Ríkisútvarpið hf.

Miðvikudaginn 19. apríl 2006, kl. 18:01:54 (7718)


132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[18:01]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (frh.):

Frú forseti. Ég var þar kominn í ræðu minni þegar nauðsynlegt var að gera hlé að ég var að rifja upp þær harkalegu ádrepur sem hv. þm. Pétur H. Blöndal ásamt félögum hans tveimur, þar á meðal formanni menntamálanefndar, höfðu gefið frumvarpi menntamálaráðherra sem við ræðum nú, og á ég fyrst og fremst við þann part sem lýtur að nefskatti. Eins og ég gat um, frú forseti, er nefskattur einhver ranglátasti skattur sem hægt er að hugsa sér. Hann er föst upphæð sem leggst á alla. Hann tekur ekkert mið af greiðslugetu manna eða tekjum. Og enginn hefur sýnt með jafnsterkum rökum fram á það í þessu þingi hvað nefskatturinn er ranglátur eins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar en það er auðvitað fróðlegt að sjá að sá ágæti þingmaður reið ekki einn í herför sinni á hendur hæstv. menntamálaráðherra í þessu efni. Hann hafði tvo til reiðar, sveina smáa, knáa og efnilega. Báðir höfðu nægilega vitsmunalegt atgervi til að skynja að gagnrýni hv. þm. Péturs H. Blöndals var á rökum reist.

En það voru engir aukvisar sem fóru í þennan leiðangur með hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar. Þetta var einn af varaforsetum þingsins, hv. þm. Birgir Ármannsson, og hinn var hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, eins og fram hefur komið.

Í ræðu minni áðan var ég þar staddur þar sem ég var að undra mig stórum á sinnaskiptum hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Sinnaskiptin, frú forseti, felast í því að í fyrra flutti þessi hv. þingmaður þingmál þar sem reifaðir voru stórkostlegir veikleikar að hans dómi og samflutningsmanna á nefskattsákvæði í frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra. Nú hins vegar berst þessi ágæti þingmaður með kjafti og klóm eins og ljón fyrir því að ná þessu ákvæði í gegn.

Ég rifjaði það líka upp í lok fyrri kafla ræðu minnar að það ákvæði er sérstaklega andstætt þeim markmiðum í frumvörpum sem lögð hafa verið fram af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á þessu þingi. Það vinnur beinlínis gegn markmiðum þeirra um að auðvelda fólki að stofna fyrirtæki. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ekki síst hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, hafa flutt mörg þingmál í einu eða öðru formi þar sem hvatt er til þess að fólki verði auðveldað að stofna lítil fyrirtæki í kringum viðskiptahugmyndir. Við í Samfylkingunni höfum tekið undir þetta. Við höfum alltaf fylgt þeirri stefnu að ýta eigi undir einstaklingsþróttinn, framtak einstaklingsins sem að okkar viti er einn af aflvökum þeirrar kvarnar sem mylur gullið inn í samfélagið sem við byggjum svo aftur velferðarkerfið á.

Í umræðum fyrr í vetur rifjaði ég það upp, virðulegi forseti, sem snerist um þingmál hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að Íslendingar eru að ýmsu leyti öðruvísi en aðrar þjóðir að því er varðar þennan frumkvæðisþrótt. Kannanir hafa sýnt að hvergi er jafnmikill vilji meðal nokkurrar þjóðar á vesturhveli að setja á stofn fyrirtæki í kringum viðskiptahugmyndir sínar og á Íslandi. Má rifja það upp, virðulegi forseti, að hér á landi er það sérstaklega hlutur kvenna sem liggur eftir varðandi stofnun fyrirtækja í kringum viðskiptahugmyndir. Þó höfum við séð að slík fyrirtæki sem konur af hugviti sínu smíða í kringum slíkar hugmyndir eru jafnan líklegri en hugmyndir okkar af hinu kyninu til að ná fram að ganga, þetta sýna kannanir. Það er af því að þær leggja af stað með betri undirbúning og þær virðast á stundum vera varfærnar og þurfa að minna kapítal til að hefja sitt starf. Ef hægt væri að ná sama hlutfalli kvenna til að stofna lítil fyrirtæki í kringum viðskiptafyrirtæki hér á landi og karla, mundi hagvöxtur aukast um hálft prósent. Þessar upplýsingar fékk ég á sínum tíma hjá Háskólanum í Reykjavík. Ég nefni þetta vegna þess að nefskatturinn hækkar um einn tíunda hluta þann kostnað sem þarf að ráðast í til að stofna svona fyrirtæki. Þess vegna er nefskatturinn gersamlega öndverður þeim hugmyndum sem sjálfstæðismenn hafa lagt fram sem miða að því að auðvelda mönnum að setja á stofn fyrirtæki. Þannig rekur hvað sig á annars horn í þessu lufsulega frumvarpi sem hefur bersýnilega ekki verið til þrautar hugsað og sem er opið í a.m.k. mörgum hornunum, að ég segi ekki, af því að mér kemur Framsóknarflokkurinn í hug, í báða enda.

Pétur H. Blöndal tók 13 dæmi um vonsku nefskattsins. Ég hafði í fyrri minni ræðu rifjað upp nokkur þessara atriða og ég var kominn að atriði fjögur þar sem sérstaklega var bent á að afleiðing þess að nefskatturinn er settur á er m.a. sú að 22 þúsund lögaðilar þurfa að greiða hann. Af þeim eru að mati ríkisskattstjóra 13 þúsund sem eru líklega svokölluð sofandi fyrirtæki, fyrirtæki sem eru ekki starfandi og sem allt í einu fá á sig þennan skatt. Hverjar verða afleiðingar þess? Fyrirtækin fara að skulda, það koma dráttarvextir, upphæðin hækkar. Keisarinn fær ekki greitt það sem hann krefst af þegnunum og þá rekst af stað ferli sem að lokum endar með gjaldþroti. Það segir klárt og kvitt í umsögn ríkisskattstjóra að líklegt sé að þetta geti hrakið þennan fjölda fyrirtækja í gjaldþrot. Það segir meira. Bent er á af Indriða Þorlákssyni ríkisskattstjóra að fyrir nokkrum árum, fyrir atbeina þingmanna sem hafa áhuga á að greiða götu smáfyrirtækja og koma í veg fyrir að fyrirtæki séu hrakin með ónauðsynlegum kostnaði í það leiðindaferli sem endar í gjaldþroti, var sérstök leið til að sjá um slit slíkra félaga. Ríkisskattstjóri bendir á að nefskatturinn í þessu frumvarpi, sem er ekki einu sinni partur af skattalögunum, leiðir til þess að það ferli verður ekki lengur virkt. Þá erum við aftur komin í þá stöðu sem við ræddum mörgum sinnum fyrir nokkrum árum að gríðarlegur fjöldi fyrirtækja og einstaklinga sem þeim tengjast voru rekin í gjaldþrot. Enginn græddi á því nema einhverjir lögmenn úti í bæ og hvers kyns kostnaður ónauðsynlegur féll á ríkið. Talið var á þeim tíma, ætli það séu ekki 8–9 ár síðan, að ríkið þyrfti að axla kostnað sem svaraði til 50–70 þús. kr. fyrir hvert gjaldþrot. Þetta dæmi hefur bersýnilega ekki verið reiknað til enda og á þetta er tryggilega bent af þeim sem mótmæltu svo harkalega þessum nefskatti. Þetta voru þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Einn af þeim var hv. þm. Birgir Ármannsson.

Hv. þm. Birgir Ármannsson hefur getið sér gott orð fyrir þekkingu á efnahagsmálum og málum sem tengjast rekstri fyrirtækja enda hefur þingmaðurinn ákaflega góða reynslu að baki. Hann var framkvæmdastjóri Verslunarráðs og það var einmitt Verslunarráðið sem tók þessi mál upp á sínum tíma og mig langar að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson: Hvað veldur því að hann er núna allt í einu farinn að berjast gegn því sem hann áður barðist fyrir? Ég veit að hv. þm. Birgir Ármannsson mun tæpast gera tilraun til að svara því. Svarið liggur alveg ljóst fyrir. Þessi hv. þingmaður er eins og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins laminn til hlýðni við frumvarpið þótt í því sé margt sem margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru andstæðir.

Við erum í þessu máli, frú forseti, að rata í svipaðar ógöngur og í umræðunni um fjölmiðlalögin hér um árið. Það er rétt að rifja það lítillega upp. Þá ræddi þingheimur frumvarp til laga um eignarhald á fjölmiðlum og ekki fyrirfannst einn einasti maður í röðum stjórnarliða sem studdi það. Það þurfti ekki að spyrja um okkur í stjórnarandstöðunni. Við vorum frá upphafi algerlega á móti því frumvarpi. En það kom aldrei fram hverjir það voru í liði stjórnarinnar sem studdu frumvarpið. Ástæðan er sú að það var fyrst og fremst rekið af persónulegum metnaði hæstv. þáverandi forsætisráðherra. Það var enginn annar sem studdi hann í þessu persónulega stríði við ímyndaða óvini í heimi fjölmiðlanna.

