132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[21:42]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst um Búlgaríuútrásina. Hún var sett fram til að varpa ljósi á umræðu um málefnið almennt en ekki sérstaklega það sem hér er til umfjöllunar, aðeins í víðara samhengi.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra að auðvitað byggir þetta fyrst og fremst allt saman á trausti og góðu samstarfi. Það held ég hins vegar að sé hægt að ná fram við núverandi skipulag í öllum grundvallaratriðum og spyr sjálfan mig hvort það geti verið að hæstv. ráðherra og ríkisstjórn telji að þurfi að svipta starfsmenn réttindum til að svo megi verða á sem ákjósanlegastan hátt. Því þessi breyting gerir það óneitanlega, hún skerðir réttindi starfsmanna. Og það er meira að segja, og ég ítreka það aftur, vísað í það sérstaklega í gögnum sem unnin voru á vegum samgönguráðuneytisins að einn af ókostum þeirrar leiðar sem hefur verið við lýði fram til þessa, opinber rekstur, sé að starfsmennirnir njóti réttarstöðu opinberra starfsmanna. Þetta er hlutur sem við hljótum að þurfa að ræða.

Hæstv. ráðherra talar um nauðsyn þess að draga úr kostnaði við þessa starfsemi. Ég er því fylgjandi að þessi starfsemi sem önnur sé rekin á hagkvæman og markvissan hátt. En ég held að það væri æskilegt að hæstv. ráðherra skýrði nánar fyrir þinginu hvað hann nákvæmlega á við með þessu. Telur hann að það þurfi að fækka starfsmönnum? Þarf að lækka launin? Hvað er það sem þarf að ná fram í þessu efni sem ekki er hægt að gera við núverandi aðstæður eða lítillega breytt rekstrarform?