Tóbaksvarnalög -- eftirlaunafrumvarp -- starfsáætlun þingsins

Miðvikudaginn 19. apríl 2006, kl. 12:26:02 (7682)


132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Tóbaksvarnalög – eftirlaunafrumvarp – starfsáætlun þingsins.

[12:26]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það er farið úr einu í annað og ég ætla að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið varðandi tóbaksfrumvarpið.

Það liggur fyrir að Hæstiréttur telur að Alþingi hafi gengið of langt gagnvart sérverslun með tóbak að setja þeim sömu skilyrði og almennum verslunum, þ.e. að tóbak og vörumerki tóbaks sé ekki sýnileg viðskiptavinum. Í sjálfu sér má segja að þetta sé skiljanleg og rökræn niðurstaða hjá Hæstarétti og það segir sig sjálft að þeir sem fara í sérverslanir með tóbak sæki þangað gagngert til að kynna sér og kaupa slíka vöru.

Á hinn bóginn hlýt ég að vekja athygli á því að Hæstiréttur segir í dómsorði sínu að hann teldi það samrýmast ákvæðum stjórnarskrár um tjáningar- og atvinnufrelsi að setja skorður við því að heilsuspillandi vörur á borð við tóbak séu í augsýn annarra viðskiptavina en þeirra sem vilja kaupa þær. Taldi Hæstiréttur að löggjafanum sé heimilt að setja slíkar skorður á tóbaksauglýsingar í almennum verslunum.

Dómur Hæstaréttar segir okkur hins vegar að við þingmenn þurfum að fara varlega þegar við erum að fjalla um þætti sem geta takmarkað athafnafrelsi manna. En á hinn bóginn er ég þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að löggjöf um tóbak eigi að vera tiltölulega ströng. Ég tel að stjórnvöld eigi að beita þeim aðferðum sem þau hafa yfir að ráða til að minnka reykingar. Auglýsingabann á tóbak er einn liður í því. Annar er bann við reykingum á opinberum vettvangi, þar með á veitinga- og skemmtistöðum. Tóbaksreykingar eru nefnilega ekki einkamál þeirra sem reykja þó þeir skaði sjálfa sig vissulega einna mest. Það er bæði að beinn og óbeinn kostnaður er verulegur og þannig sýna nýlegar íslenskar rannsóknir að miðaldra karlar sem að staðaldri reykja pakka eða meira á dag stytti meðalævina um 13 ár og konur um 10 ár. Þetta finnst mér vera samfélagsleg sóun.

Jafnframt verður líka að horfa til þess að heilbrigðiskostnaður vegna afleiðinga reykinga er verulegur og skattpeningar landsmanna standa straum af því. Ljóst er að hv. heilbrigðis- og trygginganefnd hefur til umfjöllunar frumvarp um breytingar á lögum um tóbaksvarnir og mér sýnist það sjálfgefið að nefndin taki dóm Hæstaréttar til athugunar og styðji bæði hv. formann nefndarinnar og Pétur Blöndal.