132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Fullnusta refsidóma.

675. mál
[02:30]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð.

Frumvarpið er liður í flutningi verkefna á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og stofnana þess til sýslumannsembætta utan höfuðborgarsvæðisins. Nánar tiltekið lýtur frumvarpið að breytingu á fyrirkomulagi hér á landi við framkvæmd innheimtu sekta og sakarkostnaðar á milli Norðurlandanna, en hingað til hefur hún farið fram fyrir milligöngu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Eins og kunnugt er hefur verið ákveðið að flytja innheimtu sekta og sakarkostnaðar á landinu í heild til embættis sýslumannsins á Blönduósi, sbr. 1. mgr. 70. gr. laga um fullnustu refsinga, nr. 49 17. maí 2005, þar sem segir að dómsmálaráðherra sé heimilt að ákveða að innheimta sekta og sakarkostnaðar verði á hendi eins lögreglustjóra eða annars aðila á landsvísu.

Þann 17. nóvember 2005 var skipuð undirbúningsnefnd sem hafði það hlutverk að undirbúa og skipuleggja uppsetningu innheimtumiðstöðvarinnar, og hefur nú verið ákveðið að innheimtumiðstöðin verði sett á fót í áföngum, þar sem gert er ráð fyrir yfirfærslu verkefna á tímabilinu frá apríl og fram í nóvember 2006.

Lagt er til að hið nýja fyrirkomulag á framkvæmd innheimtu sekta og sakarkostnaðar taki líka til innheimtu slíkra krafna á milli Norðurlandanna, en eins og áður segir hefur sú vinnsla hingað til farið í gegnum ráðuneytið, samanber lög um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.