Þetta mál er alveg eins vaxið. Það er líka rekið af persónupólitískum metnaði hæstv. menntamálaráðherra. Hún sést ekki fyrir í málinu. Hún hefur ekki getað skýrt út fyrir okkur hvaða nauðsyn er á að samþykkja málið svona hratt. Bent hefur verið á m.a. af hennar eigin þingmönnum að skafankar eru á frumvarpinu, það eru upplýsingar sem ekki liggja fyrir. Það hefur ekki einu sinni tekist að fá í meðförum menntamálanefndar umfjöllun um það af hálfu sérfræðinga hvort sá aðskilnaður, sem t.d. á að vera gerður frumvarpinu samkvæmt á samkeppnisrekstrarlegum þáttum Ríkisútvarpsins og hins vegar rekstri almannaútvarpsins sem slíks, standist og sé heldur og hvort þeir brunaveggir sem þar eru reistir séu það þéttir að logar geti aldrei leikið á milli. Hugsa sér, frú forseti. Verið er að samþykkja frumvarp um rekstur á mikilvægustu menningarstofnun ríkisins og Íslendinga. Uppfylla þarf ákveðin skilyrði sem sett eru af alþjóðlegum samningum sem við erum aðilar að og í nefndinni fellst meiri hlutinn ekki á það að sérfræðingar frá opinberum skattyfirvöldum séu fengnir til að leggja mat sitt á það hvort slíkum skilyrðum sé fullnægt. Þetta er eftir öðru, frú forseti.

Ég er þeirrar skoðunar að nefskatturinn sé þess eðlis að mjög erfitt sé að réttlæta hann. Skattheimtan er ákaflega ósanngjörn. Gjaldið á að tengjast gjaldgreiðslum í Framkvæmdasjóð aldraðra og það á að leggjast á sömu einstaklinga og greiða það gjald. Þetta þýðir að ekki er lagt á þá sem eru yngri en 16 ára og ekki eldri en þá sem eru 70 ára og það leggst ekki heldur á þá sem voru með tekjur undir skattleysismörkum. Útvarpsgjaldið leggst með sama hætti á þennan sama hóp og síðan bætast lögaðilarnir við.

Það er hægt að finna margt athugavert við skattheimtu af þessu tagi. Auðvitað er skiljanlegt að þeir sem eru 70 ára og eldri greiði ekki gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, sem beinlínis hefur það að markmiði að bæta stöðu aldraðra. En það er þó ekki réttlátt að leggja fast gjald á þá sem eru vinnandi og hafa tekjur rétt yfir skattleysismörkum og hafa jafnvel fyrir börnum að sjá og þar af leiðandi ómegð, eiga með öðrum orðum erfitt með að draga fram lífið, en leggja útvarpsgjaldið ekki á þá í hópi aldraðra sem hafa háar tekjur, lífeyrisgreiðslur eða fjármagnstekjur. Við vitum að sem betur fer er sá hópur töluvert stór. Þá spyr ég, frú forseti, og þá kemur að grundvallarspurningu: Er þetta jafnræði?

Stenst það jafnræðisregluna, sem við höfum sett í stjórnarskrána, að þeir sem eru vel efnum búnir en eru komnir yfir sjötugt þurfi ekki að greiða nefskattinn en þeir sem eru ungir, með lágar tekjur, kannski rétt fyrir ofan skattleysismörk og hafa fyrir ómegð að sjá, verða að greiða hann? Erum við þá ekki komin í hring, þegar við tölum um að draga úr jaðarsköttum, vegna þess að þetta kerfi býður ekki upp á það? Ef maður hefur eina krónu yfir mörkunum þá borgar maður 13.500 kr. gjald. Þar er engin jöfnun á milli. Það er ekki oft, frú forseti, sem ég tek undir með hinum hægri sinnuðustu í hópi þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Ég verð þó að segja að sú hugmynd er jákvæðari sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur lagt fram, um að réttlátara sé að tengja þetta gjald við persónuafsláttinn vegna þess að það hefur ákveðin jöfnunaráhrif. Það þýðir að þeir sem eru lægstir í tekjum greiða minna. Sú aðferð er þrátt fyrir allt miklu jákvæðari en nefskatturinn sem hér er lagður fram.

Ég hef í máli mínu drepið aðeins á það að ríkisskattstjóri hefur lagt mat sitt á nefskattinn. Ég velti því fyrir mér hvort krafturinn og þunginn í Sjálfstæðisflokknum til að ná þessu máli í gegn sé slíkur að engin rök hríni á honum. Ríkisskattstjóri lagði í ákaflega mergjuðu máli fram hörð andmæli gegn nefskattinum. Hann taldi upp margvíslegar röksemdir. En það sem mér finnst skipta máli er að hæstv. menntamálaráðherra hafnaði því alfarið, bæði við 1. umr. og líka við 2. umr. málsins, að hægt væri að líta á þetta sem skatt. Ég tel þó að það sé með engu móti hægt að rökstyðja þá afstöðu hæstv. ráðherra.

Eftir að hafa þaullesið ræðu ráðherrans hef ég hvergi fundið eitt einasta orð þar sem hún reynir að rökstyðja þetta. Hún fer með möntruna sína eins og páfagaukur með einhverja þulu sem búið er að kenna honum. Þegar hún er spurð um röksemdirnar fyrir því af hverju þetta sé ekki falin skattheimta þá verður fátt um svör, þá er vísað út og suður. Það er ekki vísað í ríkisskattstjóra. Ástæðan er sú, frú forseti, að ríkisskattstjóri hefur komist að sömu niðurstöðu og við í stjórnarandstöðunni. Hann segir að þetta sé ekkert annað en skattur. Í umsögn sinni telur hann fram ýmis rök sem leiða hann að þeirri niðurstöðu, þ.e. að framsetningin á nefskattinum í frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra falli algerlega að fræðilegum skilgreiningum á skatti. Ríkisskattstjóri horfir sérstaklega til þess að ákvörðun á gjaldinu hverju sinni á að vera algerlega einhliða ákvörðun ríkisvaldsins án þess að það sé neitt sérgreint endurgjald. Þetta þýðir samkvæmt skattafræðunum að í reynd sé um skatt að ræða.

Við í stjórnarandstöðunni höfum líka bent á að það á sér stað merkilegur feluleikur með nefskattinn. Ef þetta er skattur, hvar eiga ákvæði um hann heima? Væntanlega í skattalögunum, í lögum um tekjuskatt. Það er ekki gert ráð fyrir því að þar verði minnst á þennan nefskatt sem ríkisskattstjóri sýnir svo tryggilega fram á að er bara partur af venjulegri skattheimtu. Þar er hvergi minnst á hann. Ástæðan er sú að það er verið að fela þetta. Sjálfstæðisflokkurinn er að fela það að hér skuli kominn enn einn feluskatturinn.

Ég ætla ekki að þreyta þingheim með því að rifja upp fyrri runur um margvíslegar tegundir nýrra gjalda sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur víða plantað inn í lögin og notar síðan til að fjármagna lækkun á tekjuskattshlutfalli hinna hæst launuðu. En það er staðreynd að síðan 1995 er sennilega hægt að finna hátt á fjórða tug nýrra gjalda sem eru eins og þessi nýi nefskattur hæstv. menntamálaráðherra falin á víð og dreif í lögunum. Sjálfstæðisflokkurinn segir að þetta séu ekki skattar heldur gjöld en niðurstaðan er hin sama. Þetta er í anda hinnar hægri sinnuðu hugmyndafræði frjálshyggjunnar sem ryður sér svo harkalega til rúms í Sjálfstæðisflokknum, að draga úr tekjutengdri skattlagningu en reyna að taka sem mest með beinum gjöldum eins og þessum, sem helgast ekki af tekjum þeirra sem greiða heldur af ákvörðun ríkisins. Nefsköttunum er dritað út um allt í lögunum og eru sennilega samtals farnir að skila einhverjum milljörðum fyrir ríkissjóð á ári. Sjálfstæðisflokkurinn telur þetta hvergi fram sem skattahækkanir. Sá ágæti prófessor, Stefán Ólafsson, sem rækilegast hefur flett ofan af skattahækkunarstefnu Sjálfstæðisflokksins síðustu missiri hefur heldur ekki enn þá ráðist í að taka þessi gjöld, hvar sem þau eru, rekja með hvaða hætti þau leiða til hækkunar á þjónustu og varningi og ná fram þeirri upphæð sem þetta nemur samtals fyrir almenna borgara í landinu. Allt það sem Sjálfstæðisflokkurinn segir um skattahækkanir eða skattalækkanir er hjóm eitt, blekkingar. Hann tekur aldrei með í reikninginn þessi felugjöld, feluskatta, hina nýju nefskatta sem er að finna svo víða.

Bara til að ljúka þessu og leggja áherslu á skæðadrífu þessara nýju gjalda þá vil ég rifja upp að hér fóru í gegnum þingið í fyrra lög um siglingavernd. Þar var að finna níu skatta, níu ný gjöld sem lögð voru á ýmiss konar hafnartengda starfsemi en voru öll þess eðlis að þegar upp var staðið lentu þau sem auknar álögur á varning og þjónustu sem almenningur keypti. Þessi nefskattur er enn eitt dæmið um slíkt.

