Jarðalög

Þriðjudaginn 11. apríl 2006, kl. 21:27:36 (7664)


132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Jarðalög.

739. mál
[21:27]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég minnist þess frá því er vatnalögin voru til umræðu að hv. þingmaður sagði úr þessum stól að sú lagasetning mundi engin áhrif hafa, og var þar skynsamur og framsýnn eins og í mörgu öðru. Það munu allir finna að vatnið er nægt á Íslandi og frjálst og enginn sá eignarréttur á því að menn muni hamla öðrum um vatn. Það er bara pólitískur áróður.

Það eru ekki bara þeir sem bregða búi sem hafa hag af þróuninni. Segja má að þeir sem eiga landið og fjárfesta hafi bæði betri veð og meiri möguleika, geta þess vegna selt hluta af jörð sinni og látið aðra byggja þar nýbýli sem hefja starfsemi. Þetta hefur gjörbætt hag sveitamanna og breytir sveitinni. Við sjáum þar miklar breytingar sem mönnum finnast sárar í svipinn en það er gríðarlega gaman að sjá nýja atvinnustarfsemi ná fótfestu. Þar er íslenski hesturinn en hrossabúgarðar munu verða fleiri en kúabú áður en varir. Þar er fólk að gera góða hluti í íslenskum sveitum. Það er þáttur í því að menn sækjast eftir landi.

Hvað varðar hlunnindin þá hafa þau alltaf verið eftirsótt af auðugum mönnum. Við munum Thorsarana og við munum fleiri og fleiri sem keyptu upp lönd. En bændur eru sem betur fer fastheldnir á sínar jarðir og ættirnar tryggar þannig að menn sitja fast. Við skulum ekki hafa svo miklar áhyggjur af því. En ég hef lofað bæði búnaðarþingi og Alþingi að fara yfir þessi mál faglega og grípa þar ekki til neinna úrræða nema að vel athuguðu máli. Sveitin er í mikilli sókn, er vinsæl í dag og að mörgu leyti í miklu betri stöðu en fyrir fimm eða tíu árum.

Örlög Framsóknarflokksins eru kannski svipuð og Alþýðuflokksins 1995 eða 1971. Eftir langt og gjöfult samstarf við Sjálfstæðisflokkinn virðist fylgi okkar ekki mikið. En ég er sama sinnis og hv. þingmaður var 1995, (Forseti hringir.) að það er alls ekki sanngjarnt.