Ríkisútvarpið hf.

Miðvikudaginn 19. apríl 2006, kl. 14:54:43 (7710)


132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:54]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Vandinn við það málþóf sem er í gangi um þetta mál sem og mörg önnur er að það er afskaplega erfitt að eiga málefnalega umræðu við þingmenn vegna þess að maður veit aldrei hvenær ræðan er búin. Hv. þingmaður hóf ræðu sína eftir mat kl. 1.30 og ég vissi ekki hvort hún mundi tala í 10 mínútur eða hálftíma, tvo tíma eða sex tíma. Síðast þegar þetta mál var til umræðu beið ég í sex klukkutíma til kl. hálfsex að morgni til að halda ræðu sem hv. þingmaður hefur greinilega ekki lesið því hún kvartar undan því að Ríkisútvarpið falli ekki undir upplýsingalög.

Þannig vill til að fyrir Alþingi liggur mál, 404. mál sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd er búin að afgreiða út frá sér og þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram komu er lagt til að kjörnum fulltrúum eigenda, þingmönnum ef ríkið er eigandi og viðkomandi sveitarstjórnarmönnum ef sveitarfélag er eigandi, sé heimilt að sækja aðalfund með rétt til að bera fram skriflegar fyrirspurnir. Meiri hlutinn telur að með því að leyfa skriflegar fyrirspurnir á aðalfundum verði auðveldara en ella að afla upplýsinga um opinber hlutafélög sem áður voru opinberar stofnanir og lutu þá sem slíkar m.a. upplýsingalögum og stjórnsýslulögum.“

Þarna er komið inn á það að upplýsingalög og stjórnsýslulög gildi um þessi fyrirtæki eftir að búið væri að hlutafélagavæða þau því að þessi fyrirtæki, RÚV og fleiri, verða einmitt opinber hlutafélög. Hefði hv. þingmaður verið hér þegar ég hélt ræðu mína eða lesið hana síðan og fylgst með umræðunni þá hefði hann vitað að þetta sjónarmið hefði komið fram og Ríkisútvarpið mun hlíta upplýsingalögum að þessu leyti.