Jarðalög

Þriðjudaginn 11. apríl 2006, kl. 21:34:05 (7667)


132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Jarðalög.

739. mál
[21:34]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vek athygli á að ég velti þessu fyrir mér í framhaldi af þeirri umræðu sem hefur verið um að reyna að koma á einhverjum reglum um jarðasölu þar sem, eins og nefnt var áðan, auðmenn eru að kaupa upp jarðir og aukin hætta er á að ábúð á jörðum leggist af.

Hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að hann hafi áhuga á að skoða það með landbúnaðarnefnd og hv. þingmönnum með hvaða hætti sé hægt að mynda heildarlög sem taki á því og tryggi ábúð á jörðum vítt og breitt um landið. Ég er að horfa á það hvort þessi 4. gr. geri með einhverjum hætti erfiðara um vik að setja á heildarlög varðandi jarðasölu t.d.