Ríkisskattstjóri finnur líka að þeirri aðferðafræði sem beitt er í frumvarpinu, margvíslega tæknilega örðugleika sem ég ætla ekki að rekja hér. Hann bendir t.d. á að partur af feluleik ríkisstjórnarinnar varðandi skatteðli þessa nýja nefskatts birtist í að upphæðin sé ekki auglýst í Lögbirtingablaðinu. Ríkisskattstjóri spyr: Hvernig eiga þeir sem sækja gjaldið fyrir keisarann af þegnunum, láta menn gjalda skattinn, að vera klárir á því með hvaða hætti á að framkvæma gjaldheimtuna og ráðast í hana? Þetta er eðlileg tæknileg athugasemd hjá ríkisskattstjóra sem spyr: Hér er um skatt að ræða, hvers vegna á ekki að fara með hann samkvæmt venjulegum skattalögum og af hverju er hann ekki settur inn í skattalög? Ég hef svarað því nú þegar.

Eðli nefskattsins er að hann leggst jafnt á alla, algerlega óháð því hvort um er að ræða sárafátækan einstakling eða ofurríkan. Auðvitað fylgja ákveðnir kostir slíkri skattlagningu. Álagningin er í sjálfu sér einföld. Það þarf ekki að beita útreikningum til að komast að því hvað einstaklingurinn á að greiða því allir, jafnt blásnauðir sem hinir sterkríku, eiga að greiða hið sama. En ókostirnir eru að sjálfsögðu margvíslegir. Skatturinn tekur ekkert tillit til getu einstaklingsins til að inna af höndum greiðslu og er þess vegna mjög íþyngjandi fyrir þá sem eru tekjulágir. Þeir greiða hærra hlutfall af tekjum sínum í skatt af þessu tagi en hinir. Þetta er því andstætt eðlilegum leikreglum skattheimtu og engin rök færð fyrir þessu.

Það vill svo einkennilega til að þeirri röksemd sem ég flyt hér hefur líka verið beitt af þeim sem ég gat um áðan, sem hægt er að kalla hina hægri sinnuðustu í Sjálfstæðisflokknum, þá sem hafa verið hvað mest á móti skattheimtu. Þeir hafa eigi að síður dregið fram hið ójafna og rangláta eðli þessa skatts.

Þegar menn hófu að heimta skatta af þegnum sínum af margvíslegu tilefni var stór hluti af skattheimtunni nefskattar af þessu tagi. En vegna þess hversu ranglátir þeir voru og vegna þess að þeir lögðust jafnt á háa sem lága þá lögðust þeir af í tímans rás vegna þess að almenningur, hinn skattpíndi almúgi, gerði í mörgum tilvikum í veraldarsögunni uppreisn gegn skattheimtu af þessu tagi.

Ég nefndi áðan, frú forseti, skattinn sem Ríkharður II. Englandskonungur lagði á, sem leiddi til þess að það varð bændauppreisn í Englandi á sínum tíma. Ég vil leiðrétta það hér að ég nefndi þá ártalið 1643 en það var 1381 sem uppreisnin átti sér stað vegna þess að skatturinn var leiddur í lög af mikilli hörku árið áður, þ.e. 1380.

En síðasta dæmið um mikla reiði almennings á okkar parti jarðarkringlunnar út af skatti af þessu tagi er nefskatturinn frægi sem Margrét Thatcher lagði á. Hugmyndir um hann fóru að heyrast í þann mund sem ég kom til náms þar en ég held að hann hafi ekki verið leiddur í lög fyrr en um 10 árum síðar. Hann var í gildi þrjú eða fjögur ár en var að lokum afnuminn að fullu vegna harkalegra mótmæla. Við þekkjum öll afleiðingar þessa fyrir þann stjórnmálamann sem hrinti honum í framkvæmd. Hún var felld af stalli en hafði áður þótt óbilandi leiðtogi og líkleg til að ríkja lengi.

Út frá skattalegum sjónarmiðum má segja að þessi háttur á gjaldtöku sé ranglátur og flókinn að ýmsu leyti eins og hann er framkvæmdur samkvæmt þessum lögum. Hægt væri að einfalda málið töluvert en það sem skiptir þó öllu máli er að um hann ríkir ósátt og ófriður, jafnt af hálfu stjórnarandstöðunnar sem innan raða stjórnarliða.

Margir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa í tímans rás andæft gjaldtöku af þessu tagi. Mörgum sinnum hafa þeir stigið fram á hinu háa Alþingi og ráðist gegn ýmiss konar skattheimtu af þessu tagi, nú síðast í þessu tiltekna máli. Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa fært fram 13 röksemdir gegn þessu og það skondna í málinu og skringilega er sú staðreynd að formaður menntamálanefndar var aðili að þeim málflutningi. Hann benti á þessar 13 röksemdir í þingmáli sem hann lagði fram í fyrra. Því hlýt ég að endurtaka spurningu mína til þingmannsins, sem virðist fjarstaddur: Hvað veldur sinnaskiptum hans? Er það trúverðugt, frú forseti, að stjórnmálamaður skipti með þessum hætti algerlega um skoðun á minna en ári? Það er ekki trúverðugt.

Frú forseti. Ég hef áður getið þess að ég lít svo á að þetta frumvarp brjóti allar þær meginreglur sem minn flokkur hefur staðið fyrir. Það er rétt að rifja það upp að Samfylkingin hefur tamið sér ákaflega frjálslynd viðhorf gagnvart atvinnulífinu. Við höfum heldur ekkert farið í launkofa með að við teljum ekki að ríkisvaldið eða hið opinbera eigi að standa að einhvers konar rekstri sem er í samkeppni við markaðinn. Markaðurinn er alltaf að breytast. Umhverfið er alltaf að breytast.

Á sínum tíma var það alveg sjálfsagt að hér væri eitt símafyrirtæki sem sæi um alla símaþjónustu landsins og það væri rekið af ríkinu. Ástæðan var augljós. Þegar það fyrirtæki komst á legg og var byggt upp voru ekki neinir einstaklingar eða fyrirtæki í landinu sem gátu reitt af höndum fjármagn til að byggja það upp. Ríkið tók það að sér alveg eins og ríkið hefur tekið að sér að byggja upp margvíslega þjónustu sem þarf að byggja upp og er kostnaðarfrek í fámennu landi.

Á sínum tíma þegar tækninni vatt fram kom í hlut annars fyrirtækis í félagslegri eigu, Orkuveitu Reykjavíkur, í gegnum fyrirtækið Línu.Net að verða brautryðjandi að netvæðingunni inn á heimili landsmanna. Muna menn nú hvernig það fyrirtæki var hrakið af sjálfstæðismönnum? Muna menn nú hvernig allt var lagt í sölurnar til að níða það fyrirtæki niður? Eftir stendur að það bjó til nýtt umhverfi á tiltölulega skömmum tíma, skapaði nýja samkeppni og þegar önnur fyrirtæki voru komin inn á þann markað var það auðvitað selt, sú starfsemi látin öðrum í té alveg eins og Síminn var síðan látinn öðrum í té með samþykki Samfylkingarinnar. Við lögðumst með því að samkeppnisrekstur Símans yrði settur í hlutafélag og hlutafélagið yrði síðan í hæfilegum áföngum og á réttum tíma selt á markaði. Þannig er einfaldlega dynur tímans. Hann er margvíslegur og hann er stundum hávær og hljóðbær, tóntegundirnar eru mismunandi. En það koma tímamót þar sem aðstæðurnar breytast og það gerðist í tilviki Símans. Við höfum alltaf verið með þá grundvallarreglu, Samfylkingin og jafnaðarmenn, að þegar um er að ræða samkeppnisrekstur þá sé sjálfsagt að hlutafélagavæða hann og í tímans rás á réttri tímasetningu að einkavæða hann. Þetta hefur verið skoðun mín, þetta er skoðun félaga minna.

Hin hliðin á þessari grundvallarreglu er sú að þegar um er að ræða fyrirtæki í opinberri eigu sem hefur verið rekið að uppistöðu fyrir almannafé þá hentar hlutafélagaformið ekki. Þá er það einfaldlega öfugsnúið form til að varðveita og fara vel með hið opinbera fé. Hvers vegna? Vegna þess að við þekkjum það að til þess að það sé farið vel með skattfé almennings þarf virkt aðhald og virkt aðhald er aldrei hægt að veita nema hægt sé að fá upplýsingar um rekstur slíks fyrirtækis. Þau fyrirtæki sem ríkið hefur rekið hafa verið með ýmsu móti. Það hafa verið sameignarfélög, það hafa líka verið sjálfseignarfélög sem hafa verið í atvinnurekstri. Það er form sem hentar opinberum rekstri ákaflega vel. Það á það sameiginlegt með hlutafélagsforminu að það veitir sveigjanleika og lipurð, það gefur færi á því að gefa stjórnendum ákaflega mikla möguleika til að ráða rekstrinum eins og stjórn viðkomandi sjálfseignarfélags kýs að fela þeim. Um þetta eru sérstök lög sem voru sett 1993, endurbætt 1999.

