Íslenska friðargæslan

Mánudaginn 24. apríl 2006, kl. 23:12:24 (7943)


132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Íslenska friðargæslan.

634. mál
[23:12]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil leggja nokkur orð í belg við 1. umr. um frumvarp til laga um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu. Fyrir hartnær fimm árum, fimm árum í haust, var íslenska friðargæslan sett á stofn formlega, mig minnir að það hafi verið 10. september 2001, en eins og hv. þingmenn vita höfðu Íslendingar tekið þátt í einhvers konar friðargæsluverkefnum fram að þeim tíma, þó ekki í miklum mæli.

Frá því að skrifuð var og gefin út af utanríkisráðuneytinu skýrsla um þessi málefni árið 2000, hefur mikill vöxtur orðið í íslensku friðargæslunni. Það sést kannski best á því að á yfirstandandi fjárlagaári er varið 573 millj. kr. til friðargæslunnar, ég held að rétt sé hjá mér, rúmlega hálfum milljarði króna. Þetta eru gífurlegar upphæðir ef maður horfir bara á þær einar. Mig minnir einnig að það hafi verið áætlun utanríkisráðuneytisins að á þessu ári yrðu íslenskir friðargæsluliðar orðnir 50 talsins. Ég held að þeir séu 25 núna þannig að þeirri tölu hefur ekki verið náð en það kemur væntanlega í ljós við nánari umfjöllun um frumvarpið í nefndinni hvernig þau mál standa.

Hæstv. forseti. Margt hefur gerst í sögu íslensku friðargæslunnar á umliðnum tæpum fimm árum og mjög tímabært að setja einhvers konar lagaramma um starfsemi hennar. En eins og hæstv. utanríkisráðherra tók fram í framsögu sinni miðast löggjöf annars staðar, og væntanlega í nágrannaríkjum okkar, um þetta málefni, um málefni friðargæslu, við það að þau ríki hafa yfir her að ráða. Eins og margoft hefur komið fram í umræðum um málefni friðargæslunnar á hinu háa Alþingi er að mörgu leyti nokkuð augljóst að upphaflega, þegar friðargæsluverkefnin voru kannski einfaldari en þau eru í dag, voru verkefnin sem þarna var um að ræða verkefni hermanna. Ég hef leyft mér að orða það svo að friðargæslan geti verið hin hliðin á hermennskunni vegna þess að til hennar þurfi oft og tíðum mjög svipaða þjálfun og svipaðan grunn til að standa á.

Hins vegar er það svo að á síðustu árum, sérstaklega síðustu 10, 15 árum eftir lok kalda stríðsins hefur umhverfi friðargæsluverkefna breyst mjög mikið og ég held að segja megi að nú sé um miklu flóknari verkefni að ræða en voru á árunum og áratugunum eftir seinni heimsstyrjöldina. Það þýðir í raun að verkefnin sem hægt er að fást við fyrir þau ríki sem vilja leggja eitthvað af mörkum á þessu sviði eru mjög fjölbreytileg og því hægur vandi fyrir stjórnvöld og þau ríki sem vilja leggja til mannafla og framlög til þess að stuðla að friði, efla friðargæslu eða stuðla að uppbyggingu eftir átök, að velja verkefni við hæfi.

Það hefur einmitt verið umræðan um verkefnaval íslensku friðargæslunnar sem við þingmenn Samfylkingarinnar höfum helst gert athugasemdir við á liðnum missirum. Okkur hefur þótt að sú áhersla sem lögð hefur verið á verkefni á vegum Atlantshafsbandalagsins hafi ekki í raun verið verkefnaval sem hæfir íslenskri þjóð, ef þannig má að orði komast, og að það sé í raun miklu nærtækara fyrir íslensk stjórnvöld að velja friðargæsluverkefni, eða velja það að starfa innan friðargæsluverkefna sem eru undir hatti annarra stofnana, ekki hernaðarbandalags heldur annarra stofnana og þá ekki síst stofnana Sameinuðu þjóðanna, hinna fjölmörgu stofnana Sameinuðu þjóðanna sem stuðla að þróun og uppbyggingu víða um heim eftir átök eða á hamfarasvæðum eða þar sem mikil neyð ríkir og þar er um auðugan garð að gresja. Með starfsemi sinni koma stofnanir Sameinuðu þjóðanna víða að í uppbyggingu eftir átök og reyna einnig að koma í veg fyrir að átök brjótist út.

