Ríkisútvarpið hf.

Miðvikudaginn 19. apríl 2006, kl. 21:27:48 (7722)


132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[21:27]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vona að mér fyrirgefist að halda aðeins áfram í tilefni af þessum orðaskiptum okkar um samþykktirnar.

Það er sannarlega furðulegt að á þremur stöðum í þessu frumvarpi skuli minnst á samþykktir félagsins og síðan komi drög að samþykktunum þar sem ekkert er sem uppfyllir þessa þrjá staði eða svarar því kalli sem er á þessum þremur stöðum. Hins vegar er hvergi í frumvarpinu minnst á þjónustusamning sem menntamálaráðherra ætlar sér að gera við Ríkisútvarpið og það er ekki stafur um það í frumvarpinu. Eins og ég vakti athygli á í framsöguræðu minni mundum við ekki vita af þessum þjónustusamningi nema vegna þess að um hann er spurt í bréfi frá Eftirlitsstofnun ESA frá 30. janúar, sem reyndar var ekki sýnt nefndinni fyrr en 24. mars, þ.e. um daginn. Þar var minnst á þennan þjónustusamning þannig að Eftirlitsstofnun EFTA spurði ráðuneytin tvö hvort ekki væri alveg öruggt að þessi þjónustusamningur yrði gerður opinber vegna þess að það væri skylda samkvæmt viðskiptareglum Evrópusambandsins vegna samkeppninnar á markaði. Við eigum það að þakka Eftirlitsstofnun EFTA að við vitum að menntamálaráðherra ætlar sér að gera þennan þjónustusamning sem er eitt af lykilatriðunum í hinni nýju stjórnskipan Ríkisútvarpsins.

Þetta er dæmi um það hvernig þetta frumvarp er. Það er þrisvar sinnum minnst á samþykktirnar en það er ekkert gert með þær. En á þennan mikilvæga stað í skipuriti hins nýja ríkisútvarpsfyrirtækis er ekkert minnst í frumvarpinu.