Íslenska friðargæslan

Mánudaginn 24. apríl 2006, kl. 23:34:06 (7945)


132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Íslenska friðargæslan.

634. mál
[23:34]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. 4. þm. Suðvest., Þórunn Sveinbjarnardóttir, hefur gert ágætlega grein fyrir helstu áherslum okkar í Samfylkingunni hvað þessu máli viðvíkur. Ég treysti því að það muni fá vandaða umfjöllun í utanríkismálanefnd þingsins og treysti því jafnframt í ljósi þess að nú eru aðeins tíu dagar til þingloka að það sé sannarlega ekki ætlun hæstv. utanríkisráðherra að afgreiða jafnmikilvægt og mikilsvert lagafrumvarp í gegnum þingið að þessu sinni heldur sé það fyrst og fremst tekið hér til kynningar og ætlunin sé að taka það til afgreiðslu á næsta vetri. Mér þætti vænt um að fá viðbrögð hæstv. utanríkisráðherra við því. En ég held að við hljótum öll að geta verið sammála um að mikilvægt sé að utanríkismálanefnd fari vel yfir málið og standi hér sem best að verki.

Það sem rak mig hins vegar í ræðustólinn, þrátt fyrir ágæta ræðu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur og hv. þm. Ögmundar Jónassonar um þetta efni, voru satt að segja áhyggjur af áhyggjuleysi hæstv. utanríkisráðherra í andsvörum við mig áðan þegar hæstv. ráðherra lýsti því yfir að við gættum þess að senda friðargæsluliða okkar ekki á hættulegustu svæðin um leið að hann gat þess að við værum að vísu með friðargæsluliða í Írak. Ætli það séu nú til öllu hættulegri staðir í heiminum um þessar mundir til að vera á þar sem tugþúsundir manna hafa fallið á umliðnum missirum í kjölfar hins ólögmæta árásarstríðs sem ríkisstjórn Íslands lýsti stuðningi við? Ég hlýt þess vegna að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann telji Írak ekki til hættulegustu svæða og hvort ekki sé ábyrgðarhlutur að senda menn þangað, og árétta spurningu mína frá því í andsvörum áðan um það á hvers vegum sprengjuleitarmenn okkar voru í Írak. Var það á vegum Sameinuðu þjóðanna, var það á vegum Atlantshafsbandalagsins, var það á vegum innrásarliðsins eða á hvers vegum voru þeir þar niður frá og voru þeir undir vopnum? Ef friðargæsluliðar okkar eru þar undir vopnum, skilur hæstv. utanríkisráðherra þá lagaheimildir sínar þannig að honum sé, að gildandi lögum, heimilt að senda vopnaða menn án sérstakra samþykkta inn á átakasvæði og í kjölfar ólögmætra innrásaraðgerða eins og í Írak, og á grundvelli hvaða heimilda telur hæstv. ráðherra sig hafa það vald?

Verði hæstv. utanríkisráðherra falið það vald að ákveða að senda friðargæsluliða á hverja þá staði í veröldinni sem hann telur rétt, ef þannig á um hnútana að binda tel ég algerlega óhjákvæmilegt að skylt sé í þessum lögum að lagt verði formlegt áhættumat á þau verkefni sem fyrir valinu eiga að verða þannig að það sé alveg tryggt og lögbundið að farið sé yfir þá áhættu sem í því felst að senda menn inn í tiltekin lönd við tilteknar aðstæður og að það sé sannarlega vandað til undirbúningsins hvað viðvíkur áhættunni því að auðvitað erum við að senda okkar fólk inn í erfiðar aðstæður og oft og tíðum viðsjárverðar.

Ég held að það væri líka þarflegt við þessa umræðu ef hæstv. utanríkisráðherra gæti upplýst okkur um stöðu þessara mála í Afganistan, að hve miklu leyti friðargæslan er þar að störfum núna og á hvaða svæðum og hvernig hann metur þá hættu sem þar er nú í kjölfar þeirra atburða og vaxandi rósturs sem virðist vera þar í landi.

Þá er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvernig á því stendur að það er sérstaklega tiltekið í frumvarpinu og farið í það að undanskilja ráðningar friðargæsluliða auglýsingum um opinber störf. Í fljótu bragði verður ekki annað séð en að jafnmikilvægt sé um þessi störf eins og önnur störf í þágu ríkisins að til þeirra fáist bestu menn sem völ er á á hverjum tíma og opnasta og gagnsæjasta leiðin til þess hlýtur að vera sú að auglýsa þau störf og að þar sé ráðið eftir verðleikum og eftir þeim lögum sem um þau efni gilda í starfsmannamálum ríkisins. Verður ekki séð að það séu neinar sérstakar aðstæður sem kalli á að heimila ráðherra að víkja frá því að auglýsa þessi störf eða að það sé nokkurt sérstakt tilefni til þess að fela utanríkisráðuneytinu einhvers konar geðþóttavald um ráðningar í friðargæsluna, heldur séu þetta einmitt ákaflega veigamikil og viðkvæm störf sem mikilvægt er að vel og faglega sé staðið að ráðningu í. Þess vegna inni ég hæstv. ráðherra eftir skýringum á þessum ákvæðum í frumvarpinu.

Okkur gefst nú væntanlega gott tækifæri til að fjalla um þetta mál við 2. umr. eða næst þegar málið kemur inn í þingið að hausti, en ég vildi að lokum, kannski fyrir forvitni sakir, spyrja fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra um undanþáguákvæðin í lögum þessum varðandi skattskyldu þessara tilteknu starfsmanna ríkisins og hvort þessir starfsmenn séu í dag undanþegnir sköttum og skyldum og þá á grundvelli hvaða laga það er, ef svo er. Hvers vegna ráðherrann sé að sækja um sérstakar skattundanþágur fyrir starfsmenn sína og hvort það sé ekki plagsiður sem verið er að reyna að hverfa frá hvarvetna í löggjöf og opinberum rekstri, að afnema sérstakar undanþágur og flækjur í okkar annars ágæta skattkerfi.