Þess vegna finnst mér athyglisvert að í 1. gr. frumvarpsins, þar sem talin eru upp friðargæsluverkefni ýmiss konar, segir, með leyfi forseta:

„Til friðargæsluverkefna heyra m.a. eftirfarandi aðgerðir:

a. Aðgerðir til að koma á friði með viðveru og starfi friðargæsluliða og skapa friðvænleg skilyrði til framtíðar á átakasvsæðum.

b. Aðgerðir til að halda hættuástandi á átakasvæðum í skefjum.

c. Aðgerðir til að tryggja stöðugleika og starfa með heimamönnum á átakasvæðum í því skyni að koma í veg fyrir að átök brjótist út.

d. Verkefni borgaralegra sérfræðinga sem stuðla að uppbyggingu stjórnmála- og efnahagslífs í þeim tilgangi að koma á varanlegum friði.“

Síðan er liður, þar sem segir:

„e. Mannúðar- og neyðaraðstoð við flóttafólk og fórnarlömb átaka eða náttúruhamfara.“

Ég hefði haldið að d-liðurinn, þau verkefni borgaralegra sérfræðinga sem stuðla að uppbyggingu stjórnmála- og efnahagslífs í þeim tilgangi að koma á varanlegum friði væri kannski sá liður sem Íslendingar ættu að leggja mesta áherslu á, því að þó svo að hinir liðirnir þrír, a, b og c, séu almennt orðaðir þá felst það í orðanna hljóðan að aðgerðir til að koma á friði með viðveru og starfi friðargæsluliða eða aðgerðir til að halda hættuástandi í skefjum eða eins og segir hér í c-lið „aðgerðir til að koma í veg fyrir að átök brjótist út“ eru kannski að stærstum hluta aðgerðir og verkefni sem kalla á að friðargæsluliðar beri vopn, að friðargæsluliðar séu ekki í borgaralegum verkefnum. Það er alla vega minn skilningur á því sem hér er sagt í 1. gr. frumvarpsins en við munum að sjálfsögðu fara vel yfir í hv. utanríkismálanefnd nákvæmlega hvað hér er undir og hvernig sú forgangsröðun eigi að vera og má vel vera að þingnefndin hafi um það aðrar hugmyndir en þær sem hér eru.

Að lokum, e-liðurinn, „Mannúðar- og neyðaraðstoð við flóttafólk og fórnarlömb átaka eða náttúruhamfara“, vissulega mjög mikilvæg starfsemi en þó ber að hafa í huga að þá aðstoð veita Íslendingar ekki síst á vettvangi frjálsra félagasamtaka í samstarfi við þau hvort heldur við erum að tala um starf Íslands innan Alþjóðarauðakrossins, Hjálparstarfs kirkjunnar eða annað slíkt. En ég útiloka að sjálfsögðu ekki að það geti líka verið inni á verkefnasviði friðargæslunnar með einhverjum hætti.

Tvö önnur atriði vil ég minnast sérstaklega á hér við 1. umr. en í 7. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Íslenskir friðargæsluliðar skulu gangast undir siðareglur um störf sín sem utanríkisráðuneytið semur.“

Ég hef áður spurst fyrir um þessar siðareglur hér í þessum sal og þá voru svörin þau að þær væru í mótun, það væri verið að skrifa þær. Mig langar til að inna hæstv. utanríkisráðherra eftir því hvort þessar siðareglur liggi fyrir, hvort þær hafi verið birtar eða kunngjörðar með einhverjum hætti og hvernig friðargæsluliðum sé uppálagt að fylgja þeim, hvort þeir séu t.d. beðnir um að undirrita þær eða hvernig þeim sé framfylgt með öðrum hætti, þ.e. sé búið að skrifa þær og ráðuneytið farið að fylgja þeim eftir.