Ég er þeirrar skoðunar að þessi grundvallarregla hafi að engu leyti breyst. Fyrirtæki sem eru rekin fyrir opinbert skattfé en ekki sjálfsaflafé, eiga að vera innan þessa rekstrarforms. Það þýðir að hv. þingmenn í tilviki ríkisfyrirtækja eða sveitarstjórnarfulltrúar í tilviki fyrirtækja í eigu sveitarfélaga, hvort heldur er í minni hluta eða meiri hluta, eiga alla jafna kost á því að krefjast upplýsinga. Krafan um upplýsingar tryggir gagnsæi. Krafan um upplýsingar og skyldan til að veita upplýsingar af hálfu þeirra sem með valdið fara í viðkomandi stofnunum byggir aðhaldið og tryggir að vel sé farið með fé almennings.

Ef rekstur af þessu tagi sem er ekki háður sjálfsaflafé að uppistöðu heldur skattpeningum, ef þetta er hlutafélagsform eins og gert er ráð fyrir hér í frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra, þá er það alger úrslitaforsenda til þess að tryggja góða meðferð þess fjár sem þar er fest að kjörnir fulltrúar þeirra sem eiga fyrirtækin, sem hafa lagt peninga gegnum skattgreiðslur til að byggja þau upp eigi alltaf kost á því að veita stjórnendum fyrirtækisins virkt aðhald. Það er aldrei hægt að tryggja það nema með því að þeir hafi réttinn til upplýsinga og það er þetta, frú forseti, sem gerði það að verkum að þegar ég og hugsanlega núverandi forseti sátum saman í ríkisstjórn með fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, Þorsteini Pálssyni og öðrum ágætum sjálfstæðismönnum, þá höfðum við m.a. frumkvæði að því til að tryggja að sett væru ný og endurbætt lög um upplýsingaskyldu stjórnvalda, reyndar á öllum málum á mörgum sviðum, t.d. á sviði umhverfismála, vegna þess að það er alls staðar sama meginreglan sem gildir. Í nútímaþjóðfélagi er það krafan um upplýsingar af hálfu þeirra sem eru almenningur eða fulltrúi almennings og skyldan til að veita upplýsingar af hálfu þeirra sem fara með féð og fara með valdið fyrir almenning, eða fulltrúa almennings, sem býr til eftirlit og aðhald.

Á síðustu dögum höfum við séð það alveg ljóslega fyrir okkur að hér í þinginu er komin ný kynslóð þingmanna sem virðist ekki skilja þetta. Það er eins og þessi gamla meginregla jafnaðarmanna og sjálfstæðismanna frá okkar sameiginlegu tíð okkar í ríkisstjórn sé ekki lengur í gildi. Hæstv. menntamálaráðherra vísar í hlutafélagalög og segir að þetta sé svo sveigjanlegt rekstrarform og það sé þess vegna sem það sé svona gott að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi.

Það þurfti þennan sama formann Sjálfstæðisflokksins sem ég minntist á rétt áðan til að skrifa þrjá leiðara í dagblaðið sem hann ritstýrir núna, Fréttablaðið, til að skýra út þessa meginreglu fyrir hæstv. menntamálaráðherra. Þorsteinn Pálsson setti þetta fram með ákaflega glöggum og skýrum hætti. Hann sagði að eins og menntamálaráðherrann beitti hlutafélagaforminu gagnvart Ríkisútvarpinu þá væri í besta falli hægt að kalla það öfugsnúna beitingu og hann undirstrikaði það fyrir hæstv. menntamálaráðherra að það þyrfti alltaf að gera greinarmun á því hvort fyrirtæki ræki sig sjálft fyrir fé sem það aflar eins og t.d. ÁTVR eða hvort það væri rekið fyrir fé skattborgara. Og hann benti á að í tímans rás hefðu menn komið upp t.d. þessu rekstrarformi, sameignarfélagi í atvinnurekstri og sett um það sérstök lög, til að reka slíka starfsemi. Sú starfsemi og það rekstrarform hefur gefist ákaflega vel. Þetta notum við t.d. til að reka ýmsar menntastofnanir og hjúkrunarstofnanir og einmitt vegna þess að þetta fyrirtækjaform er sett undir upplýsingalög og stjórnsýslulög þá eru bæði réttindi eigendanna almenningstryggð í krafti upplýsingalaga en líka réttindi starfsmannanna í krafti stjórnsýslulaga. Það er ekki hægt að taka geðþóttaákvarðanir, eins og núverandi útvarpsstjóri gerði þegar hann var sjónvarpsstjóri á Stöð 2, og reka fréttastjórann af því að duttlungar hans sögðu honum það þann daginn án þess að skýra það, vegna þess að fólkið sem starfar fyrir fólkið, starfsmennirnir sem starfa í fyrirtækjum sem við eigum, hafa rétt gagnvart okkur. Sá réttur felst í því að við eigendurnir eða fulltrúar okkar geta ekki sagt þeim upp störfum eða rekið þá án þess að skýra þá ákvörðun, færa fyrir henni rökstuddar ástæður og veita viðkomandi réttinn til að andmæla. Þetta skiptir höfuðmáli fyrir mig sem jafnaðarmann. Þetta skiptir að sjálfsögðu höfuðmáli fyrir þá sem í reynd vinna hjá sjálfum sér, þ.e. fólkið sem vinnur fyrir okkur, fólkið sem vinnur fyrir almenning og á þessu verður að gera skýran greinarmun. Þessi réttur hefur líka verið goldinn verði.

Þeir sem starfa hjá opinberum fyrirtækjum hafa tryggara umhverfi að þessu leyti. Við höfum líka, kjörnir fulltrúar fólksins, búið við annars konar tryggingu í umhverfi okkar sem er að ýmsu leyti meiri en hægt er að finna á einkamarkaði, þ.e. starfsmenn okkar, fólksins hafa ýmiss konar kjör sem eru umfram kjör á markaði. En þeir hafa goldið þetta með því að laun þeirra eru verri þannig að í gegnum tíðina hafa margir tekið þann kost að starfa frekar hjá ríkinu heldur en á frjálsum markaði vegna þess að það er betri vörn gegn ýmsum áföllum og aðsteðjandi vá sem jafnan er hægt að segja að geti komið upp á frjálsum atvinnumarkaði en gerist ekki þarna. En menn greiða þetta því verði að þeir sættast á laun sem sagan sýnir að eru töluvert lægri, en þeir hafa ákveðnar tryggingar sem eru meiri fyrir lífeyri sínum og öðru þegar sígur á seinni hluta ævinnar og það er eftirsóknarvert og menn vega þetta og meta. Það er hins vegar ekki hægt að taka það versta úr báðum heimum, snúa saman úr því einhvern vöndul og búa til hf. um opinbert fyrirtæki sem sætir ekki þeim skuldbindingum sem felast í lögum um upplýsingakvaðir á hendur stjórnvalda eða stjórnsýslulögum. Það er hæstv. menntamálaráðherra að gera hér. Ég held að hún hafi einfaldlega ekki skilið þetta. Ég held að hún skilji ekki þessa einföldu skilgreiningu sem við höfum alltaf gert, jafnaðarmenn og sjálfstæðismenn, á því hvernig á að gæta fjár almennings. Það er gert með þessum hætti, frú forseti.

Mér þótti athyglisvert og býsna sérkennilegt viðhorf þegar hæstv. menntamálaráðherra svaraði fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins. Hann tók hana eins og krakka á kné sér og agaði hana, sýndi henni fram á með snjallri röksemdafærslu en einfaldri sem fólst einungis í því að rifja upp stefnumið Sjálfstæðisflokksins úr fortíðinni og hæstv. menntamálaráðherra gerði sjálfa sig svo smáa að hún sté fram á við fjölmiðla og sagði að orð þessa vandaða stjórnmálamanns, Þorsteins Pálssonar, bæri að lesa og túlka með hliðsjón af því að hann væri nú starfsmaður hjá 365 miðlunum. Í þeim orðum ráðherrans fólst að sjálfsögðu það að ritstjóri Fréttablaðsins væri reiðubúinn til að varpa fyrir róða eigin sannfæringu, grundvallarskoðunum til að ganga hagsmuna eigenda þess sem Sjálfstæðisflokkurinn kallar á degi hverjum Baugsmiðlana. Hugsanlega er hægt að varpa ásökunum af þessu tagi á einhverja fjölmiðlamenn. Við í stjórnarandstöðunni höfum mörgum sinnum fengið á okkur ásakanir af þessu tagi. En þegar ungur stjórnmálamaður sem hefur náð þeim áfanga að vera treyst fyrir einum mikilvægasta málaflokki þjóðarinnar leyfir sér að svara gagnrýni með svo ómálefnalegum hætti, leyfir sér að segja um fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins sem allir þekkja að því að vera vandaður maður, að hann sé í reynd litaður af skoðunum eigenda Baugsmiðlanna svokölluðu þá held ég að menn séu komnir niður á ákveðið plan sem við höfum ekki séð árum saman í opinberri umræðu. En það verður hver að fljúga sem hann er fiðraður.

