sjá fram í tímann. Við Íslendingar hugsum í örfáum árum, þeir hugsa yfirleitt í áratugum. Þeir vita nefnilega, gera sér fulla grein fyrir því að varnar- og öryggishagsmunir þeirra liggja á hafinu. Það eru siglingaleiðirnar, olíuvinnslan og fiskimiðin sem þeir munu þurfa að verja í framtíðinni. Það er alveg augljóst þegar maður les þær skýrslur sem hafa verið skrifaðar af norska utanríkisráðuneytinu að það sem Norðmenn leggja mesta áherslu á í framtíðinni varðandi norðursvæðin eru annars vegar pólitískur stöðugleiki, þ.e. öryggis- og varnarmál og sjálfbær þróun, sjálfbær nýting náttúruauðlinda. Það er þetta tvennt sem þeir horfa fyrst og fremst til. Hinar miklu fjárfestingar í nýjum norskum flota, mjög öflugum flota, eru að sjálfsögðu réttlættar með þessu.

Ég er sannfærður um það, virðulegi forseti, að sú nýja staða sem nú kemur upp þegar Bandaríkjamenn fara frá Íslandi mun bjóða upp á möguleika til aukins samstarfs til að mynda við Norðmenn. Við eigum að skoða það með opnum huga að leita einmitt þeirra leiða að athuga hvort þeir séu ekki reiðubúnir til að eiga við okkur samstarf sem væri þá innan ramma NATO. Við getum t.d. boðið þeim upp á ýmsa aðstöðu. Við erum með flugvelli, við erum með hafnir. Þeir hafa mikilla hagsmuna að gæta á hafinu austur af okkur, þeir hafa líka mikilla hagsmuna að gæta á hafinu norður af okkur. Aðrar þjóðir sem nefna má til leiks eru að sjálfsögðu Danmörk, Færeyjar og Grænland. Það þarf ekki að nefna meira. Þeir eru nú þegar eins og gráir kettir í Reykjavíkurhöfn og er ekkert nema gott eitt um það að segja.

Virðulegi forseti. Tími minn er á þrotum. Heilt á litið hef ég ekki miklar áhyggjur af framtíð okkar í öryggis- og varnarmálum. Við eigum að sjálfsögðu að vera áfram í NATO, þar erum við fullgildir meðlimir. Ég er sannfærður um að við munum finna lausn á þeim vanda sem nú hefur steðjað að okkur um skamma hríð.