Viðræður í varnarmálum

Þriðjudaginn 11. apríl 2006, kl. 12:06:48 (7533)


132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Viðræður í varnarmálum.

[12:06]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er nokkuð merkilegt ferli sem nú er að eiga sér stað í varnarmálum Íslendinga. Þar er kannski merkilegast af öllu hvernig Sjálfstæðisflokkurinn er að einangrast í utanríkis- og varnarmálum með nokkuð afdráttarlausum hætti á þessum mánuði sem liðinn er frá 15. mars, einum þeim svartasta degi í langri sögu Sjálfstæðisflokksins þegar ósköpin öll dundu yfir. Og nú síðast lýsir hæstv. forsætisráðherra því yfir í ræðu í gær í einum af háskólum borgarinnar að að hans mati komi vel til greina að segja upp varnarsamningnum og líta frekar til samstarfs við Evrópuríkin í varnar- og öryggismálum. Þarna tekur hæstv. forsætisráðherra undir þau viðhorf sem Samfylkingin og stjórnarandstöðuflokkarnir hafa haldið uppi upp á síðkastið. Það er orðið að nokkuð þverpólitísku viðhorfi að líta frekar til Evrópulandanna í öryggis- og varnarmálum en til Bandaríkjanna og segja má að hæstv. forsætisráðherra hafi í gær verið að segja áralöngum undirlægjuhætti íslenskra stjórnvalda við Bandaríkjamenn stríð á hendur.

Nú er spurningin hvernig Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðið ætla að bregðast við þessari nýju stöðu þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur einangrast einhvers staðar úti á jaðrinum í varnar- og öryggismálum Íslendinga. Þessu hlýtur hæstv. utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins að svara í dag rétt eins og hann upplýsti í umræðum um utanríkismál í síðustu viku, að krafan um sýnilegu varnirnar og þoturnar fjórar sem fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, hafði margoft lýst afdráttarlaust yfir, væri orðin að einhverjum ósýnilegum vörnum sem yrði sinnt frá Skotlandi eða annars staðar frá, eða svo mátti skilja hæstv. ráðherra. Sýnilegu varnirnar voru því orðnar mjög ósýnilegar enda ógnin nokkuð ósýnileg og illa skilgreind, en þessu hlýtur hæstv. ráðherra að svara okkur í dag.