Mér þótti það markvert, frú forseti, þegar ég sá síðan í miðopnu Morgunblaðsins að útvarpsstjóri, opinber embættismaður, hlutlaus væntanlega, skrifaði grein og tók í sama streng. Ég vil segja það alveg skýrt að ég tel að Páll Magnússon útvarpsstjóri hafi lítillækkað sig með þeim málflutningi. Ég tel að með þeirri grein hafi hann stigið inn á völl stjórnmálanna. Hann kaus af fúsum og frjálsum vilja að stíga þessa glímu með hæstv. menntamálaráðherra og grein hans var svipuð atlaga að fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins. En hún var um leið partur af þeim átökum sem eru hér í þessum sölum. Það má auðvitað velta því fyrir sér, svo ég leyfi mér þann munað að hugsa upphátt, eins og ég geri stundum, hvort þetta sé besta leiðin til að tryggja að útvarpsstjóri sé frjáls og óháður embættismaður.

Til að taka af öll tvímæli vil ég segja það alveg skýrt að ég er ekki að væna núverandi útvarpsstjóra um að ganga pólitískra erinda eins flokks. En ljóst er þó að í þessu máli gerði hann meira en að lyfta undir hornið með ráðherra sem var í bölvuðum vanda stödd. Mér þótti athyglisvert að sjá að orðtak beggja var hið sama í þessum yfirlýsingum þeirra. Báðum þeirra var það til minnkunar. En ég vona að útvarpsstjóri ætli sér ekki með frekari hætti að taka þátt í pólitískum átökum af þessu tagi. Það er ekki gott fyrir útvarpið. Það er ekki gott fyrir mál af þessu tagi þegar útvarpsstjórinn sjálfur er orðinn beinn og persónulegur þátttakandi en ég tel að hann hafi orðið það þegar hann steig inn á völlinn með atlögu sinni að Þorsteini Pálssyni með þessum hætti.

Frú forseti. Ég er ekki einn, eða við þingmenn stjórnarandstöðunnar, um að segja að það sem sýnir og speglar verstu vinnubrögð sem við höfum lengi séð, af því að stofnunin sem hér er undir er svo mikilvæg, er hvernig menn nálgast fjármál Ríkisútvarpsins og ég hef lítillega gert að umræðuefni fyrr í ræðu minni. Ég treysti Morgunblaðinu þegar það talar um Ríkisútvarpið. Morgunblaðið gerði úttekt á fjárreiðum Ríkisútvarpsins fyrir skömmu, komst að því að á árunum 1996–2004 höfðu tekjur Ríkisútvarpsins af útvarpsgjaldinu skroppið saman miðað við launavísitölu sem svarar 19%. Auglýsingatekjur höfðu á þessu tímabili eitthvað minnkað líka en á þessum árum hefur stofnunin safnað skuldum. Þegar við komum að þeim tímapunkti að breyta hugsanlega rekstrarforminu og komast inn í nýtt umhverfi, búa til svokallað sjálfstætt hlutafélag, og Pétur H. Blöndal, vitrasti maður þingsins um fyrirtækjarekstur, segist ekki gefa 10 aura fyrir sjálfstæði þess hlutafélags með góðum rökum þá er það alla vega lágmark að menn viti hver fjárhagsstaðan er. Ég hef áður rakið að svo er ekki. Það er enginn vilji til að staldra við með málið og láta grafast fyrir um hver eiginfjárstaðan er.

Ég hef lýst því hér, og því hefur ekki verið mótmælt, að ekkert hlutafélag á almennum markaði væri hæft til skráningar eða fengist skráð ef ekki lægi fyrir hver eiginfjárstaða þess væri. Enginn endurskoðandi með virðingu fyrir sjálfum sér mundi nokkru sinni taka það í mál, ekki einu sinni leggja það til, og enginn lögfræðingur mundi fást í slíkan verknað. En hér erum við með í höndunum öflugasta bólvirki íslenskrar menningar, Ríkisútvarpið, og það á að breyta rekstri þess, gjörbreyta, og menn ætla að búa svona illa um hnúta. Þeir ætla að skilja eftir marga lausa enda, eins og t.d. fjárhagsstöðuna. Hvað segir fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins um þetta? Hann hefur líka haft skoðun á því. Hann skrifar leiðara Fréttablaðsins 5. apríl. Hann fjallar þar, frú forseti, um aðskilnað Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins og segir, með leyfi forseta:

„Staðreynd er að ríkisstjórnin ætlar ekki að svara til um eiginfjárstöðu Ríkisútvarpsins og fjárhagsstöðu Sinfóníuhljómsveitarinnar fyrr en eftir að áformaðar skipulagsbreytingar hafa verið festar í lög. Til þess hefur hún allan rétt. Það kann að vera stjórnunaraðferð.

Stjórnunaraðferð af þessu tagi getur hins vegar einvörðungu þýtt tvennt: Annaðhvort er undirbúningurinn í skötulíki eða ekki er allt með felldu um raunveruleg áform að reka hér menningarútvarp og sjónvarp með nokkurri reisn og af þeim metnaði sem einn getur yfir höfuð verið réttlæting fyrir rekstrinum.“

Virðulegi forseti. Þetta er fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, ritstjóri dagblaðs hér, einn af þeim mönnum sem áratugum saman hafa af hálfu Sjálfstæðisflokksins setið hvað lengst í ríkisstjórn. Og hann segir það hreint út að það frumvarp sem við erum að ræða sé þannig að annaðhvort sé undirbúningur þess í skötulíki eða að ekki sé allt með felldu um tilganginn. Þó að hér sé um mætan mann að ræða held ég að honum skjátlist. Hann segir að það sé annaðhvort eða. Ég er þeirrar skoðunar að hvort tveggja sé rétt. Ég held að undirbúningur þessa frumvarps sé í algeru skötulíki.

Það er í fyrsta lagi fjárhagsstaðan. Það veit enginn hver hún er. Það veit enginn hverjar eignir Ríkisútvarpsins eru og hugsanlega ekki heldur skuldirnar. Þá er ég sérstaklega að vísa til viðskilnaðar Sinfóníuhljómsveitarinnar og RÚV en ekki liggur alveg ljóst fyrir hvar hið fjárhagslega borð er í þeim efnum.

Ég vísa líka til samþykktanna sem sérstaklega eru nefndar í þremur greinum þessa frumvarps og varða jafnmikilvæg málefni og skilgreiningu á starfssviði útvarpsstjóra og skilgreiningu á því hvað felst í ríkisreknu almannaútvarpi. Ég vísa í þriðja lagi til þess að þjónustusamningur, sem m.a. er ætlað það hlutverk að skilgreina menningarhlutverk Ríkisútvarpsins, liggur ekki heldur fyrir. Fjárhagsstaðan liggur ekki fyrir. Samþykktir félagsins liggja ekki fyrir. Þjónustusamningurinn, sem má skilgreina sem lykilatriði í hlutverki félagsins, liggur ekki heldur fyrir. Þetta hnígur allt að einni niðurstöðu. Undirbúningurinn er í skötulíki og það er rétt hjá fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins. En ég held að það sé líka rétt, sem hann telur sem kost nr. 2, að hugsanlega sé ekki allt með felldu varðandi markmiðið.

Þá kem ég að því sem ég hef lítillega reifað hér áður: Ég er ekki viss um að það sé tilviljun að það eigi að skilja við Ríkisútvarpið í fjárhagslegri rúst þegar því er fleygt inn á almenna markaðinn með þessum hætti. Það fær í tannfé 5 millj. kr. Íslenskar matvælarannsóknir hf., sem er verið að stofna með öðru frumvarpi, fá hundrað sinnum meira. Þær fá hálfan milljarð í tannfé. Þetta er alveg ótrúlegur munur. Af hverju er þessi klemma sett á Ríkisútvarpið? Er hugsanlegt, frú forseti, að það tengist 3. gr. frumvarpsins þar sem sagt er að það sé ekki skylda hins nýja hlutafélags að reka nema eina hljóðvarpsrás og eina sjónvarpsrás? Er hugsanlegt að þetta tengist líka þeirri staðreynd að hæstv. forsætisráðherra hefur skýrt það út tvisvar sinnum í þinginu í vetur hvaða röksemdir ríkisstjórnin notar þegar hún er að velja á milli hlutafélagsformsins og forms sjálfseignarfélags í atvinnurekstri?

Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt: Sjálfseignarformið veitir svipaðan sveigjanleika, veitir svipaða dínamík og lipurð í rekstri. En hann hefur líka sagt: Það veitir ekki sömu möguleika og hlutafélagsformið til að ná inn nýju fé í formi nýrra hlutafélaga. Við höfum sem sagt taflmennina setta upp á borðinu svona: Ríkisútvarp sem er í fjársvelti með neikvæða eiginfjárstöðu og á ekki að fá neitt í tannfé. Við höfum ákvæði sem segir að það sé ekki skylda að reka nema eina útvarpsrás og eina sjónvarpsrás. Við höfum síðan yfirlýsta stefnu Sjálfstæðisflokksins sem segir: Það á að fara í bútasölu á Ríkisútvarpinu með því að byrja á því að selja Rás 2. Verið er að opna á stefnuna sem Samband ungra sjálfstæðismanna og Heimdallur börðust fyrir í sjö ár frá 1988–1995 en þá varð það að opinberri stefnu Sjálfstæðisflokksins. Síðan geta menn leikið fram taflmönnunum.

