Grunnnet Símans

Mánudaginn 24. apríl 2006, kl. 15:10:22 (7830)


132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Grunnnet Símans.

[15:10]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það kom ansi fátt fram í þessu svari hæstv. ráðherra, eða við skulum segja ansi fátt nýtt fram, því það lá alveg ljóst fyrir þegar verið var að ræða söluna á Símanum og grunnneti Símans á síðasta ári að um tvöföldun yrði að ræða á ljósleiðaranetinu á höfuðborgarsvæðinu, það væri annars vegar net Símans og hins vegar net Orkuveitu Reykjavíkur. Það gæti því ekki verið hagkvæmt að byggja upp tvöfalt ljósleiðarakerfi á suðvesturhorninu og það þýddi kannski fyrst og fremst að landsbyggðin mundi líða fyrir það að öll orkan færi inn á þetta svæði hér og samkeppnina á þessu svæði hérna. Nú eru þessi fyrirtæki að ná saman og ég held að það sé ágætt. Ég vona að það takist. Það er auðvitað ekki komin niðurstaða í það mál. Ég held að það sé hagkvæmt og til hagsbóta fyrir alla að reka hér bara eitt öflugt ljósleiðarakerfi.

En rökin sem fram voru færð af ríkisstjórninni á þeim tíma standast ekki og það hefur ekkert nýtt komið fram í þessari umræðu.