Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. apríl 2006, kl. 15:44:29 (7976)


132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Atvinnuleysistryggingar.

742. mál
[15:44]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. félagsmálaráðherra um að þessi frumvörp ættu að verða til bóta, bæði frumvarp um atvinnuleysistryggingar og frumvarp um vinnumarkaðsaðgerðir. En hér eru verkefni flutt til Vinnumálastofnunar, m.a. frá verkalýðsfélögunum til stofnunarinnar. Ég velti því fyrir mér hver sé raunveruleg ástæða fyrir því. Það virkar a.m.k. eins og um ákveðið vantraust sé að ræða, án þess að ég ætli að fullyrða það, á verkalýðsfélögunum.

Það vekur jafnframt athygli mína að í þessum frumvörpum, sem öðrum sem hafa komið frá félagsmálaráðherra á síðustu mánuðum, eru aukin verkefni flutt til Vinnumálastofnunar án þess að gert sé ráð fyrir auknum útgjöldum. Það kemur yfirleitt fram í umsögnum frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að ekki sé gert ráð fyrir að löggilding frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Ég velti fyrir mér hvort Vinnumálastofnun geti tekið við öllum þeim auknu verkefnum. Rafræn skjöl og annað kunna að breyta einhverju, og menn geti unnið verkin hraðar. En ég velti fyrir mér hvort Vinnumálastofnun geti tekið við auknum verkefnum sem hafa fylgt þessum frumvörpum án þess að það kalli á aukin útgjöld, og þá kannski fyrst og fremst á fjölgun starfsfólks.