Við getum leikið fram taflmanninum sem stendur fyrir bága fjárhagsstöðu. Hvernig leikum við honum til lífs? Með því að fara að því sem hæstv. forsætisráðherra sagði að væri aðalkostur hlutafélagaformsins, að fá inn nýja aðila með nýtt fjármagn. Það er mögulegt samkvæmt 3. gr. frumvarpsins. Það er beinlínis sagt í 4. gr. að Ríkisútvarpið megi standa fyrir því að setja hluta af starfsemi sinni inn í ný félög í samkeppnisrekstri ef hægt er að skilgreina viðkomandi rekstrarþátt sem samkeppnisrekstur. Það er vel hægt að hugsa sér þær aðstæður að fjársvelt Ríkisútvarp, með útvarpsstjóra sem kannski vill leysa málið svona og hefur stjórnina að baki sér, ákveði að leggja Rás 2 inn í nýtt hlutafélag á móti t.d. einhverjum af útvarpsstöðvum einhverra þeirra fjölmiðlarisa sem aðrir eru á markaði.

Ef ég, sem kjörinn fulltrúi Íslendinga, er á móti þessu get ég með einhverjum hætti haft áhrif á það hér á Alþingi Íslendinga? Nei. Það segir alveg skýrt í 4. gr. og í greinargerð með henni að þetta sé heimilt. Í 1. umr. málsins var hæstv. menntamálaráðherra spurð að því hvort það væri mögulegt að leggja Rás 2 með þessum hætti inn í hlutafélag sem væri þá í eigu RÚV og einhvers einkafélags á markaði. Hæstv. ráðherra sagði: Það er ekki mitt mál. Ég get ekki gefið skipanir með eða móti því og Alþingi ekki heldur. Og hún nefndi tvo aðila til sögunnar: útvarpsstjóra og faglega stjórn Ríkisútvarpsins samkvæmt þessu frumvarpi. Nú gef ég lítið fyrir faglega stjórn sem er búin til af pótintátum þeirra sem fara með meiri hluta í þessum sal. En fyrir liggur þó að menntamálaráðherranum er bara sagt að þetta sé hægt og þingið getur ekki komið í veg fyrir það. Hún sagði hins vegar, svo öllu sé til haga haldið, að ekki væri hægt að selja slíkt hlutafélag. En ef við setjum okkur í þær kringumstæður að RÚV sé enn frekar féskylft en nú og ekki fáist meiri peningur gegnum hinn óvinsæla nefskatt og það sé búið að skera inn að beini og það sé engin fita eftir til að flá af, hvað gerist þá? Er þá ekki ein leiðin sú að koma á hnjánum til meiri hluta þingsins og æskja leyfis til að fá að selja hlutafélagið, selja þessa eign, RÚV sem búið er að leggja Rás 2 inn í? Að sjálfsögðu. Og þá er hugsanlega hægt að réttlæta það með sama hætti og núna að útvarpsstjóri vilji það alveg eins og það er helsta röksemd þeirra sem mæla með þessu frumvarpi að útvarpsstjóri vilji það af því að hann telji að annars muni Ríkisútvarpið hrörna og hugsanlega deyja. Greinar þess ágæta manns í Morgunblaðinu voru lesnar upp aftur og aftur.

En ef það væri nú þannig við þessar aðstæður að illa áraði fyrir ríkissjóð, ekki kæmi meiri peningur frá þinginu og búið væri að fækka starfsmönnum meira en hægt væri að búa við og engin leið fær önnur en að fara í vendingar af þessu tagi. Við gætum hugsað okkur til viðbótar að þá væri hin nýja kynslóð Sjálfstæðisflokksins komin til valda, mennirnir sem hafa barist fyrir því að selja RÚV og sérstaklega Rás 2. Hver ætlar þá að standa gegn þessu? Enginn, held ég, nema þá auðvitað heilbrigð stjórnarandstaða. Ekki þessir ágætu þingmenn sem ekki hafa kjark eða hryggjarstykki til að standa á vilja sínum gegn vilja ráðherranna. Þetta er partur af ráðherraræðinu sem við höfum séð þróast á síðustu 14–15 árum, ráðherrarnir fótumtroða þingræðið, þeir troða vilja sínum í gegn í andstöðu við vilja þingmanna eða þá við afskiptaleysi þeirra eins og í þessu máli. Það eru mjög fáir þingmenn sem beinlínis segja það í liði stjórnarinnar að þeir styðji þetta frumvarp en þeir hengslast til að gera það alveg eins og það fannst ekki kjaftur í þessum sal utan ríkisstjórnar sem af einhverri ástríðu eða innlifun studdi fjölmiðlalögin. Þau urðu að veruleika. Það þurfti þjóðaruppreisn og öflugan forseta til að koma í veg fyrir það hervirki.

Þetta held ég því miður, frú forseti, að sé einn af þeim möguleikum sem gætu uppteiknast í framtíðinni. Það er þess vegna sem ég lagði upp í þennan stutta kafla ræðu minnar með því að segja að ég held að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hafi rétt fyrir sér um hvort tveggja: Frumvarpið er að undirbúningi í algeru skötulíki. Á því eru lausir endar og það er ekki hugsað til þrautar og, eins og Þorsteinn Pálsson sagði, ekki er allt sem sýnist og hef ég þá rökstutt það.

Frú forseti. Ég rifjaði það upp hvernig formaður Sjálfstæðisflokksins, hinn gamli, tók hæstv. ráðherra á kné sér og útskýrði fyrir henni nokkur undirstöðuatriði í rekstri ríkisfyrirtækja. Hæstv. ráðherra svaraði, eins og ég hef hér rakið, með atbeina útvarpsstjóra — sem þó skyldi aldrei hafa gerst því ég tel að þar hafi hann farið út fyrir þann völl sem honum er haslaður í því embætti, en auðvitað hefur hann fullt málfrelsi og má segja það sem hann vill, en þá er hann orðinn partur af stjórnmálunum.

Þorsteinn Pálsson gerði tilraun til að skýra þetta allt saman út fyrir formanni menntamálanefndar og ráðherranum sem leggur frumvarpið fram. Hann skrifaði um þetta gagnmerka ritstjórnargrein þar sem hann bendir á að ríkisstjórnin hafi kosið að gera breytingar á umhverfi Ríkisútvarpsins með því að setja það í hlutafélagarekstur. Á þessu stigi málsins hefur formaður Sjálfstæðisflokksins fyrrverandi ekki grunað neinn um græsku í þessu efni en hann segir hins vegar, með leyfi virðulegs forseta:

„Hugmyndafræðin að baki þessu er nokkuð öfugsnúin. Hlutafélög eru gott rekstrarform. Það hentar líka fyrirtækjum í ríkiseigu sem nota ekki skattpeninga í rekstur. Þannig var skynsamlegt að breyta Símanum í hlutafélag á sínum tíma. Það fyrirtæki greiddi arð í ríkissjóð.“

Og þá kemur að því sem er mergur málsins og sem hinni nýju kynslóð Sjálfstæðisflokksins virðist fyrirmunað að skilja og þeim sem síst skyldi: varaformanni flokksins, leiðtogaefni framtíðarinnar. Áfram segir, með leyfi forseta:

„Öðru máli gegnir um stofnanir sem alfarið eða að uppistöðu til eru reknar fyrir skattpeninga. Eðli máls samkvæmt gilda aðrar leikreglur um meðferð skattpeninga borgaranna en sjálfsaflafé.“

Frú forseti. Það er alveg makalaust að þetta gæti verið skrifað upp úr stefnuskrá Samfylkingarinnar. Hér talar fyrrv. formaður Sjálfstæðisflokksins og gerir hnífskarpan greinarmun á annars vegar ríkisfyrirtæki sem er rekið af sjálfsaflafé og hins vegar ríkisfyrirtæki sem er rekið að uppistöðu fyrir peninga skattborgaranna. Þetta er nákvæmlega eins og Samfylkingin og jafnaðarmenn hafa verið að segja. Hv. þm. Kjartan Ólafsson, sem fyrr í dag gerði að umræðuefni þennan sama leiðara Þorsteins Pálssonar, hefði átt að lesa lengra. Þetta er það sem skiptir öllu máli. Hlutafélagaformið hentar fyrirtækjum sem reka sig sjálf, sem afla sinna tekna sjálf en það hentar ekki — að dómi oddvitans í því kjördæmi sem hv. þm. Kjartan Ólafsson hefur þann heiður að vera fulltrúi fyrir í þingsölum — þeim ríkisstofnunum sem eru reknar fyrir skattpeninga almennings. Ég vil ekki raska ró hv. þingmanns með því að rifja upp það sem ég hef sagt hér fyrr í dag í þessum efnum en það hefði verið hollur fyrirlestur fyrir hv. þm. Kjartan Ólafsson af því að ég held að hann sé á röngum slóðum í sínum hugsunum eins og hefur komið fram í athugasemdum hans í dag.

