Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 11. apríl 2006, kl. 19:30:54 (7636)


132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[19:30]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson segir í ræðu sinni að sá sem falbjóði sig þurfi á félagslegum úrræðum að halda. Það er auðvitað hárrétt. Auðvitað þarf að grípa til félagslegra úrræða. Það þarf að efla þau úrræði sem eru til staðar því að þau eru nánast engin í dag. Þau eru allt of lítil og veik. Ég treysti þá á stuðning hv. þingmanns í þeim efnum, að sett verði í forgang að efla þau félagslegu úrræði sem þurfa að vera til staðar.

Hv. þingmaður talar um rót vandans. Hann segir: Er ekki rétt að við förum að rót vandans? Ég segi jú, auðvitað er það rétt. Hver er þá rót vandans? Í mínum huga og þeirra Svía sem settu lögin á sínum tíma og starfa eftir löggjöfinni í dag — nota bene, um 80% sænsku þjóðarinnar eru ánægð með sænsku löggjöfina. Það hefur ítrekað komið fram í skoðanakönnunum. Rót vandans í okkar huga, sem styðjum þessa leið, er sú að aldagömul viðhorf til kvenna lýsi sér í því að það skuli látið óátalið að líkamar kvenna skuli boðnir til sölu.

Viðhorf karla til kvenna, segi ég. Þetta er það sem kom fram hjá sænsku þingmönnunum sem settu löggjöfina á sínum tíma. Á því viðhorfi er alið, t.d. í tónlistarmyndböndum, ákveðnum tegundum fjölmiðla, sérstaklega ýmsum prentmiðlum og það birtist í eftirspurn eftir klámefni. Hvað er klám annað en mynd af vændi?

Við verðum að fara að setja samasemmerki á milli hlutanna og getum ekki verið skinheilög í þessu efni, sem mér finnst vera tilhneigingin í 12. gr. þessa frumvarps þar sem sagt er að ekki megi auglýsa kynlífsþjónustu eða kynmök við annan mann gegn greiðslu, það sæti sektum og fangelsi. Það er í mínum huga yfirlýsing um að það sé í lagi að þetta sé til bara ef það er ekki á síðum blaðanna. Mér finnst tvískinnungur í þessu máli og mér finnst þetta feimni eða hræðsla við að horfast í augu við rætur vandans.