Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. apríl 2006, kl. 15:18:37 (7970)


132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Atvinnuleysistryggingar.

742. mál
[15:18]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma hér upp og segja nokkur orð um þau ágætisfrumvörp sem hér eru lögð fram, þ.e. frumvarp til laga um atvinnuleysistryggingar og eins um vinnumarkaðsaðgerðir en eins og hér hefur komið fram í umræðum þá tengjast þessi mál mjög náið. Ekki síst vegna ræðu síðasta hv. þingmanns vil ég koma inn á að tilgangur þess að þessi tvö mál eru lögð fram saman er sá að hvetja fólk og hjálpa þeim sem eru í atvinnuleit. Kerfið hefur kannski ekki reynst alveg nógu hvetjandi eins og það er og með þessu er reynt að bregðast við því.

Í nóvember síðastliðnum starfaði nefnd sem skilaði af sér skýrslu um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir og þessi frumvörp eru einmitt byggð á þeirri skýrslu. Þarna koma að hinir ýmsu aðilar og hafa náð saman um ákveðin meginatriði enda eru þessi frumvörp mjög viðamikil og hér er um að ræða gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir marga. Við erum að horfast í augu við þýðingarmiklar breytingar, bæði hvað varðar atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég er mjög samþykk þeirri tekjutengingu sem við sjáum hér, þ.e. allt að 180 þús. kr. í nokkra mánuði. Samhliða þessu er auðvitað verið að efla vinnumarkaðsaðgerðirnar.

Ég er ekki sammála því að tekjutenging letji til atvinnuleitar því ég held að fólk sem er með sæmilega góð laun muni ekki sækjast eftir því að fara á atvinnuleysisbætur. Við skulum líka muna að þetta er í afmarkaðan tíma en þarna verið að draga úr þessu mikla áfalli. Eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson kom inn á áðan þá eru auðvitað skiptar skoðanir um þetta en vonandi mun þetta hjálpa mörgum.

Það er ein grein sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á vegna þess að hún er nokkuð kunnugleg og ég er afskaplega ánægð að sjá hana þarna inni en það er 25. gr. sem fjallar um nám. Ég man að þegar ég var í stúdentaráði vorum við að berjast fyrir nákvæmlega þessu máli en þarna er fjallað um að aðili sem ákveðið hefur að fara í nám en fær ekki vinnu að námi loknu eigi rétt á atvinnuleysisbótum og þá skal miða við þá vinnu sem hann hafði fyrir, þ.e. áður en hann hóf nám. Þarna er sem sagt verið að miða við þriggja ára nám. Þetta kemur fólki til góða, ekki síst því sem er að fara í framhaldsnám og er að sækja sér meistaragráðu. Þegar það kemur út á vinnumarkaðinn á ný veit það ekki hvernig atvinnuástandið er en á þá rétt á þessum bótum í einhvern tíma. Þetta er skilyrt því að fólk hafi klárað námið. Ég álít þetta vera mjög mikilvæga grein sem eigi eftir að hjálpa mörgum. Þetta virkar afskaplega hvetjandi til að fá fólk til að fara aftur í nám og sækja sér framhaldsmenntun. Við erum alltaf að tala um að nám sé þjóðhagslega hagkvæmt og þetta passar vel inn í þá mynd, þannig að ég vildi vekja athygli á þessu. Að öðru leyti hafa komið fram ýmsar spurningar til hæstv. félagsmálaráðherra. Hann mun eflaust svara þeim í ræðu sinni og við munum síðan fá frumvarpið inn í félagsmálanefnd. Eins og ég sagði áðan þá eru þetta mjög viðamikil frumvörp. Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni með þau. Það eru auðvitað alltaf einhver atriði sem standa út af en mér heyrist á þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað að mikill vilji sé til að afgreiða þetta mál og ná saman um það og ég hef ekki trú á öðru en að svo verði.