En það eru ákveðin rök fyrir þessu sem ég hef að hluta til rakið. Það gilda almennar reglur um rekstur stofnana hins opinbera. Þær reglur varða það t.d. hvernig við ákvörðum laun. Þær varða réttindi starfsmanna eins og t.d. uppsagnir og með hvaða hætti er að þeim staðið og ekki síst andmælaréttinn sem skiptir höfuðmáli, finnst mér, varðandi slík réttindi.

Síðast en ekki síst er það upplýsingaskyldan. Formaður Sjálfstæðisflokksins gerir þetta að umræðuefni og hann segir, með leyfi forseta:

„Þetta regluverk gildir ekki vegna þess að það er vilji löggjafans að opinber fyrirtæki og stofnanir séu svifasein og þyngri í vöfum en hlutafélögin.“

Og nú ættu þessir herramenn sem sitja þarna í afherbergi, og eru sennilega farnir að sperra eyrun því hér er verið að vitna í fyrrverandi formann þeirra, að hlusta, með leyfi hæstv. forseta:

„Ástæða þessara almennu reglna er sú að þær eru eina leiðin til að tryggja gegnsæi og jafnræði og koma í veg fyrir misnotkun skattpeninga.“

Frú forseti. Þetta er formaður Sjálfstæðisflokksins sem hér leiddi sinn flokk um töluverðan tíma. Fyrrv. framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sem hétu þá öðru nafni, einn af þeim mönnum sem hefur mótað hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma þegar hann var að flytja sig inn í núverandi afstöðu til ríkisrekstrar. Þorsteinn Pálsson var partur af byltingunni í Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma sem var kölluð uppreisn frjálshyggjunnar. Það er hann sem segir hér klárt og kvitt að það sé tvennt sem sé alger forsenda þess að hægt sé að tryggja gætilega og heppilega meðferð á peningum almennings í landinu. Þetta tvennt eru upplýsingalög og stjórnsýslulög.

Formaður Sjálfstæðisflokksins er ekkert að skafa utan af því. Það er ekkert me-he hér. Hann segir það klárt og kvitt að það sé eina leiðin — það er ekki ein leiðin, það er eina leiðin — til að tryggja gagnsæi og jafnræði og koma í veg fyrir misnotkun skattpeninganna. Af þessu mætti draga þá ályktun, án þess að ritstjóri Fréttablaðsins og formaður Sjálfstæðisflokksins segi það, að sú leið sem hér er verið að fara af núverandi varaformanni Sjálfstæðisflokksins leiði til misnotkunar skattpeninga. Formaður Sjálfstæðisflokksins segir að þetta sé eina leiðin til að tryggja að skattpeningar séu ekki misnotaðir, þ.e. upplýsingalög og stjórnsýslulög, og ég veit að þeir sem hafa kynnt sér lögfræði verða fljótir að gagnálykta að frumvarpið, sem fer aðra leið, leiði þá líklega til misnotkunar á skattpeningum. Er það hin nýja uppreisn frjálshyggjumannanna í Sjálfstæðisflokknum? Eru þeir komnir í algeran hring? Þetta er eins og segir í kvæðinu: Að lokum, á undanhaldinu, fer maður svo hratt yfir að maður kemur aftan að sjálfum sér. Það er það sem hefur gerst í tilviki hv. formanns menntamálanefndar. Hann hefur farið svo hratt yfir að hann er kominn aftan að sjálfum sér. Girnd hans og fýsn til að uppfylla einhverjar trúarlegar skyldur gagnvart markaðsvæðingunni. Fýsn hans og löngun til að fá frjálshyggjuverðlaun Heimdallar, háeffa allt sem hreyfist og síðan að einkavæða leiðir til þess að hann er komin aftan að því sem hefur verið meginreglan af hálfu Sjálfstæðisflokksins varðandi meðferð opinbers fjár og hún hefur leitt hann í það öngstræti að hann er kominn á slóðir sem leiða í einstigi, einstigi misnotkunar á skattpeningum almennings. Það er ekki ég sem er að halda þessu fram, það er fyrrv. formaður Sjálfstæðisflokksins. Ég hef verið að lesa orðrétt eftir honum.

Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir. Ég veit ekki hver á að hjálpa þeim mönnum sem án raka og án skýringa ætla að velja þessa leið sem fremstu hugsuðir hinnar fyrstu kynslóðar frjálshyggjumanna í Sjálfstæðisflokknum. Þeir sem leiddu flokkinn á þá braut sem hann er núna — ég gæti andmælt þeirri leið að ýmsu leyti en hún hefur haft margt gott í för með sér — höfðu þessa grunnreglu. En hin nýja kynslóð frjálshyggjumanna er búin að gleyma öllu eða hún hefur kannski aldrei lært neitt. Hún er nefnilega haldin blindri trú en þessir garpar sem ég hef hér verið að vitna til hugsuðu. Það er munurinn á þeim og ýmsum þeirra sem núna reka forustu Sjálfstæðisflokksins að þeir virðast ekki skilja þetta einfalda prinsipp sem hér er um að ræða.

Það má kannski, frú forseti, rifja það upp að fyrir utan það að vera fyrrv. formaður Sjálfstæðisflokksins var Þorsteinn Pálsson eitt sinn fjármálaráðherra líka. Er það rangt munað hjá mér? (Gripið fram í.) Það er rétt hjá mér. Það var einmitt á því skeiði hans sem þessi grundvallarregla var lögð. (Gripið fram í.) En hv. formaður Sjálfstæðisflokksins núverandi er svo önnum kafinn við að klúðra öryggis- og varnarmálum þjóðarinnar að hann má ekkert vera að því að leiða hugann að þessu. Er ekki svo, hv. þingmaður? (Gripið fram í.) Það gleður mig, frú forseti, að þetta litla innskot formanns menntamálanefndar bendir til þess að hann sé þrátt fyrir allt ekki búinn að missa húmorinn. En miðað við þá póla sem hér eru andstæðir í salnum þá legg ég ekki í að blanda mér í þessa umræðu, enda þyrfti ég þá sennilega að höggva til beggja handa.

Frú forseti. Í leiðara sem Þorsteinn Pálsson skrifaði líka gefur hann þessari aðferð einkunn sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að nota hér undir forustu formanns menntamálanefndar, Sigurðar Kára Kristjánssonar, sem hefur málið á sinni könnu og sinni ábyrgð, eins og ég veit að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson frá Skarði gerir sér mætavel grein fyrir. Það er þingmönnum örugglega til fróðleiks og upplýsingar að hlusta á þá einkunn sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins gefur þessari aðferð. Hann segir, með leyfi forseta:

„Nú ætlar ríkisstjórnin að víkja til hliðar öllum almennum reglum sem gilda um meðferð skattpeninga að því er varðar rekstur Ríkisútvarpsins. Þar á meðferð skattpeninga að lúta reglum einkaeignarréttarins án þess að skilyrði hans um sjálfsaflafé sé fyrir hendi.“

Frú forseti. Sú grundvallarregla sem hér er lögð af fyrrverandi fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins var ítarlega rökstudd í riti sem ungir forustumenn Sjálfstæðisflokksins gáfu út fyrir tveimur til þremur áratugum. Allir urðu síðar að forustumönnum í Sjálfstæðisflokknum og einn þeirra er hér enn á dögum, hæstv. dómsmálaráðherra, sem auðvitað hefur öllu gleymt í þessum efnum. En þar kom þetta skýrt fram. Einkunnin er sem sagt þessi: Ríkisstjórnin ætlar að víkja til hliðar öllum reglum sem gilda um meðferð skattpeninga að því er varðar rekstur Ríkisútvarpsins. Af hverju gerir hún það? Af hverju grípa menn til þess? Af því að þetta eru trúarbrögð. Af því að það er persónupólitískur metnaður hæstv. menntamálaráðherra að ná frumvarpinu í gegn. Af því að einhverju verður blessaður ráðherrann að ná í gegn, en það er ekkert sem rekur á eftir því. Það er ekkert sem segir, fyrir utan fjárhagsörðugleika Ríkisútvarpsins, að vinda verði bráðan bug að því að breyta umhverfi Ríkisútvarpsins.

Meðan ég man, frú forseti, hefur Ríkisútvarpið eitthvað breyst með nýjum útvarpsstjóra? Já, það hefur breyst. Ríkisútvarpið hefur t.d. sýnt nýja leikni í að hreyfa sig hratt á markaði. Það hefur sýnt áður óþekkta færni við að verða sér úti um lykilstarfsmenn sem skiptir máli í þessu nýja samkeppnisumhverfi. Undir forustu Páls Magnússonar hefur Ríkisútvarpið satt að segja sýnt allan þann sveigjanleika og lipurð sem einkennir hlutafélög, sem sýnir einfaldlega að það er fremur spurning um menn frekar en form að hægt sé að fóta sig í þessu nýja umhverfi. Auðvitað veit ég að ýmsu þyrfti að breyta til þess einmitt að gefa nýjum og vöskum útvarpsstjóra tækifæri til að taka ákvarðanir með skjótum hætti og til að geta breytt stefnu hins þungt siglandi hafskips.

