132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[21:25]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hæstv. samgönguráðherra færa nokkuð sannfærandi rök fyrir því að það kynni að vera heppilegt rekstrarform að setja flugleiðsögustarfsemina í hlutafélag. Mér fannst sérstaklega rök hans um hvernig það svið er að verða æ opnara undir samkeppni á alþjóðlega vísu nokkuð sannfærandi.

Ég staldra við varðandi þann þátt sem lýtur beinlínis að rekstri flugvalla en ég vil samt ekki leggjast gegn því á þessu stigi málsins. Þetta er mál sem ég vil gjarnan skoða þó gæti vel verið að hjá stærri þjóð væri heppilegra að hafa slíkan rekstur þá í enn einni stofnuninni. En við erum lítil þjóð og verðum að laga okkur að aðstæðum þannig að ég segi það og hryggi kannski hv. þingmann með því að ég er þessari hugmynd ekki algerlega frábitinn.

Ég mundi hins vegar vera það ef um væri að ræða heimild í þessu frumvarpi til að búa til hlutafélög um einstaka flugvelli. Sömuleiðis ef um væri að ræða að flugvellirnir sjálfir þ.e. flugbrautirnar væru færðar undir hlutafélag af þessu tagi. Ég skil þetta frumvarp svo að það sé ekki þannig.

Að því leyti til er þetta t.d. frábrugðið þeirri hugmynd sem hæstv. utanríkisráðherra, sem messar hér á eftir, hefur sett fram varðandi rekstur á Keflavíkurflugvelli. Þetta er alla vega skilningur minn á þessu stigi málsins. Ég hef einungis hlustað á þessa umræðu. Ég hef lesið þetta frumvarp en hef ekki brotið það til mergjar enda ekki hægt að ætlast til þess í 1. umr. sem er ekki beinlínis sú umræða sem menn koma endilega fram með fastmótaða skoðun eftir að hafa þaulrannsakað málið. Það hef ég ekki gert.