Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 25. apríl 2006, kl. 15:46:32 (7977)


132. löggjafarþing — 108. fundur,  25. apr. 2006.

Atvinnuleysistryggingar.

742. mál
[15:46]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi segja að það er að engu leyti vantraust á verkalýðsfélögin að breyta þessu skipulagi. Þarna er verið að samræma afgreiðslur og það er að engu leyti vantraust á það ágæta starf sem verkalýðsfélögin hafa unnið í þessu máli. Þessar afgreiðslur hafa verið dreifðar en með frumvörpunum er verið að samræma þær undir einn hatt og á að okkar mati að verða skilvirkara.

Varðandi Vinnumálastofnun þá þarf vissulega að styrkja stoðir hennar. Það er eitt af því sem við erum með til skoðunar í ráðuneytinu en henni hefur vaxið mjög fiskur um hrygg á síðustu árum enda hafa henni verið falin mikilvæg verkefni. Það er vafalaust þörf á því að styrkja stoðir hennar enn frekar. Það er verkefni sem við munum líta sérstaklega á í framhaldi þess ef sú mikilvæga löggjöf sem hér um ræðir verður samþykkt.