Eins og staðan er í dag eru skafankar á lögunum. Ég er ekkert að skafa utan af því. Lögin segja að þrír ráðherraráðnir framkvæmdastjórar skuli vera yfir lykildeildum í stofnuninni. Það þýðir auðvitað að maður sem hefur sýn og maður sem vill vinna hratt á hugsanlega í erfiðleikum með að koma fram stefnu sinni við ákveðnar aðstæður, eins og hugsanlega gæti gerst hjá núverandi útvarpsstjóra. En þá breytum við bara lögunum að þessu leyti. Það er ekkert sem segir að ekki sé hægt að breyta lögunum eða setja sérstök lög um Ríkisútvarpið sem byggðust á sjálfseignarforminu, sem tekur nákvæmlega á þessum þáttum og gerir þar með Ríkisútvarpið að miklu liprari skútu á hinni erfiðu siglingu sem bíður þess efalítið á næstu árum.

Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa einmitt talað aftur og aftur um nauðsynina á að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi til að gera það sveigjanlegra og liprara. Nú vill svo til að margir af þeim mætu mönnum sem hér hafa talað hvað ákafast hafa sem betur fer orðið sér úti um menntun sem gerir þeim kleift að tala af nokkru viti um þessi mál. Einn af þeim, formaður menntamálanefndar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, stendur þó betur að vígi en allir hinna. Hann kemur úr Verslunarskólanum. Það er gild menntastofnun sem hefur margan ungan manninn og unga konuna sent á vit lífsins með ákaflega góðum undirbúningi. Hvernig rekstur er á Verslunarskólanum, frú forseti? Það er sjálfseignarfélag í atvinnurekstri. Ef það dugði til að mennta hinn ágæta þingmann, Sigurð Kára Kristjánsson, og koma honum til manns með þeim ágætum sem við sjáum hér nánast dag hvern, hvers vegna skyldi það þá ekki duga líka til að reka Ríkisútvarpið? Eru Íslendingar og fjölmiðlamál þeirra eitthvað öðruvísi en t.d. Breta? Örugglega, ég hugsa að fjölmiðlalíf hinnar bresku þjóðar mundi að allra dómi dæmast miklu flóknara og yfirgripsmeira en okkar.

Frú forseti. Af því að nú gengur í salinn hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson frá Skarði, sem einmitt varð sér úti um menntun á menningarsvæði Engilsaxa, þá er rétt að rifja það upp að BBC, sem er sú útvarpsstofnun í heiminum sem nýtur mestrar virðingar, er rekin á sérstöku formi sem sagt er um í greinargerðinni sem fylgir þessu frumvarpi að komist næst því að vera ígildi sjálfseignarfélags í atvinnurekstri að íslenskum lögum. Þá má spyrja: Ef það dugar BBC að vera rekið sem sjálfseignarfélag í atvinnurekstri, af hverju skyldi það þá ekki duga Ríkisútvarpinu? Getur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson greint mér frá því hvers vegna reka þarf íslenska Ríkisútvarpið sem hlutafélag og hvers vegna ekki er hægt að reka það sem sjálfseignarfélag í atvinnurekstri ef það dugar bresku þjóðinni að nota sjálfseignarformið fyrir BBC?

Það er hugsanlegt að Sigurður Kári Kristjánsson, formaður hv. menntamálanefndar, grípi til svipaðra athugasemda og svara og hæstv. menntamálaráðherra, sem sagði að það þyrfti hlutafélagsform til að Ríkisútvarpið gæti hreyft sig á nýjum mörkuðum sem væru að koma upp fyrir nýja þjónustu og nýjar afurðir, hugsanlega í tengslum við að markaðssetja einhver af þeim miklu menningarverðmætum sem stofnunin býr yfir. Þetta er svar sem rétt er að brjóta til mergjar.

Ef við stillum aftur upp Ríkisútvarpinu og BBC þá vitum við, sem dag hvern njótum sjónvarps með því að horfa á breska þætti á öllum sjónvarpsrásunum sem hér eru í boði, að BBC er í óðaönn út um allan heim að selja þætti, selja framleiðslu, selja hin bresku menningarverðmæti. Það getur gert það án þess að móðurfélagið sé á hlutafélagsformi. Af hverju skyldi Ríkisútvarpið ekki geta það líka? Af sjálfu leiðir að þessi röksemd menntamálaráðherra fellur um sjálfa sig.

Ég bíð því enn eftir að fá skýr svör um það af hverju við getum ekki sæst á að breyta umhverfi Ríkisútvarpsins, gera það sveigjanlegra, gera það hraðskreiðara, veita útvarpsstjóranum aukið sjálfstæði og möguleika til að taka skjótar ákvarðanir, taka burt ráðherraskipaða yfirmenn einstakra deilda og gera það innan ramma sjálfseignarfélags í atvinnurekstri. Ég veit vel að það er ekki það sem hv. þingmanni og formanni menntamálanefndar þykir æskilegast. Hugsanlega vildu sumir í þessum sal ekki heldur fallast á sjálfseignarfélag í atvinnurekstri, en við gætum náð sátt um það. Það er það sem skiptir máli. Þá gætum við orðið sammála um að upplýsingalög giltu og þar með væri tryggð skylda yfirmanna til að veita ákveðnar upplýsingar aðrar en þær sem lúta að samkeppnisrekstri. Sömuleiðis væri virtur réttur okkar, fulltrúa almennings, eða almennings sjálfs, til að fá þær upplýsingar sem hann vill og þar með væri veitt aðhaldið sem þarf að rekstri stofnunarinnar til að tryggja að það gerist ekki sem Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, kallaði misnotkun á almannafé.

Af hverju getum við ekki sæst á þetta? Hefur ekki formaður menntamálanefndar verið hér önnum kafinn í ræðum sínum, og á sem betur fer tvær eftir, við að segja að menn vilji ná sátt í þessu máli? Hefur hæstv. menntamálaráðherra tekið sér nokkurt orð jafnoft í munn undir umræðu um frumvarpið og orðið sátt? Hefur ekki hæstv. ráðherra hrósað sér af því sem hún hafi lagt af mörkum, slegið af til að ná sátt í fjölmiðlamálinu? Af hverju getum við ekki náð sátt í þessu máli? Hvað er svona óskaplega andstætt vilja hv. formanns menntamálanefndar varðandi sjálfseignarfélag í atvinnurekstri? Af því að ég hef hlustað á allar ræður þingmannsins, rifjaði ég það upp að hann hefur sjálfur sagt í umræðu um þetta frumvarp að hægt sé að nota sjálfseignarfélag í atvinnurekstri. Það sé bara að hans dómi ekki eins heppilegt og hitt. Allt í lagi, menn þurfa að slá af, en í þessum orðum hv. þingmanns felst viðurkenning á því að sjálfseignarfélagsformið sé brúklegt. Það er hins vegar alveg rétt hjá honum, sem hann hefur líka bent á í ræðum sínum, að það er ekki eins slípað form og agað og hlutafélagsformið.

Ég hef ekki legið á þeirri skoðun minni, og tala bara hreint út um það, að ég gruna Sjálfstæðisflokkinn um græsku. Ég gruna hann um að vilja selja Ríkisútvarpið og parta af því. En ef menn á annað borð vilja sátt um málið, af hverju er ekki hægt að ná því um þetta form? Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og stjórnarliðið ná þá fram því markmiði sínu að gera fyrirtækið sveigjanlegra, gera það hraðskreiðara, en við sem erum hræddir við hlutafélagsvæðinguna fáum á móti tryggingu fyrir því að það yrði miklu erfiðara að selja RÚV, það væri ekki ómögulegt en það yrði miklu erfiðara og það væri ekki hægt að selja það í pörtum. Það væri með öðrum orðum ekki hægt að fara þá leið sem menn ætla sér að fara með réttu varðandi Matvælarannsóknir hf. að taka inn nýtt hlutafé í áföngum, m.a. til að hleypa nýjum að og líka til að tryggja rekstrarstöðu félagsins. Ég held að hv. þingmaður ætti að velta þessu fyrir sér.

(Forseti (RG): Forseti vill inna hv. þingmann eftir því hvort mikið sé eftir af ræðu hans þar sem áformað er að taka matarhlé milli klukkan hálfátta og átta. Ef þingmaðurinn á enn eftir af ræða málið fer forseti þess á leit að hann geri hlé á máli sínu nema hann sé að ljúka á næstu mínútum.)

Ég er fjarri því að ljúka því, frú forseti. Ég á töluvert eftir, ég á t.d. eftir að fara yfir frumvarpið sjálft.

(Forseti (RG): Þá vildi forseti óska eftir því að þingmaðurinn gerði hlé á máli sínu svo unnt sé að gera hlé á fundinum milli klukkan hálfátta og átta.)

Að sjálfsögðu verð ég við þeirri bón.