132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Úrvinnslugjald.

714. mál
[01:28]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er árvisst að hæstv. umhverfisráðherra tali fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um úrvinnslugjald og ég hafði satt að segja ekki neinar áhyggjur af þessu máli. Ég hélt að þetta væri bara rútína, hæstv. umhverfisráðherra kæmi til með að mæla fyrir einhverri breytingu sem varðaði einhverjar krónutalsbreytingar á álögðum gjöldum eða eitthvað jafnsakleysislegt. Ég sat frammi við sjónvarpstækið og hlustaði á hæstv. ráðherra byrja ræðu sína og hún bara lengdist og varð efnismeiri og ráðherra bætti við fleiri og fleiri atriðum þannig að það fóru að renna á mig tvær grímur, svo ég sá mitt óvænna og sótti mér eintak af frumvarpinu og játa þá synd mína að hafa ekki undirbúið mig betur fyrir þennan fund heldur en raun ber vitni að ég las ekki þetta frumvarp.

Ég vil einungis segja það, frú forseti, að umhverfisnefnd vann á þessu þingi afar mikið verk tengt breytingum á þessum sömu lögum og einmitt þeim þáttum laganna er varða þær umbúðir sem hér um ræðir, þ.e. pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgang. Ef ég man rétt var það frumvarp jafnframt til meðferðar á síðasta þingi hjá nefndinni, þannig að það var talsvert mikil vinna lögð í það. Við fengum um þetta lærða fyrirlestra þar sem við fórum yfir dönsku lögin sem eru fyrirmynd laga okkar og úrvinnslugjaldið á þessa tegund umbúðaúrgangs er í raun reiknað út frá dönsku lögunum og þetta lærðum við allt saman og fórum vel ofan í.

En það sýnir í fyrsta lagi hversu flókin löggjöf hér er á ferðinni að okkur öllum hefur yfirsést, jafnt ráðherranum, starfsfólki ráðuneytisins sem og umhverfisnefndinni að hér þyrfti að standa að einhverju leyti öðruvísi að málum en við ákváðum að gera fyrr á þessu þingi. Ég held að lögin hafi farið í gegn í lotunni rétt fyrir jól. Við þurfum sem sagt eina ferðina enn að taka úrvinnslugjaldið inn í umhverfisnefnd. Ég segi ekki að ég tryggi mikinn fögnuð nefndarmanna þegar farið verður að skoða málið en auðvitað sé ég í fljótu bragði ekki neina meinbugi á því sem hér er lagt til. Þegar maður les þetta á handahlaupum og hlustar á ræðu hæstv. ráðherra sér maður ekki annað en að skynsamlegar úrbætur séu á ferðinni og nauðsynlegar til þess að þau lög sem við nú þegar höfum sett fúnkeri á þann hátt sem til stóð.

Ég ætla ekki að halda gáfulegri ræðu en þetta, frú forseti, um málið enda klukkan farin að halla í tvö og ekki við því að búast að maður sé kannski mjög skýr í kollinum þegar búinn er að standa þingfundur frá því um miðjan dag og kannski tilefni til þess í lok ræðu minnar, hæstv. forseti, að við fáum eitthvað að heyra frá forseta um það hversu lengi er gert ráð fyrir að þessi fundur haldi áfram.