Annað atriði varðar líka verkefnavalið og varðar það sem kallað hefur verið kynjasjónarmiðin í þessu starfi öllu. Það vita allir sem hafa kynnt sér það að við uppbyggingu, sérstaklega á stríðshrjáðum svæðum og eftir átök, skiptir mjög miklu máli og er í raun algjört grundvallaratriði í slíku starfi að rödd kvenna fái að heyrast og að sjónarmið þeirra séu höfð til hliðsjónar í öllu uppbyggingarstarfi. Birna Þórarinsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri UNIFEM á Íslandi skrifaði góða skýrslu um þessi mál sem kom út á síðasta ári, að mig minnir, um kynjasjónarmiðin innan friðargæslunnar. Þar kom í ljós að með þeirri áherslu sem lögð hefur verið á verkefnin innan NATO hefur hallað á þann veginn í friðargæslunni að minni áhersla hefur verið lögð á þau verkefni þar sem í raun væri hægt að vinna betur að réttindum kvenna, barna og að þeim kynjasjónarmiðum sem skipta mjög miklu máli í svona starfi. Verkefni sem Ísland hefur styrkt á vegum UNIFEM í Kosovo er ágætis dæmi um hvernig verkefni er hægt að setja undir þennan hatt.

Ég hygg að við ættum og við gætum lagt miklu meiri áherslu á þessa tegund verkefna í starfi friðargæslunnar, þar með líka fengið fleiri konur til starfa í friðargæslunni. Ég held að það hafi gildi í sjálfu sér að fleiri konur komi þar til starfa og ekki síður hefur það mjög mikið gildi í öllu alþjóðastarfi sem íslensk stjórnvöld taka þátt í að sjónarmið kvenfrelsis og kvenréttinda séu þar ofarlega á blaði, helst efst að mínu viti, og séu höfð að leiðarljósi í verkefnavali og öðru, því eins og allir vita eru langflest fórnarlömb stríðsátaka og þeirra hörmunga þeim fylgja konur og börn. Það eru konur og börn sem eru hrakin á flótta, misþyrmt, nauðgað og fótunum kippt undan þeim með margvíslegum hætti. Það eru einmitt þessir hópar sem þurfa mestrar aðstoðar við í uppbyggingu eftir átök og í raunverulegri friðaruppbyggingu. Ég vil því geta þess hér við 1. umr. að mér fyndist það líka við hæfi í þeim ramma sem hér er verið að móta utan um starfsemi friðargæslunnar að þess væri getið með einhverjum hætti í markmiðsgreininni að það væri stefna íslenskra stjórnvalda að sinna þessum málum sérstaklega og leggja sérstaklega áherslu á verkefni sem stuðla að bættum hag kvenna og barna eftir átök og stuðla að þátttöku þeirra í samfélaginu.

Í fljótu bragði, hæstv. forseti, eru ekki fleiri atriði sem ég vil koma inn á hér við 1. umr. nema kannski eitt í lokin. Það hefur verið frá því sagt einhvers staðar að íslenska friðargæslan hafi stefnt að því að taka þátt í fleiri verkefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna, eins og hæstv. ráðherra reyndar minntist á lauslega. Þar hefur m.a. verið talað um World Food Program, Matvælahjálp Sameinuðu þjóðanna. Ég vil þá nota tækifærið til að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort slíkt starf væri komið af stað eða undirbúningur að þátttöku í því og þá að hnýta við það hvort fleiri verkefni eða önnur verkefni á vegum stofnana Sameinuðu þjóðanna sem íslenska friðargæslan hefði áætlanir um að taka þátt í væru í farvatninu.