Skráning og þinglýsing skipa

Mánudaginn 24. apríl 2006, kl. 22:26:42 (7928)


132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Skráning og þinglýsing skipa.

666. mál
[22:26]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þótt ég deili ekki umhyggju hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar um flutninga á áli til og frá landinu þá sé ég vel mikilvægi þess að kaupskipaflotinn sé skráður hér, hafi hér heimilisfesti og sjómenn og aðrir starfsmenn sem tengjast þeim félögum njóti starfskjara og félagslegra réttinda um leið og íslenskt samfélag njóti krafta þeirra, samfélagslegra áhrifa og tekna sem starfsemin færir inn í samfélagið. Það hlýtur að vera gríðarlegt umhugsunarefni fyrir eyþjóð eins og okkur að ekkert kaupskip skuli skráð hér á landi.

Ég vil ég spyrja hv. þm. Guðmund Hallvarðsson, formann samgöngunefndar, hvort hann muni ekki beita sér fyrir því, ef ég legg fram kröfu um að fjármálaráðuneytið og samgönguráðuneytið komi á næsta fund samgöngunefndar og geri grein fyrir stöðu mála. Þeir komu á fund til okkar fyrr í haust og þá skildist mér að allt ætti að fara í gang og að unnið yrði í málinu. En einhvern hef ég á tilfinningunni að ekkert hafi gerst. Væri ekki rétt hjá okkur að krefjast þess að þessir aðilar komi inn á fund samgöngunefndar og geri grein fyrir stöðu málsins, hvað þeir hafi gert síðan í haust, hvernig málin standa og hvað gera þurfi til að snúa þróuninni við.