Sinfóníuhljómsveit Íslands

Mánudaginn 24. apríl 2006, kl. 17:05:56 (7872)


132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[17:05]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í tilefni af orðaskiptum sem hér urðu áðan milli tveggja hv. þingmanna sem ræddust við í andsvörum verð ég að segja að ég held að það hljóti að vera vitleysa hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni þegar hann heldur því fram að ríkið eigi þetta allt að lokum. Ríkið mun ekki eiga þessa fiðlu ef hún fellur í hlut Ríkisútvarpsins og hv. þm. Pétri H. Blöndal verður að ósk sinni, sem hann lýsti því yfir fyrr í dag að Ríkisútvarpið yrði selt. Það er alveg klárt.

Frú forseti. Ég er ekki alveg sammála þeim tveimur þingmönnum sem töluðu áðan eins og formið skipti ekki máli.

Hv. þm. Mörður Árnason upplýsti að í óðagoti og flumbrugangi við að afgreiða frumvarpið um einkavæðingu Ríkisútvarpsins úr nefnd hefði gleymst að afgreiða frumvarpið sem hér liggur fyrir til umræðu. Ég er hreinn og tær formalisti í þessum efnum. Annaðhvort eru mál afgreidd eða ekki. Þau eru ekki afgreidd úr nefnd fyrr en fyrir liggur samþykki allra eða að greidd hafa verið um þau atkvæði. Það hefur komið hér fram hjá hv. þingmanni að atkvæði hafi ekki verið greidd um þetta mál.

Mig langar að spyrja hv. þingmann frekar út í tildrög þessa máls. Mér sýnist á öllu að þá kunni að vera formgalli á því að við séum að ræða málið. Það hefur ekki verið afgreitt úr nefnd sem lög kveða á um og ef einhverjir ættu ekki að brjóta lögin, hvað þá um þeirra eigin vinnustað og starfshætti, þá eru það hv. alþingismenn.

Mig langar að spyrja hv. þm. Mörð Árnason: Er það virkilega svo að málið hafi ekki verið afgreitt formlega úr nefnd?